Landnámabók
93. kafli

Úlfur gyldir hét hersir ríkur á Þelamörk; hann bjó á Fíflavöllum; hans son var Ásgrímur, er þar bjó síðan.

Haraldur konungur hárfagri sendi Þórorm frænda sinn úr Þrumu að heimta skatt af Ásgrími, en hann galt eigi. Þá sendi hann Þórorm annað sinn til höfuðs honum, og drap hann þá Ásgrím.

Þá var Þorsteinn son Ásgríms í víkingu, en Þorgeir, annar son hans, var tíu vetra. Nokkuru síðar kom Þorsteinn úr hernaði og lagði til Þrumu og brenndi Þórorm inni og hjú hans öll, en hjó búið og rænti öllu lausafé. Eftir það fór hann til Íslands og Þorgeir bróðir hans og Þórunn móðursystir þeirra; hún nam Þórunnarhálsa alla.

Þorgeir keypti Oddalönd að Hrafni Hængssyni og Strandir báðar og Vatnadal og allt milli Rangár og Hróarslækjar; hann bjó fyrst í Odda og fékk þá Þóríðar Eilífsdóttur.

Þorsteinn nam land að ráði Flosa, er numið hafði áður Rangárvöllu, fyrir ofan Víkingslæk til móts við Svínhaga-Björn (og) bjó í Skarðinu eystra.

Um hans daga kom skip út í Rangárós; þar var á sótt mikil, en menn vildu eigi hjálpa þeim. Þá fór Þorsteinn til þeirra og færði þá þangað, er nú heita Tjaldastaðir, og gerði þeim þar tjald og þjónaði þeim sjálfur, meðan þeir lifðu, en þeir dó allir. En sá, er lengst lifði, gróf niður fé mikið, og hefir það ekki fundist síðan. Af þessum atburðum varð Þorsteinn tjaldstæðingur kallaður; hans synir voru þeir Gunnar og Skeggi.