Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar/S. Páls pistill til Títum
Höfundur: Oddur Gottskálksson
(S. Páls pistill til Títum)
Fyrsti kapítuli
breytaPáll, þjón Guðs, en postuli Jesú Kristi til að predika trúna Guðs útvaldra og viðurkenning sannleiksins sem til mildileiksins leiðir upp á von eilífs lífs, hverja til sagt hefir sá ekkert lýgur, Guð, fyrir ævinlegar aldir, en opinberað hefur í sinni tíð sín orð fyrir þá predikan sem mér er til trúuð eftir bífalan Guðs, vors lausnara. Títo, mínum réttilegum syni, eftir beggja vorra trú. Náð, miskunn, friður af Guði föður og Drottni Jesú Kristo, vorum frelsara. Vegna þess lét eg þig eftir í Krít það þú skyldir bæta um það hvað brest hafði og öldungana niður setja um borgirnar svo sem eg bífalaða þér. Svo það ef nokkur er óstraffanlegur einnrar kvinnu eiginmaður, hver eð trúlynd börn hefir, eigi orðræmdir það þeir sé ofeyðslumenn eður óhlýðugir. Því að biskupi byrjar að vera óstraffanlegum svo sem Guðs tilsjónarmanni, eigi einsinnaður, eigi reiðinn, enginn vínsvelgur, eigi baráttusamur, eigi neins skemmilegs ávinnings gírugur, heldur gestrisinn, góðlyndur, skírlífur, réttferðugur, guðrækinn, hreinlífur, sá sem fastheldinn er þess orðs sem sannarlegur lærdómur er og sá aðra kann læra svo að hann sé máttugur til á að minna fyrir heilsusamlegan lærdóm og að straffa þá sem á móti mæla.
Því að þar eru margir kargir hégómaþvættarar og villumenn, einna mest út af umskurninni, á hverjum vér hljótum munninn til að byrgja, hverjir nálega öllum húsum umvelta og kenna það sem ekki hæfir fyrir skemmilegs ávinnings sakir. Nokkur út af þeim, sjálfra þeirra spámaður, sagði: Krítarmenn eru jafnlega lygigjarnir, ill kvikindi og letisamir magar. Þessi vitnisburður er sannur, hvers vegna þú straffa þá snarplega upp á það þeir sé heilbrigðir í trúnni og gef öngvar gætur að þeim gyðingslegum ævintýrum og mannaboðorðum sem í burt snúa frá sannleiknum. Hreinum eru allir hlutir hreinir, en saurugum og vantrúuðum er ekkert hreint, heldur eru saurug þeirra hugskot og samviska. Þeir segjast þekkja Guð, en með verkunum afneita þeir því að því þeir eru bölvanlegir og vantrúaðir og til allra góðra verka ótérugir.
Annar kapítuli
breytaEn þú tala svo sem það hæfir heilsusamlegum lærdómi. Öldruðum það þeir sé skírlífir, heiðarlegir, hæfilátir, heilbrigðir í trúnni, í kærleikanum, í þolinmæðinni. Líka einninn rosknum konum að þær hegði sér sem guðræknum hæfir, ekki lastanarsamar, ekki vínsvelgjur, góðar lærimæður, að þær læri ungar konur hæfilátar að vera og það að þær hafi kæra sína bændur og elski sín börn, sé skírlífar, hreinferðugar, umsjónasamar, góðlyndar, sínum bændum undirgefnar upp á það Guðs orð verði ekki lastað. Slíkt líka áminn ungmennin það þeir sé skírlífir.
En alla vega set þig sjálfan til fyrirmyndar góðra verka með ómenguðum lærdómi, með stöðuglyndi, með heilsusamlegu og óstraffanlegu orði upp á það mótstandarinn óvirðist og ekkert hafi það hann kunni vont frá oss að segja. Þjónustumönnunum það þeir sé sínum drottnum undirgefnir og í öllu viljugir, veri eigi svörugir, eigi ótrúir, heldur sýni allan góðan trúnað svo að þeir prýði lærdóm Guðs, vors lausnara, í öllum greinum.
Því að heilsusamleg náð Guðs er auglýst öllum mönnum og lærir oss það vér skulum afneita óguðlegu athæfi og veraldlegum girndum og lifa sparlega, réttferðuglega og guðlega í þessum heimi og vakta upp á þá sæluvon og dýrðarinnar auglýsing hins mikla Guðs og vors lausnara Jesú Kristi sem sjálfan sig hefir gefið út fyrir oss upp á það hann endurleysti oss í frá öllu óréttlæti og hreinsaði sér sjálfum fólk til eignar það kostgæfið væri til góðra verka. Þetta tala þú og áminn * og straffa með allri alvöru. Lát öngvan mega forsmá þig.
Þriðji kapítuli
breytaÁminn þá það þeir sé höfðingjunum og valdsstéttunum undirgefnir og hlýðugir til allra góðra verka reiðubúnir, öngvan lastandi, eigi deilugjarna, heldur veri hæverskir, auðsýnandi alla hógværi við hvern mann. Því að vér vorum forðum daga gálausir, óhlýðugir, ófyrirlátsamir, þjónandi girndum og margvíslegum lostasemdum, gengum í illsku og öfundskap og hötuðum hver annan innbyrðis.
En þá er birtist góðgirnd og mannljúflegleiki Guðs, vors lausnara, eigi fyrir réttlætisverkanna sakir sem vér höfðum gjört, heldur eftir sinni miskunnsemi, frelsaði hann oss fyrir þann endurfæðingar vatssá og nýjung heilags anda, hverjum hann hefir yfirgnæfanlega úthellt yfir oss fyrir Jesúm Kristum, vorn lausnara, svo að vér, réttlættir fyrir sjálfs hans náð, værum erfingjar eilífs lífs eftir voninni.* Þessi ræða er sönn og trúanleg.
Þetta vil eg þú kennir svo sem það staðfast sé svo að þeir sem trúaðir eru vorðnir, kostgæfist í góðum verkum fordildarlegir að vera. Þetta er gott og mönnum nytsamlegt. En fávíslegar spurningar og ættarþulur, þráttanir og laganna deilur forðast þú. Því að þær eru óþarfar og fáfengar. Fordæðumann eftir eina og aðra áminning flý þú. Og vit það, sá er umsnúinn sem þess konar er og synd drýgir svo sem að sá sig sjálfan fordæmir.
Nær eg sendi Arteman elligar Týkikon til þín, þá skunda þú sem skjótast að koma til mín til Nikapólim því að þar hefi eg ásett í vetur að vera. Senam lögvitring og Apollon af stað send með athygli svo að þá bresti ekkert. Lát þá einninn læra í góðum verkum fordildarlegir að vera þar þörf gjörist svo að þeir sé ekki ávaxtanarlausir. Þér heilsa allir þeir með mér eru. Heilsa þú öllum þeim oss elska í trúnni. Náðin sé með yður öllum. Amen.
Skrifaður frá Nikópóli í Makedónía.