Norsk æfintýri/Fylgdarsveinninn

Fylgdarsveinninn

Einu sinni var bóndasonur. Hann dreymdi að hann ætti að eignast kóngsdóttur langt úti í löndum, og að hún væri hvít sem mjöll og rjóð sem blóð, og svo rík, að auðæfi hennar gengju aldrei til þurðar. Þegar hann vaknaði, sýndist honum hún standa ljóslifandi fyrir sjer og honum fanst hún svo fín og yndisleg, að hann gæti ekki lifað án hennar. Svo seldi hann alt sem hann átti, og fór út í heiminn, til þess að leita hennar. Hann fór langa vegu, og um veturinn kom hann í land, þar sem allir vegir voru þráðbeinir, svo að hvergi var bugða á þeim. Og þegar hann hafði haldið áfram eftir einum beina veginum í þrjá mánuði, kom hann í þorp, og þar lá stórt ísstykki fyrir utan kirkjudyrnar, en inni í ísnum var mannslík, og alt kirkjufólkið fussaði og sveiaði, þegar það gekk fram hjá. Þetta þótti piltinum skrítið, og þegar presturinn kom út úr kirkjunni, spurði hann þann góða mann, hvernig á þessu stæði. „Þetta er glæpamaður“, sagði presturinn. „Hann var líflátinn fyrir óguðleg verk, og settur í ís til háðungar“.

„Hvað gerði hann þá af sjer?“, spurði pilturinn.

„Hann var vínbruggari“, sagði presturinn, „og hann blandaði vínið með vatni“.

Það fanst piltinum ekkert sjerstaklega mikið illvirki, „og úr því hann hafði nú goldið fyrir það með lífinu, þá gætuð þið jarðað hann í vígðri mold, og lofað honum að hvíla í friði.“ En presturinn sagði, að það væri ekki hægt með neinu móti, fyrst þyrfti nú menn til þess að brjóta utan af honum ísinn, svo þyrfti peninga til þess að kaupa honum legstað, peninga til þess að borga grafaranum. Svo varð að borga fyrir hringingu, söng og prestinum fyrir að kasta rekunum.

„Heldur þú, að nokkur vilji borga alt þetta fyrir líflátinn syndara?“ spurði prestur.

„Já,“ sagði pilturinn, „ef þið bara komið honum í jörðina, þá skal jeg borga alt sem það kostar, þó ríkur sje jeg ekki“.

Presturinn færðist samt undan, en þegar pilturinn kom með tvo menn, og spurði klerk svo þeir heyrðu, hvort hann neitaði að jarða mann, þá svaraði hann, að það þyrði hann ekki að gera.

Svo var ísinn brotinn utan af bruggaranum og hann grafinn í vígðri mold, klukkum var hringt og sungið yfir honum, og presturinn kastaði rekunum og svo var höfð erfisdrykkja, svo mikil, að fólk bæði grjet og hló, en þegar pilturinn var búinn að borga allan kostnaðinn, átti hann ekki mikið af peningum eftir.

Hann lagði nú af stað aftur, en hafði ekki gengið lengi, þegar maður kom á eftir honum og spurði hann, hvort honum fyndist ekki leiðinlegt, að vera svona einn á ferð.

„Onei, það finst mjer ekki, jeg hefi altaf nóg að hugsa um“, sagði piltur.

Þá spurði maðurinn, hvort hann vantaði ekki þjón.

„Nei“, sagði pilturinn. „Jeg er vanur að vera minn eigin þjónn, þessvegna þarf jeg engan slíkan, og þótt mig langaði til að fá mjer þjón, þá hef jeg engin efni á því, því jeg á enga peninga til að borga honum í kaup“.

„Þjón þarftu, það veit jeg betur en þú“, sagði maðurinn, „og þú þarft þjón, sem þú getur treyst í lífi og dauða. Ef þú vilt ekki hafa mig fyrir þjón, þá getur þú tekið mig fyrir fylgdarsvein, jeg lofa þjer því, að verða þjer til mikils gagns, og ekki skal það kosta þig einn eyri, jeg skal sjálfur kosta fæði mitt og klæði“.

Já, pilturinn vildi gjarna fá fylgdarsvein með þessum skilmálum, og síðan ferðuðust þeir saman. Og maðurinn gekk vanalega á undan og hafði leiðsögu.

