Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar/Hinn fyrri pistill s. Petrus
Höfundur: Oddur Gottskálksson
(Hinn fyrri S. Péturs pistill)
Fyrsti kapítuli
breytaPétur postuli Jesú Kristi. Þeim útvöldum örlendingum og í sundur tvístruðum í Ponto, Galakía, Kappadókía, Asía, Biþýnía eftir Guðs föðurs fyrirhyggju fyrir helgun andans, til hlýðni og til ádreifningar blóðsins Jesú Kristi.
Náð og friður margfaldist yður.
Blessaður sé Guð og faðir vors Drottins Jesú Kristi, sá oss eftir sinni mikilli miskunnsemd hefir endurgetið til lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Kristi frá dauðum til ófallvaltrar, óflekkaðrar og óumskiptilegrar arfleifðar sem varðveitist á himnum. Yður, þér sem af Guðs makt fyrir trúna varðveittir verðið til sáluhjálpar þeirrar sem tilreidd er það hún opinberist á síðustum tímum, í hverri þér munuð gleðjast. Þér sem nú litla stund (hvað að byrjar) hryggvir eruð í margvíslegum freistingum upp á það að yðvar trú réttilegri og dýrðmætari fundin yrði (en það hið forgengilega gull sem í eldi reynt verður) til lofs, dýrðar og heiðurs nær eð nú Jesús Kristus man opinberast,* þann þér sáuð ekki og þó elskið og nú á hann trúið. Þó að þér sjáið hann eigi, svo munu þér og einninn gleðjast með óumræðanlegri og dýrðarsamlegri gleði og endalok yðvarrar trúar þar af berandi sem er hjálpræði yðvarra sálna.
Eftir hverju hjálpræði hafa sókt og grennslast spámennirnir sem upp á yður af þeirri tilkomandi náð hafa fyrir spáð og rannsakað á hverjum eður hvílíkum tíma sem að andi Krists, sá með þeim var, tilteiknaði og áður fyrirfram hefir kunngjört þær píslanir sem að í Kristo eru og eftirkomandi dýrðir, hverjum það opinberað er. Því að eigi hafa þeir sjálfum sér, heldur oss þar inni þjónað hvað yður er nú kunngjört fyrir þá sem yður hafa guðsspjöllin boðað fyrir heilagan anda af himnum sendan, á hvern einninn englarnir fýsast að horfa.
Þar fyrir gyrðið yðrar hugskotslendar. Verið sparneytnir og setjið algjörlega yðra von upp á þá náð sem yður er boðuð fyrir opinberan Jesú Kristi svo sem hlýðugum börnum og hagið yður ekki líka sem áður fyrri þá þér í heimsku yðvarri eftir girndunum lifðuð, heldur eftir þeim sem yður hefir kallað og heilagur er. Svo verið þér og einninn heilagir í öllu yðar dagfari. Því að skrifað er: Vera skulu þér heilagir, því eg em heilagur.
Og með því þér ákallið þann föðurinn sem án manngreinarálits dæmir eftir hvers sem eins verknaði, því hagið yðru dagfari svo lengi sem þér hér gangið með óttablendni. Og vitið að þér eruð eigi með forgengilegu gulli eður silfri endurleystir í frá yðru hégómaathæfi eftir feðranna uppsetningi, heldur með dýrðmætu blóði Kristi svo sem hins óflekkaða og saklausa lambs, hver fyrirhugaður er fyrir veraldarinnar grundvallan, en opinberaður á síðustum tímum yðar vegna. Þér sem fyrir hann trúið á Guð, hver eð hann uppvakti í frá dauðum og honum dýrðina gefið upp á það að yðvar trú og von væri á Guði.
Og gjörið yðrar sálir hreinferðugar í hlýðni sannleiksins fyrir andann til bróðurlegs kærleika af allri smjaðran annarlegan. Og yður innbyrðis glóandi elskið af hreinu hjarta svo sem þeir, hverjir endurbornir eru, eigi af forgengilegu, heldur út af óforgengilegu sæði sem er út af orði Guðs lifanda það ævinlegana blífur. Því að allt hold er sem gras og öll dýrð mannsins svo sem blómstur grassins. Grasið er uppþornað og þess blómstur er affallið. En orð Drottins blífur að eilífu. En þetta er það orð, hvert á meðal yðar kunngjört er.
