Jónsbók (2004)/Rekaþáttur
Höfundur: óþekktur
Rekaþáttur
Hér byrjar hinn tíunda hlut lögbókar er heitir rekaþáttur og segir fyrst um viðreka og hvalreka
1.
Hver maður á reka allan fyrir landi sínu, viðar og hvala, sela og fiska, fugla og þara, nema með lögum sé frá komið. Ef við rekur á fjöru manns, þá skal hann marka viðarmarki sínu því sem áður hefir hann sýnt sex grönnum sínum. Eigi er lögmark ella. Rétt er honum að vaða til og marka þar viðinn ef hann kemur eigi úr flæðarmáli ef það er við þá fjöru hans er festa má reka á, og á hann þá þó að á annars fjöru komi sá viður. En hinn er fjöru á skal gjöra orð þeim er við á, ef hann veit hver á. Lýsa á maður að kirkju markinu, ella er hann sekur þrimur aurum við konung. En ef hinn gjörir eigi eftir innan tólf mánaða síðan hann fréttir, þá leysi hann út með fullu landnámi sem sá er maður til er land á, það er viður liggur á. Ef við eður hval rekur í gegnum merkiósa á land upp, þá á sá það er land á fyrir ofan. Ef vötn eður lón ganga fyrir ofan fjöru manns og kastar þar hval eður viði yfir malarkamb eður eyrartanga upp í vatn mitt, þá á sá maður það er land á fyrir ofan ef á land rekur. Helgar þar festur hval en mark við sem annars staðar. Ef nýja ósa brýtur upp í gegnum fjöru manns og rekur þar hval eður við upp á jörð, þá á sá það sem fjöru á fyrir utan. En þó að brjóti nýja ósa upp í gegnum fjöru manns, þá skal hinn forni ós ráða. Ef hval eður tré verpur á jörð upp, þá á sá maður bæði er reka á. En ef þar er jörð gróin yfir viði eður beinum, þá á sá maður bæði er jörð á. En þar sem tré eður bein finnst í jörðu, hálf ofar en nú gengur flóð yfir, og á sá maður það er jörð á fyrir ofan, hvort sem er bein eður viður. Ef tré eður bein eða tálkn eru í flæðarmáli þó að sandi sé orpin eður grjóti fest, þá á sá maður það allt er fjöru á. Nú eru ósar að merkjum, þá á hvor þeirra reka til miðs óssins. Ef rekann festir í miðjum ósinum, þá á hálfan rekann hvor þeirra. Nú rekur hval eður við upp eftir ósinum og kastar á svarðfast land eður festir í vatnsbökkum fyrir ofan rekamark, þá á sá er jörð á eður eyrar ef þar festir á, nema festi í miðjum ósinum, þá skal rekinn jafnt hverfa til hvors landsins og allt það er þar festir. Ef birkivið rekur út um merkiósa og á sá það er jörð á fyrir ofan reka þann er við rekur á. Ef við rekur að ósum ofan og festir í eyrum eður rekur á land upp, þá á sá þann við er jörð á, nema einn maður eigi skóg allan, þá á sá.
2. Hér segir hvar maður má flutningar taka fyrir annars landi
Hver maður má fénýta sér við þann allan er hann finnur fljótanda fyrir annars landi út frá rekamarki. Taka má maður þar hval og við fyrir annars landi er engi er von að festi, nema svo sé nær þeirri fjöru er reka má festa að þaðan megi sjá fisk á borði ef eigi bæri land fyrir, og svo á allar flutningar að taka. Ef maður flytur við sinn á annars manns fjöru, þá skal sá viður þar eigi lengur liggja en þrjár nætur ef það er rekafjara, nema nauðsyn banni, ella bæti sá er við flutti fullu landnámi og skaðabót þeim er reka á. Rétt er honum að færa á land upp úr fjöru og hafa þaðan flutt innan tólf mánaða þaðan frá. Allir menn eigu að veiða fyrir utan netlög að ósekju. En það eru netlög yst er selnót stendur grunn tuttugu möskva djúp að fjöru og komi þá flár upp úr sjó. Ef maður kaupir reka af landi manns að lögmáli réttu og skilja þeir það eigi gjör en svo, þá á landeigandi af fjöru þeirri álnarlöng kefli öll og þaðan af smæri. En rekamaður á þar við allan ótelgdan þann er þar rekur upp og svo hvali þá alla er þar hlaupa kvikir á land nema menn valdi. Og svo á hann þá hvali alla er þar rekur upp. Sá maður er land á á þar þara allan og fugla alla og rostunga, sela alla, og svo ef maður drepur þar sel, hann á þar og hnísur allar og háskerðinga, og fiska alla, nema þar reki fleiri senn á land en fimm, þá á rekamaður. Landeigandi á þar flutningar allar og vogrek allt og hvali þá alla er fyrir mönnum hlaupa á land upp, og veiðar allar í netlögum og í fjörunni. Ef viður flýtur í netlögum þá á rekamaður þann. En ef utar er viður og má þó sjá fisk á borði, þá á sá maður er jörð á og allt það er þar flýtur. En fjörumaður á allt það sem í netlögum flýtur, hvort sem net er lagt af landi eður skeri. Ef sker eður eyjar liggja fyrir landi manns, þá á sá það og reka þann allan er því fylgir er meginland á næst, nema með lögum sé frá komið.
