Norsk æfintýri/Höllin fyrir austan sól og vestan mána

Norsk æfintýri (1943)
Höfundur: Peter Christen Asbjörnsen
Þýðing: Jens Steindór Benediktsson
Höllin fyrir austan sól og vestan mána

Höllin fyrir austan sól og vestan mána

Einu sinni var fátækur þurrabúðarmaður, sem átti mörg börn og lítið handa þeim, hvorki mat nje föt, en falleg voru þau öll, en yngsta dóttirinn þó fallegust, og hún var svo indæl, að annað eins hafði ekki sjest.

Svo var það eitt föstudagskvöld, seint um haust, það var vont veður og koldimt úti. Regnið dundi niður og vindurinn hvein, það var svo hvasst, að það brast og brakaði í öllum veggjum. Öll fjölskyldan sat kringum hlóðirnar, og var að borða eitthvað snarl. Allt í einu var barið á gluggann, það voru barin þrjú högg. Húsbóndinn fór út og ætlaði að athuga, hvað á gengi, og þegar hann kom út, sá hann að þar stóð stóreflis ísbjörn.

„Gott kvöld, maður minn“, sagði ísbjörninn.

„Gott kvöld“, sagði maðurinn.

„Ef þú vilt gefa mjer yngstu dóttur þína“, sagði björninn, „þá skal jeg gera þig jafn ríkan og þú nú ert fátækur“.

Jú, manninum fannst það nú ágætt, að hann skyldi geta orðið svo ríkur, en honum fannst hann endilega þurfa að tala um þetta við dóttur sína fyrst og fór inn og sagði, að það væri stóreflis ísbjörn úti, sem lofaði að gera alla fjölskylduna ríka, ef hann fengi hana. Hún sagði nei, og var treg til, og svo fór maðurinn út aftur og samdi um það við ísbjörninn, að hann skyldi koma aftur næsta föstudagskvöld og fá svar. Alla vikuna voru þau að reyna að tala um fyrir stúlkunni, þau lýstu fyrir henni öllum auðnum, sem þau myndu fá, og að lokum ljet hún undan, hún þvoði og bætti garmana sína, bjó sig sem best hún gat og var ferðbúin. Það tók nú heldur ekki langan tíma, því lítið var það, sem hún hafði meðferðis.

Næsta föstudagskvöld kom ísbjörninn og ætlaði að sækja hana. Hún settist á bak honum með pokasnigilinn sinn og svo var haldið af stað.

Þegar þau voru komin nokkuð frá kotinu, sagði ísbjörninn: „Ertu ekki hrædd?“

Nei, það var hún ekki.

„Jæja, haltu þjer bara fast í feldinn minn, þá er heldur engin hætta á ferðum“, sagði björninn.

Nú fóru þau langar leiðir, uns þau komu að háu fjalli. Þar barði björninn á, og svo opnaðist hlið og þau komu inn í höll með mörgum uppljómuðum sölum og smærri herbergjum, og allt skein þar af gulli og silfri, og í einum stærsta salnum stóð búið borð, og það var svo skrautlegt, að því trúir enginn. Síðan fjekk björninn stúlkunni silfurbjöllu, og henni átti hún að hringja, ef hún þarfnaðist einhvers, þá fengi hún hvað sem hana vanhagaði um. —

Þegar hún hafði matast og tók að líða á kvöldið, þá fór hana að syfja, því hún var þreytt eftir ferðina, og hana langaði til að fara að sofa. Þá hringdi hún bjöllunni, og ekki hafði hún fyrr gert það, en hún var allt í einu komin inn í skrautbúið herbergi, þar sem stóð rúm með silkilökum og dúnsængum, en sængurtjöldin voru öll gullsaumuð. En þegar hún hafði slökt ljósið, varð hún þess vör, að manneskja kom og háttaði hjá henni, — það var ísbjörninn, hann kastaði bjarnarhamnum á næturnar, en hún sá hann aldrei, því hann kom alltaf eftir að hún var búin að slökkva, og var farinn á morgnana, áður en hún var vöknuð.

