Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Draugurinn Kinni

Þá skriðan mikla féll í Vatnsdal norður (1720) fórst smalamaður Sæmundar Bjarnastaðabónda með öðrum í skriðunni er Þorlákur hét. Fannst hann einn af sjö mönnum er fórust og hönd af bónda, en höfuð var hálft af Þorláki. Var sagt hann gengi aftur og þá kallaður Kinni.

Síðan var það að Vestfirðingur var á Þorkelshóli í Víðidal í kaupavinnu er kallaður var fjölkynngismaður, en fyrir því að honum þótti sér illa kaup goldið fór hann til og særði Kinna til að eyða fénaði bónda á Þorkelshóli og gjöra aðrar skráveifur; aðrir segja hann vekti Kinna upp. Eftir það gjörði hann þar tjón mikið í fjárdrápum, lék og suma heimamenn illa. Víðar kom hann og á bæi og sagt er að bæði sæi freskir menn [og] ófreskir, en allir hræddust hann mjög því jafnan sást hann svo að hálft var höfuðið af.

Margar eru sagnir um glettingar Kinna þó vér vitum óglöggt að telja. En fyrir því að Þorkelshólsbónda þótti ei við vært fór hann á fund Páls lögmanns Vídalíns er þá bjó í Víðidalstungu og bað hann ráða bót á ófögnuði þeim. Réði hann bónda þá að finna karl þann er Jón hét er þá dvaldi í Húnaþingi og í kunnleikum var við lögmann. Var Jón undan Jökli og er að líkindum hinn sami og Guðmundur Bergþórsson telur með skáldum í mansöng fyrir Bálantsrímum því skáld var Jón og nú sagður afar hniginn að aldri er þetta barst að. Er þá sagt að Jón karl færi til, einkum fyrir orðsendingu lögmanns, fór til Þorkelshóls. Er talið hann særði lengi drauginn og setti hann að lyktum þar í vegg einn, yrði hann ei að meini síðan. En sagt hefur verið að fyrir veðrum og öðrum tíðendum suðaði þar í veggnum heldur leiðinlega.