Landnámabók/94. kafli
Flosi hét maður, son Þorbjarnar hins gaulverska; hann drap þrjá sýslumenn Haralds konungs hárfagra og fór eftir það til Íslands; hann nam land fyrir austan Rangá, alla Rangárvöllu hina eystri. Hans dóttir var Ásný, móðir Þuríðar, er Valla-Brandur átti; son Valla-Brands var Flosi, faðir Kolbeins, föður Guðrúnar, er Sæmundur fróði átti.
Ketill hinn einhendi hét maður, son Auðunar þunnkárs; hann nam Rangárvöllu alla hina ytri fyrir ofan Lækjarbotna og fyrir austan Þjórsá og bjó að Á; hann átti Ásleifu Þorgilsdóttur. Þeirra son var Auðun, faðir Brynjólfs, föður Bergþórs, föður Þorláks, föður Þórhalls, föður Þorláks byskups hins helga.
Ketill aurriði, bræðrungur Ketils einhenda, nam land hið ytra með Þjórsá og bjó á Völlum hinum ytrum. Hans son var Helgi hrogn, er átti Helgu, dóttur Hrólfs rauðskeggs. Þeirra son var Oddur mjóvi, faðir Ásborgar, er átti Þorsteinn goði, og Oddnýjar, er Eilífur ungi átti.
Ormur auðgi, son Úlfs hvassa, nam land með Rangá að ráði Ketils einhenda og bjó í Húsagarði og Áskell son hans eftir hann, en hans son reisti fyrst bæ á Völlum; frá honum eru Vallverjar komnir.
Þorsteinn lunan hét maður norrænn og farmaður mikill; honum var það spáð, að hann mundi á því landi deyja, er þá var eigi byggt. Þorsteinn fór til Íslands í elli sinni með Þorgilsi syni sínum; þeir námu hinn efra hlut Þjórsárholta og bjuggu í Lunansholti, og þar var Þorsteinn heygður. Dóttir Þorgils var Ásleif, er átti Ketill einhendi. Synir þeirra voru þeir Auðun, er áður var nefndur, (og) Eilífur, faðir Þorgeirs, föður Skeggja, föður Hjalta í Þjórsárdal; hann var faðir Jórunnar, móður Guðrúnar, móður Einars, föður Magnúss byskups.
Gunnsteinn berserkjabani, son Bölverks blindingatrjónu drap tvo berserki, og hafði annar þeirra áður drepið Grjótgarð jarl í Sölva fyrir innan Agðanes. Gunnsteinn var síðan skotinn með öru finnskri úr skógi á skipi sínu norður í Hefni. Son Gunnsteins var Þorgeir, er átti Þórunni hina auðgu, dóttur Ketils einhenda; þeirra dóttir var Þórdís en mikla.