Landnámabók
81. kafli

Hjalti hét maður, er nam Kleifarlönd og allan Breiðdal þar upp frá; hans son var Kolgrímur, er margt er manna frá komið.

Herjólfur hét maður, er nam land allt út til Hvalsnesskriðna; hans son var Vopni, er Væpnlingar eru frá komnir.

Herjólfur bróðir Brynjólfs nam Heydalalönd fyrir neðan Tinnudalsá og út til Ormsár; hans son var Össur, er Breiðdælir eru frá komnir.

Skjöldólfur hét maður, er nam Streiti allt fyrir utan Gnúp og inn öðrum megin til Óss og til Skjöldólfsness hjá Fagradalsá í Breiðdali. Hans son var Háleygur, er þar bjó síðan; frá honum er Háleygjaætt komin.

Þjóðrekur hét maður; hann nam fyrst Breiðdal allan, en hann stökk braut þaðan fyrir Brynjólfi og ofan í Berufjörð og nam alla hina nyrðri strönd Berufjarðar og fyrir sunnan um Búlandsnes og inn til Rauðaskriðna öðrum megin og bjó þrjá vetur þar, er nú heitir Skáli. Síðan keypti Björn hinn hávi jarðir að honum, og eru frá honum Berufirðingar komnir.

Björn sviðinhorni hét maður, er nam Álftafjörð hinn nyrðra inn frá Rauðaskriðum og Sviðinhornadal.

Þorsteinn trumbubein hét frændi Böðvars hins hvíta og fór með honum til Íslands; hann nam land fyrir utan Leiruvog til Hvalsnesskriðna. Hans son var Kollur hinn grái, faðir Þorsteins, föður Þorgríms í Borgarhöfn, föður Steinunnar, er átti Gissur byskup.

Böðvar hinn hvíti var son Þorleifs miðlungs, Böðvarssonar snæþrimu, Þorleifssonar hvalaskúfs, Ánssonar, Arnarsonar hyrnu konungs, Þórissonar konungs, Svína-Böðvarssonar, Kaunssonar konungs, Sölgasonar konungs, Hrólfssonar úr Bergi, og Brand-Önundur frændi hans fóru af Vörs til Íslands og komu í Álftafjörð hinn syðra. Böðvar nam land inn frá Leiruvogi, dali þá alla, er þar liggja, og út öðrum megin til Múla og bjó að Hofi; hann reisti þar hof mikið.

Sonur Böðvars var Þorsteinn, er átti Þórdísi dóttur Össurar keiliselgs Hrollaugssonar. Þeirra son var Síðu-Hallur; hann átti Jóreiði Þiðrandadóttur, og er þaðan mikil ætt komin. Son þeirra var Þorsteinn, faðir Ámunda, föður Guðrúnar, móður Þórdísar, móður Helgu, móður Guðnýjar, móður Sturlusona.

Brand-Önundur nam land fyrir norðan Múla, Kambsdal og Melrakkanes og inn til Hamarsár, og er margt manna frá honum komið.

Þórður skeggi son Hrapps Bjarnarsonar bunu, hann átti Vilborgu Ósvaldsdóttur og Úlfrúnar Játmundardóttur. Þórður fór til Íslands og nam land í Lóni fyrir norðan Jökulsá milli og Lónsheiðar og bjó í Bæ tíu vetur eða lengur; þá frá hann til öndvegissúlna sinna fyrir neðan heiði í Leiruvogi; þá réðst hann vestur þannig og bjó á Skeggjastöðum, sem fyrr er ritað. Hann seldi þá Lónlönd Úlfljóti, er lög flutti út hingað. Dóttir Þórðar var Helga, er Ketilbjörn hinn gamli átti að Mosfelli.