Annar kapítuli
breytaÞví leggið nú af alla illsku og allt svikræði og smjaður, öfund og alla bakmælgi og girnist þeirrar skynsamlegrar og vélalausrar mjólkur svo sem að nýfædd börn upp á það að þér greruð fyrir þá sömu ef þér hafið annars smakkað það Drottinn er ljúfur, til hvers helst þér eruð komnir svo sem til lifanda steins, hver af mönnum er burtkastaður, en hjá Guði útvalinn og dýrmætur er. Svo og þér einninn uppbyggið yður líka sem lifandi steina til andlegs húss og til heilags prestdæmis að offra andlegar offranir, þær Guði þakknæmar eru fyrir Jesúm Kristum.
Hvar fyrir það ritningin svo inniheldur: Sjáið, að eg legg í Síon útvaldan dýrðmætan hyrningarstein. Og hver á hann trúir, sá skal ekki að hneykslan verða. Yður, þér sem trúið, er hann dýrðmætur, en hinum vantrúuðum er hann sá steinn sem uppbyggjendur í burt fleygðu og gjörður er að höfði hyrningar og að ásteytingarsteini vorðinn og hneykslunarhellu þeim sem reka sig á orðið og þar eigi á trúa, hvar þeir eru upp á settir. En þér eruð það útvalda slekti og konunglegur kennimannsskapur, hin heilaga þjóð, fólk eigindómsins, svo að þér skuluð kunngjöra dyggðir hans sem yður hefir kallað af myrkrunum til síns undranarsamlega ljóss. Þér sem forðum daga ekkert fólk voruð, en nú eruð Guðs fólk. Og hverjir forðum ekki í náðinni voruð, en nú í náðinni eruð.
Kærir bræður, eg beiði yður líka sem framandi og vegfarendur að haldið yður af holdlegum girndum, hverjar í gegn sálunni stríða. Og hafið góða umgengni meðal heiðinna þjóða svo að þeir sem um yður á bak tala svo sem af illgjörðurum sjái yðar góðverk, dýrki Guð á vitjunardegi.
Verið undirgefnir allri mannlegri tilskikkan fyrir herrans sakir, sé það konunginum svo sem hinum ypparsta, og landsstjórnurunum svo sem af honum skikkuðum til hefndar yfir illvirkjana og góðum til lofs. Því að það er vilji Guðs að þér með velgjörningi niðurþaggið óviturleik heimskra manna svo sem frelsingjar og ekki svo sem hefði þér frelsið illskunni til yfirhylmingar, heldur svo sem Guðs þjónustumenn. Gjörið virðing hverjum manni, bræðurna elskið, óttist Guð, konunginn heiðrið.
Þér þjónustumenn, verið herrunum undirgefnir með allri óttasemi, eigi alleinasta góðum og spakferðugum, heldur einninn hrekkvísum. Því það er náð ef nokkur fyrir samviskunnar sakir til Guðs þolir hið illa og umlíður það órétta. Því hver hrósan er það ef þér fyrir misgjörninga sakir slög líðið? En nær þér umlíðið og þolið fyrir velgjörða sakir, það er náð hjá Guði.*
Því að þar til eru þér kallaðir með því að Kristur hefir einninn sjálfur þolað og oss til eftirdæmis látið að þér skylduð svo eftirfylgja hans fótsporum sem öngva synd gjörði, eigi heldur nein flærð er fundin í hans munni, sá ekki formælti í gegn þá honum varð formælt, eigi ógnandi þá hann leið, en hann ofurgaf það honum sem rétt dæmir, sá er sjálfur hefir vorar syndir offrað á sínum líkama upp á trénu svo að vér, í frá syndunum deyddir, lifðum réttlætinu, fyrir hvers benjar vér erum heilbrigðir vorðnir. Því að þér voruð svo sem villir, ráfandi sauðir, en nú eru þér umvendir til hirðirs og biskups yðvarra sálna.*
Þriðji kapítuli
breytaLíka einninn skulu konunnar vera undirgefnar sínum mönnum svo að einninn þeir, sem ekki trúa á orðið, verði fyrir konunnar umgengni utan orð yfirunnir nær þeir sjá yðart hreinlíft siðferði í óttasemi. Hver skartsemi eigi skal vera hin ytri meður hárfléttan og gulli umhengjanda eður klæðaburði, heldur þann hulda mann hjartans, óspjallaðan með hógværum og kyrrlátum anda, hver að er dýrðmætur í Guðs augliti. Því að svo hafa forðum heilagar konur prýtt sig, þær sem á Guð vonuðu og undirgefnar voru sínum eiginmönnum líka sem að Sara var Abraham hlýðug og kallaði hann herra, hverjar dætur þér eruð vorðnar ef þér vel gjörið og eruð eigi svo staðlitlar.