Þegar stundir liðu fram, fór stúlkan að verða þunglynd og hljóð, því hún var alein allan liðlangan daginn, og hana langaði svo mikið heim til foreldra sinna og systkina, og þessvegna var hún svo sorgmædd. — Ísbjörninn komst að þessu og sagði að hún gæti fengið að fara, en hún yrði að lofa sjer því, að tala aldrei einslega við móður sína, „því jeg veit, að hún sækist eftir að eiga eintal við þig, en það verðurðu að forðast, annars leiðir þú mikla ógæfu yfir okkur bæði“.

Einn sunnudag kom svo björninn og sagði, að nú skyldu þau leggja af stað heim til foreldra hennar. Svo fóru þau, og hún sat á baki hans, og ferðin var löng og erfið, en að lokum komu þau að stórum, hvítum, reisulegum bóndabæ og þar hlupu systkini hennar úti og ljeku sjer, og hún varð svo glöð, þegar hún sá, hvað þeim leið vel. — „Þarna búa nú foreldrar þínir og systkini“, en gleymdu ekki því, sem jeg hefi sagt, annars verðum við bæði óhamingjusöm“. Hún sór og sárt við lagði. Svo sneri björninn við aftur.

Fjölskylda stúlkunnar varð svo glöð, þegar hún kom heim aftur, að fögnuðurinn ætlaði aldrei að taka enda, fólkinu fannst það aldrei fullþakkað, sem hún hafði gert fyrir það, nú liði því svo dæmalaust vel, og öll spurðu þau hana, hvernig henni liði, þar sem hún væri. Hún sagði að sjer liði vel, hún hafði allt, sem hún vildi hendinni til rjetta, og eitthvað meira sagði hún, hvað það var, veit jeg ekki almennilega, en víst var um það, að fólkið fjekk ekki neina rjetta hugmynd um líðan hennar.

En svo síðari hluta dags fór eins og ísbjörninn hafði sagt, móðir stúlkunnar vildi tala við hana einslega og kallaði á hana inn í herbergið sitt. En þá minntist hún þess, sem björninn hafði sagt, og vildi ekki fyrir nokkra muni fara þangað inn með henni. „Við getum alltaf talað um þetta“, sagði hún. En hvernig, sem það nú varð, þá gat móðirin talið henni hughvarf og fengið hana til að tala við sig einslega, og þá varð hún að segja hvernig henni liði.

Hún sagði, að það kæmi maður og háttaði hjá sjer, þegar hún væri búin að slökkva ljósið á kvöldin, en hún fengi aldrei að sjá hann, því hann væri alltaf á brott á morgnana. Þetta sagði hún, að sjer fyndist svo leiðinlegt, því hún vildi gjarna sjá hann, og á daginn væri hún alltaf ein, og það væri svo tilbreytingarlaust.

„Svei, ætli þetta sje ekki einhver galdrakarl“, sagði móðir hennar, „jeg skal kenna þjer ráð, svo að þú fáir að sjá hann. Jeg skal gefa þjer kertisbút, sem þú getur stungið í barm þinn, lýstu svo á hann, þegar hann sefur, en gættu þess, að ekki leki á hann tólgardropar“.

Jú, hún tók við kertinu og stakk því í barm sinn, og um kvöldið kom ísbjörninn að sækja hana. Þegar þau voru komin nokkuð áleiðis, spurði björninn, hvort ekki hefði farið, eins og hann hefði sagt.

Jú, ekki var hægt að neita því.

„Ef þú hefir farið að ráðum móður þinnar, þá hefirðu gert okkur bæði óhamingjusöm, og þá eru okkar samvistir líka búnar“.

Nei, ekki hafði hún nú þýðst ráð móður sinnar, sagði hún.

Þegar hún svo var komin heim, og lögst til svefns, þá gekk allt eins og venjulega. En er hún heyrði, að maðurinn svaf, tók hún sig til og kveikti á kertinu og leit á hann, og þá var það yndislegasti kóngssonur, sem hægt var að hugsa sjer, og hún varð svo hrifin af honum, að hún gat ekki hugsað sjer að lifa án hans, meira að segja alls ekki, ef hún ekki fengi að kyssa hann strax, og það gerði hún líka, en í sama bili láku þrír tólgardropar úr kertinu niður á skyrtuna hans, og hann vaknaði.

