II. Hver gjörði hann að herra yfir mér?

Georg Harris, fjörugur og gáfaður ungur múlattamaður, sem var þræll á næstu bújörð, var maður Elísu og faðir Harrys litla. Sama daginn, sem Shelby hafði samþykkt að selja Tómas og Harry litla, hafði frú Shelby farið að heiman. Elísa stóð á veggsvölunum og horfði hnuggin í bragði á eptir vagninum, sem var að hverfa; þá var lögð hönd á öxl hennar. Hún sneri sér við, og gleðibros skein í hinum fögru augum hennar.

„Georg, ert það þú? hvað þú gjörðir mér bylt við! Jæja, ég er fegin að þú komst. Frúin er farin að heiman og verður í burtu til kvölds. Komdu því inn í litla herbergið mitt, þar getum við verið alveg út af fyrir okkur.“

Um leið og hún sagði þetta, leiddi hún hann inn í lítið og laglegt herbergi, sem lá fyrir innan veggsvalirnar, þar sem hún var vön að sitja við sauma sína, og mátti heyra þangað, ef húsmóðir hennar kallaði til hennar.

„Hvað ég er glöð! Því brosirðu ekki? Og líttu á Harry, hvað hann stækkar.“ Drengurinn stóð við hliðina á móður sinni og helt í pilsið hennar og leit hálf-smeykur til föður síns, gegn um lokkasafnið, sem fell niður um andlit hans. „Er hann ekki fallegur?“ sagði Elísa og kyssti hann.

„Ég vildi óska, að hann hefði aldrei fæðzt“, sagði Georg beisklega. „Ég vildi að ég hefði aldrei fæðzt sjálfur.“

Elísa varð hrædd og hissa, settist og lagði höfuðið að brjósti manns síns, og fór að gráta.

„Svona nú, Elísa; það var ljótt af mér að hræða þig svona, veslingur“, sagði hann blíðlega, „það var ljótt. Ó, ég vildi, að þú hefðir aldrei séð mig, þá hefðirðu getað verið gæfusöm.“

„Georg, Georg, því geturðu sagt þetta? hvaða ósköp hafa nú komið fyrir, eða vofa yfir? Við höfum vissulega verið gæfusöm, þangað til nú upp á síðkastið.“

„Já, Elísa; en nú er það allt eymd, eymd, eymd! Líf mitt er beiskt sem malurt, lífið sjálft, er að merjast úr mér. Ég er vesall, ógæfusamur, yfirgefinn vinnuþræll. Til hvers er að reyna að gjöra eitthvað, reyna að vita eitthvað, reyna að vera eitthvað? Til hvers er að lifa? Ég vildi, ég væri dauður!“

„Ó, góði Georg, þetta er sannarlega ljótt! Ég veit, að þú hefur harðan húsbónda; en húsbóndi þinn er hann þrátt fyrir allt, það veiztu.“

„Húsbóndi minn! og hver gjörði hann að herra yfir mér? Hvaða rétt hefur hann yfir mér? Ég er maður rétt eins og hann. Hann segir, að hann skuli lækka seglin mín, og auðmýkja mig, og af ásettu ráði fær hann mér erfiðustu og auðvirðilegustu og óþrifalegustu verkin til að vinna.“

„Ó, Georg — Georg — þú skelfir mig! Aldrei hef ég heyrt þig tala neitt þessu líkt fyr; ég er brædd um, að þú gjörir eitthvað hræðilegt. Ég undrast alls ekkert yfir tilfinningum þínum; en, ó, farðu varlega, gjörðu það vegna mín — og Harrys.“

„Ég hef farið gætilega, og ég hefi verið þolinmóður; en það fer allt af hríðversnandi — hold og blóð getur ekki afborið það lengur. Hann notar sérhvert tækifæri, sem hann getur, til að særa mig og kvelja. Ég hugsaði, að ég gæti gengið rólegur að starfi mínu, og haft dálítinn tíma til að læra og lesa, fyrir utan vinnutímann; en því meira sem hann sér að ég get unnið, því meira hleður hann á mig.“

„Það er ekki lengra síðan, enn í gærdag, að ég var að hlaða grjóti í vagn; hann Tómas litli sonur hans stóð hjá og sveiflaði svipu sinni svo nálægt hestinum, að hann varð hræddur. Ég bað hann að hætta, eins kurteislega og ég gat; en hann hélt jafnt áfram. Ég bað hann aptur, og þá sneri hann sér að mér og fór að lemja mig. Ég tók í höndina á honum, og hann barðist um og æpti, stökk svo til föður síns og sagði honum, að ég hefði barið sig. Hann kom afarreiður, og sagðist skyldi sýna mér, hver væri húsbóndi minn; og hann batt mig við tré og sagði drengnum, að hann mætti berja mig með svipunni sinni, þangað til hann væri orðinn þreyttur; og það gjörði hann.“

Það brá skugga yfir enni hins unga manns, og úr augum hans brann eldur, sem kom hinni ungu konu hans til að skjálfa.

„Hver hefur gjört þennan mann að herra yfir mér? Það er það, sem ég vil fá að vita“, sagði hann. „Ég hef verið skammaður og laminn og mér hefur verið formælt, og þegar bezt hefur látið, þá hef ég verið látum afskiptalaus. Og hvað hef ég til unnið? Ég hef margborgað fæði mitt og föt. Ég vil ekki þola þetta — nei, ég vil það ekki“, sagði hann og kreppti hnefann.

Síðan sagði hann konu sinni, að hann ætlaði að gjöra tilraun til að flýja, hvað sem skeði. Hún hlustaði á hann hrædd og skjálfandi. Eptir langt samtal sagði Georg: „Svona nú, Elísa, þú verður að herða upp hugann, því ég er farinn.“

„Farinn, Georg; farinn hvert?“

„Til Canada“, sagði hann og rétti úr sér — „og þegar ég er kominn þangað, ætla ég að kaupa þig og drenginn. Þú hefur góðan húsbónda, sem ekki mun neita að selja mér þig; eg skal kaupa þig og drenginn, með guðs hjálp skal ég gjöra það.“

„Og ef þér yrði náð; það væri voðalegt!“

„Ég læt ekki ná mér, fyr skal ég deyja! Ég ætla að verða frjáls, eða deyja!“

Georg stóð og hélt í hendur Elísu, og horfði í augu hennar. Þau stóðu þegjandi. Svo,voru töluð síðustu skilnaðarorðin; andvörp og beiskur grátur. Það var skilnaður, eins og þeirra, er litla von hafa um að sjást aptur. Hvorugt grunaði að eptir fáar klukkustundir mundu Elísa og Harry litli einnig verða á flótta.