Þegar þeir höfðu farið um mörg lönd, yfir ása og heiðar, komu þeir að þverhníptu bjargi. Þar barði fylgdarsveinninn á og kallaði og sagði: „Opnið þið“. Svo opnaðist bjargið fyrir þeim, og þegar þeir komu inn, kom þar tröllkerling með stóla og bauð þeim. „Þið skuluð fá ykkur sæti, þið munuð vera þreyttir“, sagði hún.

„Sestu sjálf“, sagði maðurinn. Svo varð hún að setjast niður, og varð föst við stólinn, því hann var þannig, að hann slepti ekki neinum, sem á hann settist. Svo lituðust þeir um í berginu, og þá sá fylgdarsveinninn sverð, sem hjekk yfir dyrunum. Það langaði hann til að eignast, og lofaði tröllkonunni, að sleppa henni af stólnum, ef hann fengi sverðið.

„Nei“, æpti hún. „Biddu mig um alt annað. Alt annað getur þú fengið, en ekki þriggja systra sverðið mitt“. Þær áttu það saman þrjár systur. „Jæja, þá geturðu setið þarna til dómsdags“, sagði sveinninn. En þegar flagðið heyrði það, sagði hún, að hann skyldi fá sverðið, ef hann vildi sleppa henni af stólnum.

Svo tók hann sverðið og fór með það, og ljet hana sitja fasta eftir sem áður.

Þegar þeir höfðu gengið lengi um nakin fjöll og víðar heiðar, komu þeir aftur að bergi. Þar barði fylgdarsveinninn á og skipaði að opna. Það fór eins og í fyrra skiftið, það var opnað fyrir þeim, og þegar þeir komu inn í bergið, kom tröllkona með stól og bauð þeim sæti, þeir hlytu að vera þreyttir, sagði hún.

„Sestu sjálf“, sagði fylgdarsveinninn, og svo fór fyrir henni eins og systur hennar, hún þorði ekki annað, og svo festist hún við stólinn, og gat sig ekki hreyft þaðan. Á meðan gengu pilturinn og fylgdarsveinninn um í herberginu, og fylgdarsveinninn opnaði alla skápa og skúffur, þangað til hann fann það sem hann var að leita að, en það var gullmen. Það vildi hann endilega fá, og lofaði tröllkerlingunni, að hann skyldi sleppa henni af stólnum. Hún sagði, að hann mætti fá alt sem hún ætti, en menið vildi hún ekki missa, því að það væri Þriggjasystramenið hennar. En þegar hún heyrði að hún ætti að sitja kyr til dómsdags, ef hann fengi ekki menið, þá sagði hún að hann yrði víst að fá það, ef hann slepti sjer. Og fylgdarsveinninn tók menið, en lét tröllkonuna sitja fasta eftir sem áður.

Svo gengu þeir marga daga yfir heiðar og gegnum skóga, þangað til þeir komu aftur að standbergi. Þar fór eins og í fyrri skiftin, þeir börðu á bergið, og það opnaðist; út kom tröllkerling með stól og bauð þeim sæti vegna þess að þeir væru þreyttir. En fylgdarsveinninn sagði: „Sittu sjálf“, og svo settist hún. Þeir höfðu ekki farið víða um í berginu, áður en þeir sáu gamlan hatt, sem hjekk á snaga bak við hurð. Hann vildi fylgdarsveinninn fá, en kerlingin vildi ekki missa hann, því að hann var þrísystrahatturinn hennar, og ef hún gæfi hann eða ljeti af hendi, þá yrði hún æfinlega óhamingjusöm. En þegar hún heyrði, að hún ætti að sitja til dómsdags, ef hann fengi ekki hattinn, sagði hún að hann mætti fá hann, ef hann slepti henni lausri. En þegar fylgdarsveinninn hafði tekið hattinn, ljet hann hana sitja fasta eins og systur hennar.