3. Hér segir hver hval á að festa eða hvað lögfestir er
Ef hval rekur á fjöru manns, þá skal sá er á landi býr þar næst festa hval þann hver sem fjöru á og hafi slíkt fyrir starf sitt sem fyrr skilur leiguliða, þótt landsdrottinn búi sjálfur á jörðu. Hann skal festa hval þeim festum að eigi sé ósterkari en reip þau tíu að tveggja manna afli haldi hvert, og sé þá borinn annar endir um stokk eður stein. Rétt er honum að skera festar af sjálfum hvalnum og ef svo er festur þá ábyrgist hann eigi þó að út taki hvalinn, ef sumur er festarstúfur á landi en sumur í hval, þá á sá hvalinn er áður átti þó að á annars fjöru komi. Hann skal í brott flytja hvalinn hvort sem hann vill á skipi eður eykjum og neyta þar engis nema vatns og haga. En ef sex skynsamir menn sanna það með eiði að hvalur sé verr festur en nú var talt, þá á sá ekki í þó að út taki og ábyrgist að öllu ef annar á hval. Hann á þegar er hvalur er kominn að senda mann þann er fari fullum dagleiðum að segja þeim er reka á. En landbúi skal skera hval til fjórðungs og þeir menn er hann fær til, þar til er rekamaður kemur eður hans lögligur umboðsmaður, þá skulu þeir ráða þeim er óskorinn er. En ef fleiri menn eiga þar í reka, þá skal þeim orð gjöra er mest á í. En hinna hlut skal hann varðveita sem hann eigi sjálfur og ábyrgist við handvömmum sínum. Nú sker maður hval á fjöru og tekur fjósir út, tálkn eður bein, og rekur á annars fjöru, þá á sá það er fjöru á ef það er lengra frá fjörumarki hins en tvau hundruð faðma tólfræð. Svo er og um garnar og seymi og allt það er fémætt slítur út af hval. En ef urgur eru í fjósum þeim er út slítur, þá helga þær þeim er hval átti í fyrstu. Nú þó að hvalur sé minni en festingarhvalur eigi af að takast, þá er sá jafnskyldur er á jörðu býr að festa hinn minna sem hinn meira. Allt það er fémætt rekur á þá fjöru skal hann úr flæðarmáli færa sem hann eigi land og reka, ella ábyrgist hann að öllu við rekamann. Lauss er sá maður við reka varðveislu er á jörðu býr ef rekamaður hefir öðrum umboð fengið að lögum og skal sá þá fyrir sjá og ábyrgjast svo sem hinn skyldi. Ef nökkur maður kallar sá til meira hvals en fyrr hefir haft, sem menn vita að nökkuð á í reka, þá skal honum þó til handa skipta yfir það sem rekamaður veit að hann á, hálfu minna hval en hann kallar til. En sá þeirra sem að telur skal setja fimmtarstefnu og fara svo að þeirri stefnu sem fyrr vottar. Nú prófast svo að annar hvor hefir logið, gjaldi sá tvennum gjöldum þeim er á og kostnað sinn allan þann er hann hefir fyrir haft, og konungi hálfa mörk í ránbaug. Nú kemur hvalur eður tré á rekamark, þá eigi svo hvor sem reka á undir.
