Landnámabók
66. kafli

Björn hét maður ágætur á Gautlandi; hann var son Hrólfs frá Ám; hann átti Hlíf, dóttur Hrólfs Ingjaldssonar, Fróðasonar konungs. Eyvindur hét son þeirra.

Björn varð ósáttur um jörð við Sigfast, mág Sölvars Gautakonungs, og brenndi Björn hann inni með þremur tigum manna. Síðan fór Björn til Noregs með tólfta mann, og tók við honum Grímur hersir son Kolbjarnar sneypis, og var (hann) með honum einn vetur. Þá vildi Grímur drepa Björn til fjár; því fór Björn til Öndótts kráku, er bjó í Hvinisfirði á Ögðum, og tók hann við honum. Björn var á sumrum í vesturvíking, en á vetrum með Öndótti, þar til er Hlíf kona hans andaðist á Gautlandi.

Þá kom Eyvindur son hans austan og tók við herskipum föður síns, en Björn fékk Helgu, systur Öndótts kráku, og var þeirra son Þrándur. Eyvindur fór þá í vesturvíking og hafði útgerðir fyrir Írlandi. Hann fékk Raförtu, dóttur Kjarvals Írakonungs, og staðfestist þar; því var hann kallaður Eyvindur austmaður.

Þau Raförta áttu son þann, er Helgi hét; hann seldu þau til fósturs í Suðureyjar. En er þau komu þar út tveim vetrum síðar, þá var hann sveltur, svo að þau kenndu hann eigi; þau höfðu hann bruttu með sér og kölluðu hann Helga hinn magra; hann var fæddur á Írlandi. En er hann var roskinn, gerðist hann virðingamaður mikill; hann fékk þá Þórunnar hyrnu, dóttur Ketils flatnefs, og áttu þau mörg börn. Hrólfur og Ingjaldur hétu synir þeirra.

Helgi hinn magri fór til Íslands með konu sína og börn; þar var og með honum Hámundur heljarskinn mágur hans, er átti Ingunni dóttur Helga. Helgi var blandinn mjög í trú; hann trúði á Krist, en hét á Þór til sjófara og harðræða.

Þá er Helgi sá Ísland, gekk hann til frétta við Þór, hvar land skyldi taka, en fréttin vísaði honum norður um landið. Þá spurði Hrólfur son hans, hvort Helgi mundi halda í Dumbshaf, ef Þór vísaði honum þangað, því að skipverjum þótti mál úr hafi, er áliðið var mjög sumarið.

Helgi tók land fyrir utan Hrísey, en fyrir innan Svarfaðardal; hann var hinn fyrsta vetur á Hámundarstöðum. Þeir fengu vetur mikinn.

Um vorið gekk Helgi upp á Sólarfjöll; þá sá hann, að svartara var miklu að sjá inn til fjarðarins, er þeir kölluðu Eyjafjörð af eyjum þeim, er þar lágu úti fyrir. Eftir það bar Helgi á skip sitt allt það, er hann átti, en Hámundur bjó eftir. Helgi lendi þá við Galtarhamar; þar skaut hann á land svínum tveimur, og hét gölturinn Sölvi. Þau fundust þremur vetrum síðar í Sölvadal; voru þá saman sjö tigir svína.

Helgi kannaði um sumarið hérað allt og nam allan Eyjafjörð milli Sigluness og Reynisness og gerði eld mikinn við hvern vatnsós og helgaði sér svo allt hérað. Hann sat þann vetur að Bíldsá, en um vorið færði Helgi bú sitt í Kristsnes og bjó þar, meðan hann lifði.

Í búfærslunni varð Þórunn léttari í Þórunnareyju í Eyjafjarðará; þar fæddi hún Þorbjörgu hólmasól. Helgi trúði á Krist og kenndi því við hann bústað sinn.

Eftir þetta tóku menn að byggja í landnámi Helga að hans ráði.