Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Mannshnútan

Það var í Vaðlaþingi fyrir löngu síðan að tveir menn höfðu deilur sín á milli og vóru mjög ósáttir, en lauk með því að annar varð undir í viðskiptunum og eirði því illa, en varð þó við svo búið að standa; hafði hann þó alltaf sterkan hug að hefna sín. Fór hann því eitt sinn að heiman langa leið til manns sem kallaður var fjölkunnugur, og keypti að hönum að hjálpa sér til hefnda; vildi hann helzt að hann byggi til draug sem dræpi hinn. Sá fjölkunnugi kvað hann geta sjálfan búið draug til og lagði hönum ráð til þess: hann skyldi moka upp gröf í kirkjugarði þangað til hann fyndi mannshnútu, hana skyldi hann taka og vefja um svartri ull og geyma í barmi sínum næst þegar hann tæki sakramenti; þá skyldi hann spýta víninu í ullina svo enginn sæi og kenndi hönum svo nokkur orð sem hann skyldi segja. Að þessu búnu fer hann á stað og þakkar hinum ráðin og fór að öllu eins og ofan er skrifað. Sagði hann þá hnútunni – sem orðin var að draugi – að fara á stað og drepa óvin sinn. Draugurinn leið á stað og hélt áfram skyndilega þar til hann kemur að bæ þess sem hann átti að drepa. Svo stóð á að bóndi hafði lokið að gefa kindum sínum um kveldið og gekk frá húsum til bæjar; sér hann þá mann koma á móti sér í svartri úlpu og stóran barðahatt á höfði. Veður var dimmt og mugga, og dimmt af nóttu svo allt sást óglöggt. Þeir ganga djarflega saman og þegar þeir mætast standa báðir við og bóndi spyr hinn að heiti, en hann anzar öngvu; bóndi spur hann á marga vegu, en hinn þegir. Var það þá bæði að bóndi reiðist og hönum þótti hinn ákaflega ljótur og ískyggilegur svo hann dregur upp hníf stóran sem hann hefur, og rekur í þann aðkomna í einhvurju fáti svo hann dettur niður. En þegar hann hafði verkið unnið varð hann ákaflega hræddur, hljóp heim og lagðist mállaus upp í rúm því hann hélt sig vera manndrápara; og svona lá hann það sem eftir var af vetrinum og fram á vor. Þá bar svo til að þegar barin var mykja á velli fannst hnífurinn í einu hlassinu og stóð í mannshnútu. Bónda var flutt þessi fregn; þekkti hann hnífinn og kannaðist við að hlassið var það sama sem hann stóð á þegar hann hitti manninn. Reis hann þá úr rekkju og hrósaði happi að hafa verið svo heppinn að hitta á hnútuna, en fara ekki hjá henni, því þá mundi draugurinn hafa drepið sig því hann þóttist skilja að þetta mundi sending frá hatursmanni sínum. Ekki er framar getið að þeir hafi átzt við í illu og er þessari sögu hér með lokið.