4. Hér segir um skotmannshlut á hval ef rekur
Ef hval rekur á fjöru manns og á fjörumaður þann allan ef eigi er skot í, en ef skot finnst í hval það er þingborið mark er á, þá á skotmaður hálfan ef hann kemur til áður hans hlutur er allur virður og veginn og af fjöru fluttur. En svo skal maður skots leita sem hann ætti skots von í hval á annars fjöru. Sá maður á vætt spiks af skotmannshlut er fyrstur finnur skot. Ef fjörumaður veit hver skot á, þá skal hann gjöra honum orð ef hann er svo nær að fara megi tvívegis þann dag er þá er ef hann færi árdegis. En svo mikið skal hann hafa af síðara degi sem þá var af hinum fyrra er hann var sendur. En ef hann gjörir eigi orð skotmanni þegar skot finnst, þá er hann sekur mörk, hafi konungur hálfa en skotmaður hálfa, og slíkan hval sem honum væri að lögum orð gjör. Landeigandi á að skera til fjórðungs skotmannshlut, þar til er skotmaður kemur til, og ábyrgist hann þá þann hval við skotmann. Síðan skal skotmaður ráða hinum óskorna og ábyrgist sjálfur þann þá er hann kemur til. Og ef hinn dylur að hann eigi það skot, þá skal skotmaður láta bera tveggja manna vitni með svörðum eiði að það er hans skot og eigi gaf hann né galt og eigi sölum seldi svo að þeir vissi. En ef hinn vill þá eigi þann hval lausan láta, sæki sem vitafé. En hver er leynir skotinu, þá er hann þjófur útlægur og skiptist fé hans eftir því sem vottar í óbótamálum. Nú sker maður hval undan festum um nátt og fara þeir til sem ekki eiga í, þá sekist sá hver er það gerir þrettán mörkum við konung en þeir hafi hval sinn sem eigu.
5. Hér segir um skotmannshlut ef skyti er eigi nær
Hvervetna þar sem skotmaður kemur svo til skothvals að sumur er óskorinn, þá skal hann ráða hinum óskorna en hinn hafi fjórðung af þeim er hann skar, og svo skal jafnan fara ef skotmaður kemur fyrr til hvals en hans hlutur er allur virður og veginn og af fjöru fluttur. Nú kemur engi til að kalla til skots þess að þar er fundið, þá á landeigandi að varðveita skotið og hafa skotmannshlut hálfan, hversu sem hann kemur kaupi við skurðarmenn. Skotmannshlut skulu virða sex skynsamir menn til vaðmála. Nú eru fleiri skot í hval en eitt, þá á sá hvalinn er fyrstur kom banaskoti á hann og þingborið mark hafi. Ekki sakar ef í spik kemur. Ef maður veiðir hval þann er áður er banvænn af þingbornu skoti, þá á sá skotmannshlut er skaut fyrri en hinn fyrir starf sitt eftir sex manna dómi. Þeir skulu skothval virða er skynsamir eru og næstir búa því er skot finnst. Sá maður á að varðveita skotmannshlut er land á, ef annar á reka, en hálft á hvor bein og tálkn. Landeigandi á heimting við rekamann ef hvalur er seldur áður en skot finnst, en skotmaður við hann. Ef hval slítur út, þann er menn hafa skorið, og finnst skot í, hvar sem á land rekur, þá á skotmaður heimtu af öllum þeim er þá fjöru áttu er sá hvalur kom, og svo ef menn finna eður skera hval á fljóti, þá skeri til helmingar ef lögliga er virður en til fjórðungs ef eigi er virður. Sá maður er skot hefir að varðveita skal sýna það og segja til marks á skotinu á alþingi, og svo til nafns síns eður umboðsmaður hans, og hversu mikið fé fylgir skoti, og lúka þar á þinginu þeim er taka á eða fá fullar vörslur. Ef fleiri menn hafa það fé að varðveita, þá skulu þeir svo gera þegar hann hefir sagt til skots. En ef nökkur vill eigi greiða skotfé, sæki sem vitafé, hvort sem sækir skotmaður eður hans umboðsmaður eða landbúi sá er hval seldi. Nú verður hvalur eigi virður, þá skal skotmannshlutur til fjórðungs skorinn hafa verið, en ella til helmings ef skyti kemur eigi til áður hans hlutur er allur virður og veginn og af fjöru fluttur. Hvalskyti hver skal sýna grönnum sínum sex mark á skoti því er hann vill hafa og síðan í lögréttu, nema hann hafi keypt þingborið mark eða sé honum léð, gefið eður goldið, og hafi hann þar votta til, þá er honum það jafnheimilt sem hitt. Nú kemur skotmaður eigi til hvals áður hans hlutur er virður og veginn og af fjöru fluttur, en umboðsmaður hans kemur til, þá skal skotmannshlutur til helmingar skorinn hafa verið og skal hann því aðeins í brott hafa þann hval er skotmaður hlýtur, nema hann láti bera vitni um að hann er umboðsmaður hans eður landeigandi lofi ella.
