Landnámabók/31. kafli
Kolur hét maður, er nam land utan frá Fjarðarhorni til Tröllaháls og út um Berserkseyri til Hraunsfjarðar. Hans son var Þórarinn og Þorgrímur; við þá er kennt Kolssonafell. Þeir feðgar bjuggu allir að Kolgröfum; frá þeim eru Kolgreflingar komnir.
Auðun stoti, son Vola hins sterka, nam Hraunsfjörð allan fyrir ofan Hraun, á milli Svínavatns og Tröllaháls; hann bjó í Hraunsfirði og var mikill fyrir sér og sterkur. Auðun átti Mýrúnu, dóttur Maddaðar Írakonungs.
Auðun sá um haust, að hestur apalgrár rann ofan frá Hjarðarvatni og til stóðhrossa hans; sá hafði undir stóðhestinn. Þá fór Auðun til og tók hinn grá hestinn og setti fyrir tveggja yxna sleða og ók saman alla töðu sína. Hesturinn var góður meðfarar um miðdegið; en er á leið, steig hann í völlinn til hófskeggja; en eftir sólarfall sleit hann allan reiðing og hljóp til vatnsins. Hann sást aldri síðan.
Son Auðunar var Steinn. Faðir Helgu, er átti Án í Hrauni; þeirra son var Már, faðir Guðríðar, móður Kjartans og Ánar í Kirkjufelli. Ásbjörn hét annar son Auðunar, þriðji Svarthöfði, en dóttir Þuríður, er Ásgeir átti á Eyri, þeirra son Þorlákur.