„Ó, hvað hefirðu nú gert?“ Nú hefirðu gert okkur bæði óhamingjusöm. Ef þú aðeins hefðir verið stillt í eitt ár, og ekki farið að forvitnast, þá hefði jeg verið leystur úr álögum, því jeg á stjúpmóður, sem hefir lagt á mig, að jeg verði ísbjörn á daginn, en maður á nóttunni. En nú er öllu lokið okkar á milli, nú verð jeg að fara frá þjer til hennar, hún á heima í höll, sem er fyrir austan sól og vestan mána, og þar er kóngsdóttir með þriggja álna langt nef, og hana verð jeg nú að eiga fyrir konu.

Hún grjet og barmaði sjer, en við því var ekkert að gera, hann varð að fara. Svo spurði hún, hvort hún mætti koma með honum.

Nei, ekki var það hægt.

„Geturðu ekki sagt mjer frá leiðinni þangað, svo jeg geti komið og fundið þig, það má jeg þó?“ sagði hún.

Hún grjet sig þreytta.

„Jú, þú mátt koma og finna mig, en þangað sem jeg er, er enginn vegur; höllin er fyrir austan sól og vestan mána og þangað ratarðu aldrei“.

Um morguninn, þegar hún vaknaði, var bæði kóngssonurinn og höllin horfin, hún lá á litlum grænum grasbletti og pokasnigillinn hennar hjá henni, en allt í kring var þjettur, dimmur skógur. Þegar hún hafði þurrkað stýrurnar úr augunum og grátið sig þreytta, þá lagði hún af stað, og þegar hún hafði gengið marga, marga daga, kom hún að háu standbergi.

Undir berginu sat gömul kerling og ljek sjer að gullepli. Hana spurði stúlkan, hvort hún vissi, hvernig komast ætti til kóngsonarins, sem væri hjá stjúpu sinni í höll, sem væri fyrir austan sól og vestan mána, og sem ætti að fá kóngsdóttur fyrir konu, sem hefði þriggja álna langt nef.

„Hvaðan þekkir þú hann?“ spurði kerling. „Kannske þú hafir ætlað að giftast honum?“

Ójú, svo var nú það.

„Nú, já, það ert þú“, sagði kerlingin. „Ja, jeg veit ekkert meira um hann, svei mjer þá, en það, að hann býr í höllinni fyrir austan sól og vestan mána, og þangað kemstu seint eða aldrei, en hestinn minn skaltu fá lánaðan, og á honum geturðu riðið til grannkonu minnar, kannske hún geti sagt þjer eitthvað um þetta, og þegar þú ert komin til hennar, þá slærðu bara hestinn undir vinstra eyrað og biður hann að fara heim aftur. Og gulleplið geturðu tekið með þjer“.

Stúlkan beislaði hestinn og settist á bak og reið lengi, lengi, þangað til hún kom að bergi nokkru, en undir því sat gömul kerling og var að hespa á gullhesputrje. Hana spurði stúlkan, hvort hún vissi um leiðina til hallarinnar sem er fyrir austan sól og vestan mána. Hún sagði eins og fyrri kerlingin, að hún vissi ekki neitt um það, en hjeldi að þangað kæmist hún seint eða aldrei, „en hestinn minn skaltu fá lánaðan til hennar grannkonu minnar, kanske hún viti það, og þegar þú ert komin þangað, þá slærðu hann bara undir hægra eyrað, og segir honum að fara heim“, og svo gaf kerlingin henni hesputrjeð, og sagði að það gæti vel komið henni í góðar þarfir.

Stúlkan steig á bak hesti kerlingar og reið langar leiðir, og loksins kom hún að stóru bergi, þar sat gömul kerling og spann á gullrokk. Hana spurði stúlkan nú um, hvort hún vissi hvaða leið ætti að fara til kóngssonarins, og hvar höll sú væri, sem stæði fyrir austan sól og vestan mána.

En eins fór það þarna. „Kanske það sjert þú, sem hefðir átt að verða kona þessa konungssonar?“ spurði kerlingin.

Ójú, ekki var því að neita.