6. Hér segir um hvalflutningar
Ef maður finnur hval á fljóti, þá skal hann flytja hvert er hann vill ef það er utar fyrir annars landi en fisk sér á borði. Það skal vera þorskur flattur álnar í öxarþærum á því borði er til lands veit, skal útleggja til sýnar og þaðan til sjá sem lengst fjarar. Ef menn koma til þá er hann hefir festar borið í hval, þá er hann eigi skyldur við þeim að taka ef hann fær fluttan, og þó að þeir beri festar í hval þá eiga þeir eigi að heldur. Nú koma þeir eigi hval til lands er níttu liði hinna, þá skulu þeir ábyrgjast hvalinn við þá eftir því sem sex skynsamir menn virða.
7. Hér greinir hvalskipti
Þess hvals er fluttur er eigu flytjendur þriðjung en landeigandi tvo hluti nema skot finnist í, þá á skotmaður þriðjung og skal sá skotmannshlutur að öllu svo fara sem um rekahval skilur. En þeir menn sem fyrst bera festar í hval eiga að hafa finnandaspik af honum, það eru þrír tigir átta fjórðunga vættir, hálft hvort spik og rengi, ef hvalur er tvítögur eður lengri óskerður eður svo skerður að hann sé eigi minni þess kyns hvalur. Það á allt af flutningarþriðjungi að taka. En ef þeir hafa nökkuð skorið á skip sitt en flytja það sem eftir er, þá skulu þeir það fyrir finnandaspik hafa en skipta sem öðrum hval því sem meira er. Ef landeigandi er að flutningi, þá á hann kost að flytja hvalinn á sitt land. En ef þangað er lengra, þá ábyrgist hann hvalinn við sína lagsmenn ef þeir missa fyrir það. Ef landeigendur eru fleiri að flutningu, þá skal á þess land flytja sem land á næst. En ef skynsamir menn bera að hvalur sé á annað land fluttur en lög segja, þá á sá landshlut í hval er það land átti að hvalur væri rétt fluttur á. En hver þeirra sekur mörk við hann er að flutningu var. Og ef þeir menn láta lausan hvalinn er hönd hafa að, þá skulu þeir til fjórðungs skorið hafa. Ef griðmenn manns finna hval á fljóti og á bóndi verk þeirra allt, þá á hann hvalinn. En ef hann á fiski þeirra aðeins, þá á hann eigi meira en sýslan dvaldist sú er hann átti, eftir því sem sex skynsamir menn meta, og skiphlut sinn, og ábyrgist skip sem áður. Nú flytja menn hval úr almenningu, þá eignast þeir eigi nema þeir beri fyrr festar á land en þeir láti hval lausan og festi sem fyrr vottar, ella er það rekhvalur. Nú rekur hval svo mjög fyrir veðri eður straumi að hann ræður skipinu en eigi skipið honum, þá er sem þeir hafi ófundið hval.
8. Hér segir hvar hval skal eigi taka
Ef menn flytja hval þaðan frá landi manns er sjá má fisk á borði, þá á sá hval er áður átti. En hver þeirra sekur mörk við hann ef þeir vissu. Í fjörðum eður sundum þar sem hvalur flýtur svo að sjá má fisk á borði af fleirum löndum en einu, þá eiga þeir allir jafnt hval er lönd eigu svo nær, þó að einnhver þeirra flyti á sitt land, nema af einshvers landi standi svo mikið veður að þangað mátti eigi flytja. Ef menn reka hvali á land manns, þá eiga þeir tvo hluti en landeigandi þriðjung. Ef menn finna hval í vökum utar en fisk sér á borði, þá á sá er fyrstur finnur allan þann er hann kemur á ís upp. Nú koma menn að og bera vopn á hvali þá og festa við ísbrún svo að eigi má sökkva, þá eiga þeir er veiða. En þeir sem síðar koma til og neita hinir liði þeirra og sökkur hvalur fyrir það, þá ábyrgist þeir er fyrri komu til eftir manntali við þá þann hval. En hvað sem þeir fá af, þá skulu þeir þar á land bera sem þeir vilja. En ef landsdrottinn telur að og segir að þeir spilli þar eng hans eður haga, bæti sem sex skynsamir menn meta skaða og landnám með þeim er gras á eður jörð. En ef hann leggur á hölkn eða holt eða fjöru þar sem engi er skaði að, flyti brott að ósekju. Nú finnur maður hval í ísum nær landi og þó fyrir utan netlög, þá á hann hálfan ef kvikur er en landeigandi allan ef dauður er. Nú gengur vök allt að landi sú er menn særa hvali í fyrir utan netlög og renna þeir kvikir á land upp, þá á svo að fara um eigin orð þeirra sem menn reki þá upp með skipum. En þó að menn skjóti hvali í vökum með þingbornum skotum, þá eiga þeir eigi heldur en aðrir menn, nema dauða reki á land, þá eiga þeir skotmannshlut. Hver maður á veiði sína fyrir utan netlög. Það er veiður er maður flytur á skipi til lands en flutningur ella. Ef maður veiðir hval í rekamarki fyrir utan netlög þar er fisk sér á borði, þá á sá allan er veiðir.