Líka einninn þér mennirnir, búið við þær meður skynsemi og gefið því kvenlegu breyskvara kerkorni sína heiðran svo sem einninn samerfingjum náðarinnar [og] lífsins svo að yðart bænahald verði eigi hindrað.
En að ályktan þá verið allir einhugaðir, samþolugir, bróðurlegir, miskunnsamir, ljúfir, lítillátir. Endurgjaldið ekki illt með illu, engin skammarorð fyrir skammaryrði, heldur þar í gegn blessið og vitið að þér eruð þar tilkallaðir það þér blessunina að erfð eignist. Því hver hann vill lifa og að sjá góða daga, sá stilli sína tungu af vondu og sínar varir að þær eigi flærð tali. Hann hneigi sig í frá illu og gjöri hið góða, leiti friðarins og honum eftirfylgi. Því að augu Drottins eru yfir réttlátum og hans eyru til þeirra bæna. En auglit Drottins er yfir þeim sem illa gjöra.
Hver er sá yður geti grandað ef þér eftirfylgið hinu góða? Og þótt að þér líðið fyrir réttlætisins sakir, þá eru þér þó sælir. Og hræðist eigi þeirra ógnan og skelfist ekki. En helgið Guð Drottin í yðar hjörtum.* Verið jafnlega reiðubúnir andsvar að veita hverjum manni þeim sem skjals krefja af þeirri von sem í yður er. Og það þó með hógværi og óttablendni, hafandi góða samvisku svo að þeir, hverjir af yður á bak tala svo sem af illgjörðurum, til skammar verði það þeir hafa dárað yðra góða umgengni í Kristo.
Því að það er betra fyrst það er Guðs vilji að þér heldur fyrir velgjörða en illgjörða sakir líðið. Af því að Kristur hefir og eitt sinn fyrir vorar syndir liðið, hinn réttláti fyrir rangláta, upp á það hann fórnfærði oss Guði og deyddur er eftir holdinu, en lifandi gjörður eftir andanum.
Í því hinu sama er hann einninn í burt genginn og hefir þeim öndunum predikað sem í herfjötrum voru, hverjir forðum daga eigi trúðu, þann tíð Guð eitt sinn eftirbeið og þolinmæði hafði á dögum Nóa nær örkin smíðaðist, í hverri fáir, það er átta sálir, hjálpuðust fyrir vatnið, hvert að nú einninn oss hjálplega gjörir í skírninni, hvað fyrir hitt er tilmyndað, ekki það holdsins saurleiki afleggist, heldur samningur góðrar samvisku hjá Guði fyrir upprisu Jesú Kristi, sá sem að er í heiminum upp farinn til Guðs hægri handar, og englarnir og hinir voldugu og kraftarnir eru honum undirgefnir.
Fjórði kapítuli
breytaMeð því það Kristur hefir nú fyrir oss liðið í holdinu, þá brynjið yður einninn meður því sama hugskoti. Því hver á holdinu líður, sá firrist frá syndunum svo að hann þaðan í frá, hvað eftirfarandar ævi er í holdinu, lifi eigi girndum mannsins, heldur vilja Guðs. Því að það gnægir að vér höfum þann umliðna tíma lífdaganna uppsvarplað eftir heiðinglegum vilja þá vér gengum í lausung, lostasemdum, drykkjuskap, í ofáti og ofdrykkjum og í herfilegum skurgoðadýrkanum.
Hvað eð þá undrar það þér eigi meður þeim hlaupið í þeirri samri saurlifnaðarhneisu og guðlastið, hverjir reikningsskap skulu gjalda honum sem reiðubúinn er að dæma lifendur og dauða. Því að fyrir það er einninn hinum dauðum evangelion kunngjört upp á það þeir dæmdir verði eftir mönnunum á holdinu, en í andanum lifi Guði. Því að endir allra hluta tekur að nálgast.