En þessi kerling vissi ekki betur um leiðina til hallarinnar, en hinar. Hún vissi að höllin var fyrir austan sól og vestan mána, „og þangað kemstu seint eða aldrei“, sagði hún, „en hestinn minn geturðu fengið lánaðan og á honum geturðu farið til Austanvindsins, og spurt hann. Kannske hann viti um þetta. Þegar þú ert komin þangað, skaltu bara slá hestinn undir vinstra eyrað og segja honum að fara heim, þá gerir hann það“. Og svo gaf kerling henni gullrokkinn. „Það getur verið að þú þarfnist hans“, sagði hún.

Nú reið stúlkan í marga daga eftir vondum vegi, en loksins komst hún á ákvörðunarstaðinn, og spurði Austanvindinn, hvort hann gæti vísað sjer leið til konungssonarins, sem byggi í höllinni fyrir austan sól og vestan mána.

Jú, Austanvindurinn sagðist hafa heyrt talað um þennan konungsson, og höllina líka, en leiðina vissi hann ekki um, því hann hefði aldrei blásið svo langt. „En ef þú vilt, þá skal jeg fylgja þjer til bróður míns, Vestanvindsins, kannske hann viti þetta, því hann er sterkari en jeg, sestu bara á bakið á mjer, þá skal jeg bera þig til hans“.

Hún gerði það og þau voru fljót í ferðum. Þegar þau komu til Vestanvinds, gengu þau inn, og Austanvindur sagði, að stúlkan sem með honum væri, hefði átt að verða kona konungssonarins í höllinni fyrir austan sól og vestan mána, nú væri hún að leita að honum, og hann hefði fylgt henni þangað, og vildu þau fá að vita, hvort Vestanvindur vissi nokkur skil á leiðinni til hallarinnar.

„Nei, svo langt hefi jeg aldrei blásið“, sagði Vestanvindur, „en ef þú vilt, þá skal jeg fylgja þjer til Sunnanvinds, því hann er miklu sterkari en við, og hefir víða farið, hann getur líklega sagt þjer eitthvað um þetta. Þú getur setst á bak mjer, þá skal jeg bera þig þangað“.

Jú, það gerði hún, og þau fóru til Sunnanvinds, og voru ekki lengi á leiðinni, skuluð þið vita. Þegar þau voru komin alla leið, spurði Vestanvindur, hvort Sunnanvindur gæti vísað þeim til hallarinnar, sem væri fyrir austan sól og vestan mána, því stúlkan ætti að fá konungssoninn þar fyrir mann.

„Jæja“, sagði Sunnanvindurinn, „er það hún?“ — Jeg hefi nú farði hingað og þangað um æfina, en svo langt hefi jeg aldrei komist. En ef þú vilt, þá skal jeg fylgja þjer til bróður míns, Norðanvinds, hann er elstur og sterkastur af okkur öllum, og viti hann ekki hvar þetta er, þá færðu heldur aldrei að vita það. Þú getur setst á bak mjer, þá skal jeg bera þig til hans“.

Jú, hún settist á bak Sunnanvindinum, og hann af stað, og ekki voru þau lengi á leiðinni.

Þegar þau komu þar sem Norðanvindurinn átti heima, var hann í svo illum ham, að kuldastrokan stóð af honum langar leiðir.

„Hvað viljið þið“, æpti hann, meðan þau voru enn langt í burtu, og það fór hrollur um þau við að heyra til hans, svo ógurleg og ísköld var röddin.

„Æ, vertu nú ekki svona strangur“, sagði Sunnanvindur, „því þetta er nú bara jeg, og stúlkan sem átti að giftast kóngssyninum, sem býr í höllinni fyrir austan sól og vestan mána, og nú ætlar hún að spyrja þig, hvort þú hafir komið þangað, og getir vísað henni leið, því hún vill gjarna finna kóngssoninn sinn aftur“.

„O, jeg veit nú, hvar þetta er“, sagði Norðanvindur, „jeg bljes einu sinni laufblaði þangað, en af því varð jeg svo þreyttur, að jeg gat ekki blásið í marga daga á eftir. En ef þú endilega vilt komast þangað, og ert ekki hrædd við að fara með mjer, þá skal jeg taka þig á bak mjer og vita hvort jeg get komið þjer alla leið“.