9. Hér segir um netjafund í látrum manns
Ef maður hittir net í látrum sínum og sel í, þá á hann sel og svo net, þar til sem hinn leysir út með landnámi. Nú má maður skjóta sel af skipi ef hann fer réttleiðiss, hvort sem selur er á sjó eður landi, nema hann liggi á látri því er stilli er til hlaðið, þá veiðir hann þeim er látur á. Nú skýtur maður sel af landi og er eigi stilli til hlaðið, þá skal sá sel hafa er látur átti. En ef stilli er til hlaðið þá skal hann hafa bæði sel og landnám með. Nú lýstur maður sel og finna þann aðrir menn, þá á sá hálfan er laust en sá hálfan er fann á fljóti. En sá skutil sinn er skaut ef skutill fylgir. Ef rekur á land manns hafurhval, björn, rostung, hnísu og sel, og finnst skot í, þá á sá þriðjung er skaut ef hann hefir vitni til skots síns að það er þingborið, þá skal sá maður er á landi býr því er á rekur lýsa því skoti að kirkju eður á þingi innan hálfs mánaðar. Ef maður hittir á sel eða hnísu eður aðra fiska utan hval fyrir ofan marbakka, og færir þeim er á jörðu býr, hafi hann fimmtung af en jörð fjóra hluti. En ef hann færir brott, færi aftur og leggi á landnám.
10. Hér segir sekt heilagra daga veiða
Ef hvalur er fluttur eður skorinn á löghelgum degi, þá skal gefa af hinn fimmta hlut þeim er fluttur er og af svo miklum sem skorinn er á helgum degi, en eigi er meira skylt. Af selaveiði og allri þeirri sem löghelgan dag er veidd skal gefa hinn fimmta hlut fátækum mönnum þar innan hrepps sem á land kemur, þeim er eigi gera tíund, og skulu hreppstjórnarmenn þessu skipta, því að svo hefir forn lög verið og vani. En hver maður er þetta vill eigi greiða er sekur sex aurum við konung.
11. Hér segir um hvalflutning úr almenningu
Ef menn flytja hval úr almenningu, þá skulu þeir fylgja festum til lands ef þeim er óhætt fyrir stormi og brimi. Nú skiljast þeir fyrir það við að þeim er eigi óhætt, þá eiga þeir þó hvalinn ef á það land rekur er þeir vildu á flytja. En ef annars staðar kemur þá er það rekhvalur.
12. Hér segir hversu vogrek skal fara
Það heitir vogrek er rekur á land manns lík eður vara og allt það er fémætt er og menn hafa átt, þó að það sé viðir telgdir, hvort sem því kastar á land með líkum eða öðruvíss. Landeigandi skal vogrek varðveita hver sem reka á. En sá er á jörðu býr skal það allt færa úr flæðarmáli og gera orð landsdrottni. En sá þeirra færi lík til kirkju sem betur kemst við og hafi af fénu til þess kostnaðar slíkt sem þarf. Sá er á jörðu býr skal ábyrgjast féið ef af hans vanrækt slítur út. Vogrek skulu virða sex skynsamir menn. Síðan skal landsdrottinn hafa það er meður spellum liggur eður selja öðrum ef hann vill og varðveita sem sitt fé, og ábyrgist hann þá eigi. Ef sá maður kemur til vogreks er réttar heimildir þikkist á eiga og hefir til þess skilrík vitni eður sver hann til lýritareið, hvort sem það er arfur manns eða öðruvís, þá skal hann það hafa sem hann kallar til en verð fyrir hitt sem lógað er. Nú koma eigi eigendur til, þá skal hann láta segja til á þingi hvað fé þar er rekið. Hann skal svo jafnan laust láta sem eigendur koma til, annaðhvort fé eður verð. En það sem engi verður eigandi til, þá eignast hann það. En ef landsdrottinn lætur eigi virða vogrek eður fer öðruvíss með en nú var talt, þá skal hann gjalda tvennum gjöldum er eigandi kemur til og er hann þó sekur mörk við konung. En ef hann leynir því fé og villir heimildir að vogreki, þá er hann þjófur ef það fé er svo mikið að þjófssök nemur.