Eftir langa ferð komu pilturinn og fylgdarsveinninn að sundi einu. Þá tók fylgdarsveinninn gulllykilinn og kastaði honum yfirum sundið svo fast, að hann hrökk til baka aftur, og þegar hann hafði gert þetta nokkrum sinnum, var komin brú á sundið. Þessi brú var úr þræði gerð, og þegar þeir voru komnir yfir, sagði sveinninn við piltinn, að hann skyldi vinda upp þráðinn eins fljótt og hann mögulega gæti, því annars kæmu tröllkerlingarnar þrjár og rifu þá sundur. Piltur vatt upp þráðinn eins fljótt og honum var mögulegt, og þegar ekki var eftir nema endinn, komu tröllkerlingarnar þjótandi út í vatnið en náðu ekki í endann og druknuðu í sundinu. Þegar þeir höfðu haldið áfram nokkra daga enn, sagði fylgdarsveinninn: „Nú komum við að höllinni, þar sem kóngsdóttirin er, sem þig hefir verið að dreyma um, og sem þú ert að leita að. Og þegar við komum þangað, skalt þú fara inn og segja kónginum, alt sem þig hefir dreymt og hversvegna þú ert á ferðinni“.

Þær þutu út í vatnið.

Þegar þeir komu til hallarinnar, gerði piltur eins og honum var sagt, og var tekið vel á móti honum, hann fjekk herbergi fyrir sig, og annað handa sveini sínum, og þegar leið að því, að matmálstími kæmi, var honum boðið að borða með konunginum. Þegar hann fjekk að sjá kóngsdótturina, þekti hann hana undir eins og sá að það var hún, sem hann hafði dreymt um að hann ætti að fá fyrir konu. Hann sagði henni erindi sitt, og hún svaraði, að henni geðjaðist vel að honum, en fyrst yrði hann að leysa þrjár þreknaunir af hendi. Þegar búið var að borða, fjekk hún honum gullskæri og sagði: „Fyrsta þrautin er að geyma þessi skæri og fá mjer þau aftur á sama tíma á morgun, það er ekki erfitt, býst jeg við“, sagði hún og hló, „en ef þú getur það ekki, þá missir þú lífið, slík eru lögin, og þá verður þú settur á hjól en höfuðið á stöng, eins og biðlarnir, sem þú sjerð höfuðkúpurnar af þarna fyrir utan gluggana“. — Þar stóðu hauskúpur af mönnum á stöngum alt í kringum kóngshöllina, eins og hrafnar sitja á staurum á haustin.

Þetta var nú ekki mikill vandi, hugsaði piltur. — En kóngsdóttir var svo fjörug og kát, og ljek sjer svo mikið við piltinn, að hann gleymdi skærunum og sjálfum sjer, og hún náði þeim frá honum, án þess að hann yrði var við það. — Þegar hann kom upp í herbergið sitt um kvöldið, og sagði fylgdarsveininum hvernig alt hefði gengið, og um skærin, sem hún bað hann að geyma, þá sagði fylgdarsveinninn: „Þú hefir líklega skærin enn?“ Pilturinn fór í alla vasa sína, en þar voru engin skæri, og honum varð ekki um sel, þegar hann komst að því, að þau voru farin. „O, vertu rólegur, ætli jeg reyni ekki að ná í þau fyrir þig“, sagði fylgdarsveinninn, og fór niður í hesthúsið, þar stóð stóreflis geithafur, sem kóngsdóttirin átti, og hann hafði þá náttúru, að hann gat flogið mörgum sinnum hraðar en hann gekk. Svo tók sveinninn þrísystrasverðið, og sló því milli hornanna á hafrinum og sagði: „Hvenær ríður kóngsdóttir til kærastans í nótt?“ Hafurinn kumraði og þorði ekkert að segja, en þá fjekk hann annað högg, og sagði að kóngsdóttir kæmi klukkan ellefu. Fylgdarsveinninn setti á sig Þrísystrahattinn, og varð þá ósýnilegur og beið svo þangað til kóngsdóttir kom. Og þegar hún kom, smurði hún hafurinn allan með einhverjum smyrslum, er hún hafði í stóru horni, og sagði: „Fljúgðu upp, fljúgðu upp, yfir fjöll yfir dal, yfir vatn, yfir sal, til kærastans sem bíður mín í berginu í nótt!“ Ekki var hún búin að sleppa orðinu, fyr en hafurinn fór af stað, og um leið settist fylgdarsveinninn á bak fyrir aftan hana, svo þaut hafurinn eins og vindur gegnum loftið, þau voru ekki lengi á leiðinni. Alt í einu komu þau að standbergi, þar barði kóngsdóttirin að dyrum og svo fóru þau inn í bergið til tröllsins, sem var kærastinn hennar. „Nú er kominn nýr biðill, sem vill fá mig, góði minn“, sagði kóngsdóttir, „hann er ungur og fríður, en jeg vil ekki neinn annan en þig“, sagði hún og brosti framan í bergþursann. „Svo lagði jeg fyrir hann þraut, og hjer eru nú skærin, sem hann átti að geyma og gæta að, geymd þú þau nú“, sagði hún. — Svo skellihlógu þau bæði tvö eins og pilturinn væri þegar kominn á höggstokkinn. „Já, jeg skal geyma skærin“, sagði bergþursinn, „og gæta að þeim, og það verð jeg, sem sit hjá kóngsdóttur, meðan hrafnar rífa piltinn“, sagði risinn, og setti skærin í járnskrín með þrem lásum fyrir, en um leið og hann slepti skærunum í skrínið, tók fylgdarsveinninn þau. Hvorugt þeirra gat sjeð hann, því hann hafði Þrísystrahattinn á höfðinu, og svo læsti tröllkarlinn aftur tómu skríninu, en lyklana geymdi hann í holum jaxli, sem hann hafði tannpínu í, þá gleymdi hann ekki hvar þeir væru, hjelt þursinn.

