Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Presturinn og bóndinn

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Presturinn og bóndinn

Einu sinni var prestur nokkur, áleitinn og ofbeldissamur við sóknarfólk sitt. Bóndi einn var í prestakallinu sem aldrei hafði látið hlut sinn fyrir presti, og höfðu þeir oft elt grátt silfur sín á milli og prestur jafnan farið halloka.

Bóndi var hniginn nokkuð á efra aldur þegar þessi saga gjörðist. Það var einhverju sinni að bóndi var á ferð um nótt og lá leið hans um á prestssetrinu. Sér hann þá að prestur er að fást við draug í kirkjugarðinum og má varla við. Hafði hann vakið upp unglingsstúlku sem dáið hafði fyrir skömmu og var hún svo æf að prestur hrökk varla við. Bóndi horfir um hríð á leikinn og segir: „Bíttu í vinstri geirvörtuna maður,“ og fer hann síðan leiðar sinnar. En prestur lætur sér þetta ráð að kenningu verða og fær hann þá ráðið við stelpuna. Síðan sendir hann bónda drauginn og á hann að vinna á bónda til fulls. Bóndi tekur á móti draugsa og kemur honum í hrosslegg einn. Rekur hann síðan tappa í hrosslegginn og bindur yfir með kapalskæni, leggur hann síðan á kistubotn sinn, og liðu svo mörg ár að ekkert verður til tíðinda og bóndi tekur ekki upp legginn og hróflar þessu ekki við nokkurn mann.

Þar kemur að að bóndi leggst og tekur sótt þá er hann ætlar muni leiða sig til bana Hann átti eina dóttur barna er stóð til arfs eftir hann. Hana kallar bóndi fyrir sig og segir henni frá hrossleggnum hvar hann sé og hvað í honum sé geymt. Varar hann hana við að taka ekki tappann úr leggnum eða róta honum nokkuð að mun fyrri en tuttugu árum eftir sinn dauða. Segir hann að þar á eftir muni trauðla verða mein að draugnum. Og er bóndi hefur ráðstafað því er honum þótti þörf á deyr hann og er útför hans gjörð hin virðulegasta.

Tekur dóttir hans við búráðum eftir hann og giftist; býr hún á hinni sömu jörð er faðir hennar hafði á búið. En maður hennar átti aðra jörð miklu stærri og betri en þessi var og vildu þau fyrir hvern mun komast á þá jörð, en hún lá ekki laus fyrir því þar höfðu búið sömu mennirnir í fjölda ára. Þeim dettur þá ráð í hug, og það er að taka tappann úr hrossleggnum og senda leggbúann bóndanum á jörðinni og þetta gjöra þau. En er draugsi er kominn úr leggnum þá vill hann hvergi fara. Segist hann hafa verið sendur til þessa bæjar og einkis annars. Fari hann því ekki héðan fyrri en hann sé búinn að ljúka erindinu. Þau bóndinn og konan stóðu uppi ráðalaus; þau kunnu ekki að koma draugnum af sér og það varð niðurstaðan að hann fylgdi þeim og þeirra ætt ævinlega upp frá því.