Jú, hún vildi og skyldi komast þangað, ef það væri á nokkurn hátt mögulegt, og hrædd var hún ekki, hvernig sem alt gengi.

„Jæja þá, þá verðurðu að gista hjá mjer í nótt“, sagði Norðanvindur, „því daginn verðum við að hafa fyrir okkur og vel það, ef við eigum að komast til hallarinnar fyrir austan sól og vestan mána“.

Snemma um morguninn vakti svo Norðanvindur stúlkuna, og bljes sig allan út og gerði sig ógurlegan ásýndum, svo stóran og sterkan, að enginn hafði sjeð annað eins, og svo flugu þau af stað hátt upp í loftið, eins og þau væru að fara á heimsenda. Í sveitunum fyrir neðan var slíkt ofsarok, að skógar og hús, flugu langar leiðir, og þegar þau komu út yfir hafið, fór sjórinn í rót, og skip mistu rá og reiða í ofsanum. Þannig hjeldu þau áfram svo langt, svo langt, að enginn trúir því, og altaf svifu þau yfir hafi, og Norðanvindurinn varð stöðugt þreyttari og þreyttari, og það svo, að hann gat varla blásið lengur, og að lokum flaug hann svo lágt, að löðrið úr öldunum vætti fætur stúlkunnar.

„Ertu hrædd?“ spurði Norðanvindur.

„Nei“, sagði stúlkan. „Það er jeg ekki“.

En þau voru ekki langt frá landi, og enn hafði Norðanvindur þrótt til þess að kasta stúlkunni upp á ströndina undir gluggunum á höllinni, sem stóð fyrir austan sól og vestan mána, en þá var hann líka orðinn svo lúinn, að hann varð að hvíla sig í marga daga, áður en hann komst heim aftur.

Næsta morgun fór stúlkan að leika sjer að gulleplinu fyrir utan hallargluggana, og það fyrsta sem hún sá, var bryðjan með þriggja álna langa nefið, sú, sem átti að giftast kóngssyninum.

„Hvað viltu fá fyrir þetta gullepli“, spurði sú með nefið, og glápti út um einn gluggann. „Jeg sel það ekki, hvorki fyrir gull nje gimsteina“, sagði stúlkan.

„Hvað viltu þá fá fyrir það. Þú skalt fá hvað sem þú vilt“, sagði kóngsdóttir með langa nefið.

„Ef jeg fæ að komast til kóngssonarins, sem er hjer, og vera hjá honum í nótt“, sagði stúlkan, sem Norðanvindurinn hafði komið með, „þá skaltu fá eplið“.

„Já, já, það er hægt“, svaraði hin.

Kóngsdóttir fjekk svo gulleplið. En þegar stúlkan kom upp í herbergi kóngssonarins um kvöldið, þá svaf hann. Hún kallaði til hans og hristi hann, en þess á milli grjet hún og barmaði sjer, en henni var ómögulegt að vekja hann. Um morguninn, þegar birti af degi, kom kóngsdóttirin neflanga og rak hana út aftur.

Um daginn settist hún aftur fyrir utan hallargluggana, og fór að hespa á hesputrjeð, og það fór á sömu leið og daginn áður. Sú neflanga spurði, hvað hún vildi fá fyrir þetta hesputrje, en stúlkan sagði að það væri ekki falt, hvorki fyrir gull nje gimsteina, en ef hún mætti fara upp til kóngssonarins og vera hjá honum um nóttina, þá skyldi hún fá hesputrjeð. En þegar hún kom upp í herbergið til hans, þá var hann sofandi, og hvernig sem hún hrópaði og æpti og hristi hann, og hvernig sem hún grjet, þá gat hún ekki vakið hann, og þegar birti af degi morguninn eftir, kom sú langnefjaða og rak hana út aftur.