Svo skellihlógu þau bæði tvö.

Þegar komið var yfir miðnætti, fór kóngsdóttir heim aftur. Fylgdarsveinninn sat á hafrinum fyrir aftan hana og þau voru ekki lengi á heimleiðinni.

Daginn eftir var piltinum boðið að konungsborði, en þá var það einhvern veginn svoleiðis með kóngsdóttur, að hún vildi ekki líta við piltinum. En þegar búið var að borða, setti hún upp sakleysissvip, gerði sig blíða í máli og sagði:

„Þú hefir kannske skærin, sem jeg bað þig að geyma í gær?“

„Ójá, hjerna eru þau nú“, sagði piltur, tók þau upp úr vasa sínum, og þeytti þeim á borðið, svo þau köstuðust hátt upp í loftið. Kóngsdóttur hefði ekki getað orðið ver við, þótt hann hefði kastað skærunum framan í hana. En samt gerði hún sig enn blíðari og sagði:

„Fyrst þú hefir gætt skæranna svona vel, þá getur ekki verið erfitt fyrir þig að geyma gullnistið mitt, og fá mjer það aftur í sama mund á morgun.“

„Nei, ætli það verði erfitt“, sagði pilturinn og stakk nistinu í vasa sinn. En þá fór hún að gera að gamni sínu við hann aftur, svo hann gleymdi bæði sjálfum sjer og nistinu, og meðan þau skemtu sjer allra best, náði hún því af honum án þess hann vissi.

Þegar hann kom upp í herbergið og sagði hvað þau höfðu sagt og gert, spurði fylgdarsveirininn:

„Þú hefir gullnistið líklega enn?“

„Já, það hefi jeg“, sagði piltur og fór í vasa sinn, þar sem hann hafði sett það. En nei, hann hafði ekkert gullnisti, og nú varð hann alveg ráðalaus aftur, og vissi ekki hvað hann átti við sig að gera.

„Nú, nú, vertu rólegur“, sagði fylgdarsveinninn. „Jeg verð að reyna að ná í það“, sagði hann, tók sverðið og hattinn og fór til járnsmiðs nokkurs og fjekk hann til þess að þyngja sverðið. Svo fór hann út í hesthúsið, og sló hafurinn svo mikið högg milli hornanna, að hann steyptist á höfuðið og svo spurði hann: „Hvenær ríður kóngsdóttir til kærastans í nótt?“

„Klukkan tólf“, kumraði hafurinn.

Fylgdarsveinninn setti aftur á sig Þrísystrahattinn og beið, þangað til kónsdóttir kom þjótandi með hornið og fór að smyrja hafurinn. Svo sagði hún eins og í fyrra skiftið: „Fljúgðu upp, fljúgðu upp, yfir fjöll yfir dal, yfir vatn, yfir sal, til kærastans sem bíður mín í berginu í nótt!“ Um leið og hún fór af stað, stökk fylgdarsveinninn á bak hafrinum fyrir aftan hana, og svo þutu þau eins og vindur gegnum loftið. — Ekki leið á löngu þangað til þau komu að berginu, og eftir að hafa barið þrjú högg, komu þau inn til risans, sem var kærastinn hennar.