Fyrir því verið sparneytnir og árvakrir til bænanna. En umfram alla hluti hafið innbyrðis glóanda kærleik því að kærleikurinn hylur fjöld syndanna. Verið gestrisnir innbyrðis án möglunar. Og þjóni hver öðrum, hver einn með þeirri gjöf sem hann hefir öðlast svo sem góðir forstjórnarmenn margfaldlegrar Guðs náðar. Ef nokkur talar, hann tali það svo sem Guðs orð. Og ef þjónar nokkur, hann þjóni eftir þeirri orku sem Guð gefur svo að í öllum hlutum verði Guð dýrkaður fyrir Jesúm Kristum, hverjum sé dýrð og vald um aldir og að eilífu.*
Hinir kærustu, eigi skulu þér láta yður þann %bruna sjaldsýnan vera, hver yður hendir nær þér freistaðir verðið svo sem að henti yður nokkuð sjaldsýnlegt, heldur gleðjið yður það þér með Kristi líðið upp á það þér einninn á opinberingartíma hans dýrðar mættuð gleðjast og fagna. Sælir eru þér ef þér vanvirtir verðið yfir nafni Kristi því að andinn, sá sem að er andi Guðs og dýrðarinnar, hvílist yfir yður. Hjá hinum verður hann lastaður, en í hjá yður vegsamaður.
En enginn yðar líði svo sem manndrápari, þjófur eða illvirki eða þeir sem gripdeildasamir eru annarlegra hluta. En að líði hann svo sem annar kristinn, þá skammist hann sín eigi, en dýrki Guð í slíkri deild. Af því að tími er það dómurinn tiltaki á Guðs húsi. En ef fyrst á oss, hver mun þá endir verða þeirra sem Guðs evangelio ekki trúa? Og ef hinn réttláti frelsast varla, hvar mun þá hinn ómildi og syndugi birtast? Þar fyrir skulu þeir sem líða (eftir Guðs vilja) honum sínar sálir á hendi fela svo sem trúlyndum skapara í góðum verkum.
Fimmti kapítuli
breytaÖldungana, sem á meðal yðar eru, áminni eg, samöldungur og vottur píslanna sem eru í Kristi og hluttakari dýrðarinnar sem opinberuð skal verða. Alið þá hjörð Krists sem hjá yður er. Og gætið hennar, eigi nauðugir, heldur sjálfviljugir, eigi fyrir sleimilegs ávinnings sakir, heldur af góðum vilja, eigi svo sem þeir er yfir sinni %tildeild drottna, heldur verðið fyrirmynd hjarðarinnar. Svo munu þér (nær hinn æðsti hirðir mun birtast) ófallvalta kórúnu dýrðarinnar meðtaka.
Líka einninn þér, hverjir ungir eruð, verið öldungunum undirgefnir. Allir saman þá verið innbyrðis undirgefnir. Hafið lítillætið fastlega innvafið því að Guð mótstendur dramblátum, en lítillátum gefur hann náð. Fyrir því lítillætið yður undir volduga Guðs hönd svo að hann upphefji yður á vitjunartíma. Allri yðar áhyggju varpið á hann því að hann ber umhyggju fyrir yður.
Verið sparneytnir og vakið. Því að yðar mótstandari, djöfullinn, gengur um kring sem grenjanda León, eftirleitandi þeim hann svelgi, hverjum þér örugglega í mót standið í trúnni, og vitið það yðrir bræður, þeir sem í heiminum eru, hafa þá sömu ánauð.
En sá Guð allrar náðar sem yður hefir kallað til sinnar eilífrar dýrðar í Kristo Jesú, hann sami mun yður, þér sem um litla stund líðið, fullnægja, tilreiða, styrkja, efla og staðfesta. Þeim hinum sama sé dýrð og veldi um aldur og að eilífu. Amen.*
Fyrir Silvanum, yðvarn trúan bróður (að því eg meina), hefi eg fátt eina skrifað yður til áminningar og til vottunar að þetta er hin sanna Guðs náð þar þér inni standið. Yður heilsa þeir sem samt yður útvaldir eru í Babylonia og minn sonur, Markús. Heilsið yður innbyrðis með heilögum kærleikskossi. Friður sé með öllum yður sem að eru í Kristo Jesú. Amen.