Og svo þegar leið á daginn, settist stúlkan fyrir utan gluggana og fór að spinna á gullrokkinn, og kóngsdóttirin með langa nefið fjekk líka ágirnd á honum. Hún kom út í gluggann og spurði, hvað hún vildi fá fyrir rokkinn. Stúlkan sagði sem fyrr, að hann væri ekki til sölu, hvorki fyrir gull nje gimsteina, en ef hún mætti vera hjá kóngssyninum næstu nótt, þá skyldi hún láta rokkinn. Jú, það mátti hún svo sem gjarna. En þá var þar eitthvert fólk, sem var fangar í höllinni, og þetta fólk var í herberginu við hliðina á stofu konungssonar, það hafði heyrt að þar var stúlka inni, sem hafði grátið og hrópað á hann síðustu tvær nætur, og þetta sagði fólkið konungssyni. Um kvöldið, þegar sú langnefjaða kom með súpu, sem í var svefnlyf, ljest kóngssonur drekka, en hann helti reyndar súpunni niður, því nú vissi hann, að þarna var ólyfjan í. Þegar svo stúlkan kom inn, var kóngssonur vakandi, og hún sagði honum, hvernig hún hefði komist þangað.

„Ja, mátulega komstu líka“, sagði hann, „því á morgun á jeg að gifta mig, en jeg vil ekki eiga þessa nefljótu, og þú ert sú eina, sem getur frelsað mig frá slíkri ógn og skelfingu. Jeg ætla að segja, að jeg vilji sjá, hvað konuefnið mitt geti, og biðja hana að þvo tólgarblettina þrjá úr skyrtunni, það heldur hún sig geta gert, því hún veit ekki, að það varst þú, sem settir þá í skyrtuna, en það geta ekki nema kristnir menn náð þeim úr, og alls ekki þessi galdra- og tröllalýður hjerna, og svo ætla jeg að segja, að jeg vilji enga aðra eiga fyrir konu en þá, sem geti náð blettunum úr, og það veit jeg að þú getur“.

Þau glöddust nú mjög yfir þessu áformi. En daginn eftir, þegar brúðkaup átti að halda, sagði kóngssonur: „Fyrst vil jeg sjá, hvað konuefnið mitt getur“.

„Jú, það er ekki að undra“, sagði stjúpan.

„Jeg á hjer dýrindis skyrtu, sem jeg ætla að vera í, þegar jeg gifti mig, en það eru komnir í hana þrír tólgarblettir, og þá vil jeg láta þvo burtu, og jeg hefi svarið, að jeg geng ekki að eiga neina aðra fyrir konu en þá, sem getur náð burtu þessum blettum, ef hún getur það ekki, þá verður hún heldur engin eiginkona nje húsmóðir“.

Ja, þær hjeldu nú ekki, mæðgurnar, að það væri mikill vandi að ná úr þessum blettum, og sú neflanga fór að þvo, en því meir sem hún þvoði og núði, því stærri urðu blettirnir.

„Æ, ósköp eru að sjá til þín“, sagði stjúpan. „Láttu mig fá skyrtuna“. En hún var ekki fyrr byrjuð á þvottinum, en skyrtan varð enn ljótari, og blettirnir stærri og svartari eftir því sem hún núði hana meir.

Svo fór meira af galdralýðnum að reyna, en það fór ekki betur, og loks var skyrtan orðin svo svört, að hún hefði vel getað verið komin beint ofan úr sótugum reykháfnum.

„Það getur þetta engin af ykkur“, sagði kóngssonur.

„Það situr einhver fátæk flökkustúlka hjerna fyrir utan gluggann, og jeg er viss um að henni gengur betur að ná úr skyrtunni, en ykkur. — Komdu inn stúlka mín“.

Jú, hún kom inn.

Fólkið flutti burtu úr höllinni.

„Geturðu gert þessa skyrtu hreina“, spurði kóngssonur.

„Æ, jeg veit nú ekki“, sagði hún, „en jeg get reynt“.

Og hún var ekki fyrr búin að dýfa skyrtunni í balann, en hún varð hvít eins og nýfallin mjöll, — og jafnvel enn hvítari.

„Þig vil jeg fá fyrir konu“, sagði kóngssonur.

Þá varð gamla stjúpan göldrótta svo reið, að hún sprakk, og langnefjan hún dóttir hennar og alt hitt galdrahyskið hefir víst sprungið líka, því jeg hefi ekkert heyrt um það síðan. En kóngssonur og brúðir hans frelsuðu alt fólkið úr ánauð, og tóku svo með sjer eins mikið gull og gersemar, eins og hægt var að komast með, og fluttu langt burtu úr höllinni fyrir austan sól og vestan mána.