„Hvernig geymdurðu gullskærin, sem jeg fjekk þjer í gær, vinur minn“, sagði kóngsdóttir „Biðillinn var með þau og fjekk mjer þau aftur“.

„Það er ómögulegt“, sagði þursinn, því hann hafði læst þau niður í skrín með þrem lásum fyrir og geymt lykilinn í hola jaxlinum sínum, en svo opnaði hann skrínið og gáði að, og þá voru engin skæri í skríninu. — Þá sagði kóngsdóttir honum, að hún hefði fengið biðlinum gullnistið sitt.

„Hjer er það“, sagði hún, „því jeg náði því af honum aftur án þess að hann yrði þess var, en hvað eigum við nú að gera við það úr því hann kann svona margt fyrir sjer?“

Ja, þursinn var nú ekki alveg viss um, hvað ætti að gera, en þegar þau höfðu hugsað sig um, tóku þau það til bragðs, að gera mikið bál og brenna gullnistið þar á, þá væru þau viss um að hann gæti ekki fundið það. En um leið og hún kastaði nistinu á bálið, stóð fylgdarsveinninn viðbúinn og greip það á lofti, og enginn sá það, því hann var með Þrísystrahattinn. Þegar kóngsdóttir hafði verið hjá þursanum um stund, og tók að líða að morgni, fór hún heim aftur, fylgdarsveinninn settist fyrir aftan hana á hafrinum, og ferðin gekk bæði fljótt og vel. Áður en pilturinn fór til miðdegisverðar, fjekk fylgdarsveinninn honum nistið. Kóngsdóttirin var enn snúðugri og teprulegri en daginn áður, og þegar búið var að borða, herpti hún saman varirnar og sagði:

„Þú getur líklega ekki gert svo vel að láta mig fá nistið mitt aftur?“

„Jú,“ sagði piltur. „Það skaltu fá, hjer er það“ sagði hann og kastaði því á borðið, svo borðið skalf og nötraði og konungurinn hoppaði hátt upp í loftið.

Kóngsdóttir varð föl eins og nár, en hún gerði sig fljótt blíða á manninn aftur, og sagði að pilturinn væri duglegur, og nú væri aðeins ein lítil þraut eftir. — „Fyrst þú ert svona duglegur, þá geturðu líklega fengið handa mjer það sem jeg hugsa um, þangað til um þetta leyti á morgun. Getirðu það, þá skaltu fá mig fyrir konu“, sagði hún.

Piltur varð eins og hann hefði verið dæmdur til dauða, því honum fanst ómögulegt að vita um hvað hún væri að hugsa, og enn erfiðara að ná í það handa henni, og þegar hann kom upp í herbergið sitt, var hann því nær óhuggandi. En fylgdarsveinninn sagðist skyldi ráða fram úr þessu, eins og hann hefði gert áður, og loksins ljet piltur það gott heita og lagðist til svefns. Á meðan fór fylgdarsveinninn aftur til smiðsins, og ljet enn þyngja sverði með járni, og þegar það var búið, fór hann í hesthúsið og sló hafurinn svo fast milli hornanna að hann valt út að vegg.

„Hvenær fer kóngsdóttir til kærastans í nótt?“ sagði fylgdarsveinninn.

„Klukkan eitt“, kumraði hafurinn.

Þegar leið að þeim tíma, fór fylgdarsveinninn út í hesthúsið með hattinn á höfðinu, og þegar kóngsdóttir hafði smurt hafurinn og sagt eins og hún var vön, að hann skyldi fljúga til kærastans hennar, sem biði hennar í bjarginu, þá var enn lagt af stað, hraðar en fugl flygi, og fylgdarsveinninn sat fyrir aftan kóngsdóttur, en hann var ekki ljetthentur í þetta skifti, því hann bæði kleip hana og kreisti, svo hún var öll blá og bólgin. Þau komu að berginu og hún barði þar á svo það opnaðist og þau þutu inn í bjargið til kærastans hennar. Þegar þau komu þangað, bar hún sig illa og kvartaði um það að það væri einhver sem hefði barið bæði hana og hafurinn á leiðinni, svo hún væri öll lurkum lamin. Síðan sagði hún, að biðillinn hefði líka komið með gullnistið, en hvernig hann hefði farið að því, skildi hvorki hún nje bergrisinn.

