XIV
Tómas frændi
Höfundur: Harriet Beecher Stowe
Þýðing: Guðrún Lárusdóttir
XVI


XV. Litli trúboðinn.

Það var enginn á heimilinu, sem gat ráðið við veslings Topsý. Einn dag kom Ophelía að máli við St. Glare. „Eg segi það satt, Ágústínus,“ sagði hún, „eg hef ekki hugmynd um, hvað eg á að taka til bragðs. Eg hef allt af verið að reyna að segja henni til; eg hef áminnt hana þangað til eg er orðin uppgefin; eg hef hýtt hana, eg hef hegnt henni með öllu, sein mér hefur getað komið til hugar; en þrátt fyrir allt þetta er hún öldungis sú sama og hún var þegar hún kom.“

„Komdu nú Topsý. Hvað kemur til að þú hegðar þér þannig?“ sagði St. Clare og átti örðugt með að verjast hlátri, er hann sá svipinn á Topsý.

„Eg hugsa það sé af því hjarta mitt sé svo illt,“ Sagði Topsý alvörugefin. „Missus Felly segir það.“

„Sérðu ekki, hvað Ophelía hefur gjört fyrir þig? Hún segist vera búin að reyna allt, sem henni geti komið til hugar, við þig.“

„Já, massa! Gamla missus sagði það nú líka. Hún lamdi mig miklu fastara, og dró mig á hárinu, og sló höfðinn á mér við dyratrén, en eg lagaðist ekki við það — eg er svo vond! Eg er bara svertingjastelpa, ekkert annað.“

„Jæja, eg hætti við hana,“ sagði Ophelía.

Eva hafði staðið þegjandi hjá og hlýtt á þessa samræðu. Hún gjörði Topsý nú bendingu um að koma. Í einu horninu á veggsvölunum, var ofurlítið herbergi með glerhurð, sem St. Clare var vanur að hafa fyrir lestrar herbergi. Eva og Topsý fóru inn í þetta herbergi.

„Hvað skyldi Eva ætla fyrir sér?“ sagði St. Clare; „eg ætla að fara að sjá það.“

Hann læddist ofurhægt að glerhurðinni, dró tjaldið lítið eitt til hliðar og leit inn; síðan gjörði hann Ophelíu bendingu um að koma. Börnin sátu á gólfinu, hvort andspænis öðru; Topsý léttúðug og ertnisleg, eins og hún var vön, en á andliti Evu lýsti sér áköf geðshræring, og það glitruðu tár í stóru, bláu augunum hennar.

„Því ertu svona vond, Topsý? Því viltu ekki reyna að verða góð stúlka? Þykir þér ekki vænt um neinn, Topsý? Þykir þér ekki vænt um pabba þinn og mömmu þína?“

„Eg á enga mömmu og engan pabba, þér vitið það, eg hef sagt yður það, missus Eva.“

„Ójá, eg veit það“, sagði Eva, hryggðarlega, „en áttu engan bróður eða systur eða frænku eða —“

„Nei, aldrei átt neitt eða neinn.“

„En Topsý, ef þú reyndir nú til að vera góð, þá gætirðu það.“

„Get aldrei orðið neitt nema svertingjastelpa, hvað góð sem eg væri,“ sagði Topsý.

„En fólki getur þótt vænt um þig, Topsý, þó þú sért svört. Ophelíu frænku minni mundi þykja vænt um þig, ef þú værir gott barn.“

Topsý hló kuldahlátur; það gjörði hún ætíð, er hún vildi ekki trúa einhverju.

„Heldurðu það ekki?“ sagði Eva.

„Nei, hún hefur óbeit á mér af því eg er svertingi. Henni þætti ekkert verra að hafa nöðru nálægt sér. Það getur engum þótt vænt um svertingja. En mér stendur á sama,“ sagði Topsý og tók til að blístra.

„Ó, Topsý, veslings Topsý, mér þykir vænt um þig,“ sagði Eva, sem réði nú ekki við tilfinningar sínar, og lagði litlu, hvítu höndina á herðarnar á Topsý. „Mér þykir vænt um þig, af því þú átt engan pabba og enga mömmu, og enga frændur! Mér þykir vænt um þig, og eg vil að þú verðir góð stúlka. Eg er ekki frísk, Topsý; eg er mjög veik, og eg hugsa að eg lifi ekki mjög lengi, og það hryggir mig sárlega að þú skulir vera svona óþekk. Eg vildi óska að þú vildir reyna til vera gott barn mín vegna; eg verð að eins stutta stund með þér úr þessu.“

Stóru, kringlóttu, skrítilegu augun í svarta barninu fylltust tárum; stórir bjartir dropar féllu þunglega niður á hvítu höndina. Já, á þessu augnabliki hafði geisli trúar og kærleika þrengt sér inn í þessa heiðnu sál! Hún grúfði höfuðið ofan að knjám sér og grét sáran; en hið fagra barn með gullna hárið og bláu augun, sem laut yfir hana, líktist engli, er væri að snúa syndara frá villu hans vegar.

„Ó, kæra missus, — kæra missus Eva!“ sagði barnið grátandi, „eg skal reyna, — eg skal reyna! Eg hef ekkert kært mig um það áður.“

St. Clare lét tjaldið aptur fyrir hurðina. „Mér dettur hún móðir mín í hug,“ sagði hann við frændkonu sína; „það er satt, sem hún sagði mér: ef við viljum gefa blindum sýn, þá verðum við að vera reiðubúin til að leggja hendur yfir þá.“