„En veistu upp á hverju jeg hefi nú fundið?“ sagði hún.

Nei, ekki gat tröllið vitað það.

„Jú“, svaraði hún, „jeg hefi sagt honum að hann verði að færa mjer það sem jeg hugsa um þangað til um matmálstíma á morgun, og það var höfuðið á þjer. Heldurðu nú góði minn, að hann geti fært mjer það?“ sagði kóngsdóttir og gældi við jötuninn.

„Það held jeg ekki“, sagði risinn, og svo sveiaði hann sjer upp á það, og hló og skrækti ógurlega af kæti, og bæði hann og kóngsdóttir hjeldu að piltur myndi verða líflátinn, og hrafnar slíta bein hans, áður en hann næði höfði risans.

Þegar leið að morgni, ætlaði kóngsdóttir heim aftur, en hún var hrædd, sagði hún, því henni fanst einhver vera á eftir sjer, og þorði ekki að fara ein heim. Jú, risinn ætlaði að fylgja henni, og leiddi fram hafurinn sinn, því hann átti eins hafur og kóngsdóttir, og hann smurði hann allan líka. Þegar jötuninn var stiginn á bak, settist fylgdarsveinninn fyrir aftan hann, og svo var riðið í loftinu, en á leiðinni sló fylgdarsveinninn duglega bæði tröllið og hafurinn, gaf þeim högg eftir högg, og þau voru vel úti látin. Sá nú þursinn, að ekki var alt með feldu, svo hann fylgdi kóngsdóttur alveg heim að höll og beið svo nokkuð fyrir utan, til þess að sjá að hún kæmist heilu og höldnu heim. En um leið og hún lokaði dyrunum, hjó fylgdarsveinninn hausinn af risanum og hljóp með hann upp til piltsins. „Hjer er það, sem kóngsdóttir hugsaði um“, sagði hún.

Já, ekki var það nú amalegt, og þegar pilturinn fór niður að borða og á meðan á því stóð, var kóngsdóttir blíð eins og ánægður köttur. „Þú hefir kannske það sem jeg var að hugsa um“, spurði hún.

„Víst hefi jeg það“, sagði piltur, og hann dró fram höfuðið og sló því í borðið, svo borðið fór á annan endann. Kóngsdóttir varð hvít eins og lín, en hún gat ekki neitað því, að þetta væri það sem hún hafði hugsað um og nú varð hún að giftast honum, eins og hún hafði lofað. Síðan var drukkið brúðkaup, og varð mikil gleði um alt ríkið. En fylgdarsveinninn kom að máli við brúðgumann og sagði við hann, að hann yrði að gæta þess vel að láta sjer ekki koma dúr á auga brúðkaupsnóttina, hann skyldi bara látast sofa, en sofnaði hann, lægi líf hans við, ef hann hefði ekki fyrst losað konu sína við tröllhaminn, sem hún hefði, og hann átti piltur að hýða af kóngsdóttur með níu birkigreinum, bundnum í vönd, og svo átti hann að þvo hann af henni í þrem bölum af mjólk, fyrst ársgamalli mysu, svo upp úr súrmjólk og svo skola hana úr nýmjólk. Vöndurinn lá undir rúminu, en mjólkurbalarnir stóðu úti í horni, alt var til reiðu. Ja, piltur lofaði, að hann skyldi gera þetta, og fara alveg eins að eins og hinn sagði fyrir.

Þegar þau hjón voru háttuð um kvöldið, ljest piltur sofa. Kóngsdóttir reis þá upp á olnboga og gáði hvort hann svæfi og kitlaði hann á nefinu. Piltur bærði ekki á sjer. Þá tók hún í hárið á honum. En hann ljest sofa jafn fast og áður. Þá tók hún stóran hníf undan koddanum, og ætlaði að leggja til hans með honum, en hann þaut upp, sló hnífinn úr hendinni á henni, og greip í hárið á henni. Síðan hýddi hann hana með vendinum, þangað til ekkert var orðið eftir af honum. Svo dembdi hann henni niður í mysubalann, og þá sá hann fyrst, hvernig hún var, svört um allan skrokkinn, en þegar hann hafði skúrað hana upp úr mysunni og þvegið hana svo úr súrmjólk, var galdrahamurinn farinn af henni og hún orðin eins blíð og falleg og hún hafði fegurst verið áður, og meira en það.

Daginn eftir sagði fylgdarsveinninn, að nú yrðu þau að leggja af stað. Já, piltur var ferðbúinn og kóngsdóttir líka, því heimanmundurinn var löngu borgaður. Um nóttina hafði fylgdarsveinninn flutt alt það gull og silfur, sem tröllkarlinn hafði látið eftir sig í hellinum, til kóngshallar og þegar þau ætluðu að leggja af stað, var alsstaðar svo fult af gulli og gimsteinum, að varla var hægt að þverfóta fyrir því; heimanmundurinn var meira virði en lönd og ríki konungsins, og þau höfðu ekki hugmynd um hvernig þau ættu að komast með þetta alt með sjer. En fylgdarsveinninn var ekki ráðalaus fremur en vant var. Tröllkarlinn hafði átt sex hafra, sem gátu flogið. Á þessa hafra var nú sett svo mikið af gulli og gersemum, að þeir gátu ekki flogið með það, heldur urðu að ganga eins og hverjar aðrar skepnur, en það sem þeir ekki gátu borið, var skilið eftir í kóngsgarði. Svo ferðuðust þau langar leiðir, en að lokum urðu hafrarnir svo þreyttir og uppgefnir, að þeir gátu ekki gengið lengur. Pilturinn og prinsessan hans vissu nú ekkert hvað til bragðs skyldi taka, en þegar fylgdarsveinninn sá, að þau komust ekki lengra, tók hann allan heimanmundinn á bakið, setti hafrana þar ofan á og bar þetta alt svo langt, að ekki var nema spölur heim til piltsins. Þá sagði fylgdarsveinninn, „Nú verð jeg að skilja við þig, jeg get ekki verið lengur með þjer“. En pilturinn vildi ómögulega missa hann, svo hann fylgdi þeim síðasta spottann heim, en þangað vildi hann ekki fara, hve mikið, sem piltur bað hann, ekki einu sinni fá sjer svaladrykk hjá föður piltsins. Svo spurði piltur, hvað hann vildi fá fyrir alla hjálpina. „Ef það á nokkuð að vera“, sagði fylgdarsveinninn, „þá skulum við segja helminginn af öllu sem þú eignast á næstu 5 árum“. Já, pilti fanst það ekki nema sjálfsagt.

Þegar fylgdarsveinninn var farinn, fór piltur með konu sína heim, en skildi eftir öll auðæfin. Svo var slegið upp veislu svo mikilli að kátínan heyrðist um 7 konungsríki, og þegar henni var lokið, var kominn vetur, og piltur og faðir hans tóku hafrana sex og tólf hesta, sem faðirinn átti og óku öllum auðæfunum heim.

Eftir fimm ár kom fylgdarsveinninn aftur og átti að fá sitt, og pilturinn var þegar búinn að skifta öllu í tvo jafna hluta.

„En það er eitt, sem þú ekki hefir skift“, sagði fylgdarsveinninn.

„Hvað er það?" sagði hinn. „Jeg hjelt jeg hefði skift öllu“.

„Þú hefir eignast barn“, sagði fylgdarsveinninn. „Því verðurðu að skifta í tvo hluta“.

Jú, það var það. Piltur greip sverðið en um leið og hann ætlaði að höggva, greip fylgdarsveinninn í sverðið, svo hann gat það ekki.

„Þótti þjer ekki vænt um að þú fjekst ekki að höggva?“ sagði hann.

„Jú, svo glaður hefi jeg aldrei orðið“, sagði piltur.

„En svo glaður varð jeg, þegar þú bjargaðir mjer úr ísstykkinu“, sagði fylgdarsveinninn, „Haf þú alt sem þú átt, ekki þarf jeg neins með, því jeg er svífandi andi“, sagði hann. Hann var þá vínbruggarinn sem var í ísstykkinu fyrir framan kirkjudyrnar forðum, sem allir sveijuðu, og hann hafði verið fylgdarsveinn piltsins og hjálpað honum, vegna þess að hann gaf alt sem hann átti, til þess að fá honum frið í vígðum reit. Hann hafði fengið að fylgja honum í ár, og það var liðið, síðast er þeir skildu. Svo hafði hann nú fengið að sjá hann aftur en nú urðu þeir að skilja fyrir fult og alt, því nú kölluðu allar klukkur Himnaríkis á fylgdarsveininn.