Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Ævilok Jóns á Hellu

Nokkrum tíma síðar er svo sagt að Jón í Ási fær sér flugu eina og magnar hana með göldrum og forneskju, en síðan sendir hann hana Jóni á Hellu. Eitt kvöld um haustið er Jón á Hellu að raka gæru; sat hann á stóli við dyrastaf og stóð lampi í stafnum, en Jón son hans sat á rúmi. Kerling var að elda graut til matar þeim og var ýmist uppi eða niðri. Þegar kerling sat uppi tók hún eftir því að fluga ein var alltaf að flökta kringum ljósið; hafði hún orð á því við þá feðga hvað ljót sér þætti þessi fluga og illileg og bað þá að drepa hana, en þeir höfðu þessar umtölur hennar að skimpi og kváðu vera venjulega baðstofuflugu. Því næst skammtar kerling um kvöldið og ber Jóni bónda sínum ask hans með graut og mjólk. Jón tekur við og fer að borða, en við hinn þriðja spóninn skýzt flugan, sú er kerlingu hafði verið verst við um kvöldið, ofan í Jón, en honum verður bilt við og biður Jón son sinn að bregða sér út sem hvatast og sækja sér beitu af tólf ára gömlum hákarli er hann vísar honum á í hjall sinn að bæjarbaki. Drengur bregður við skjótt og hleypur út, en þá er beitan horfin. Snýr hann nú inn aftur og segir föður sínum svo búið. Hann mælti þá að til eins mundi draga og bað son sinn nú taka sér hest og ríða hið hvatasta til prests og biðja hann veita sér þjónustu. Fer nú drengur leiðar sinnar.

En nú er að segja hvað Jón í Ási hafðist að þenna sama dag; kemur hann þá til prests og biður hann sjá svo til ef Jón á Hellu láti sækja hann að veita sér sakramenti að Jón komi því ei upp úr sér aftur þótt hann vili, því það ríði á lífi sínu. Prestur heitir því og skilja þeir eftir það.

Nú kemur Jón yngri á Hellu til prests og segir fram erindi sitt, að faðir sinn biði hann að koma sem skjótast og þjónusta sig því hann hafi tekið sjúkleik hastarlegan. Prestur bregður við þegar og fer til Hellu, stígur af baki og gengur inn; er þá Jón bóndi mjög þungt haldinn og lagztur í rekkju. Biður hann nú prest að veita sér sakramenti hið fyrsta og gerir prestur það. En er Jón hafði sopið á kaleiknum sneri hann sér upp og ætlaði að spýta út úr sér víninu, en prestur hafði gætur á hvað Jóni leið, og sem hann sér ætlun hans rekur hann mikið högg á herðar honum og mælti: „Kyngdu því, djöfullinn þinn, að hverju sem þér verður það.“ En þá brá Jóni svo við að blá gufa rauk út af munni hans og var hann þegar dauður. En prestur hafði þar skamma dvöl og ríður heim aftur. Var síðan gjör útför Jóns eins og venja var til og varð hann fáum harmdauði og þótti verið hafa hinn versti viðureignar og hinn fjölkunnugasti og hugðu menn hann mundi hafa farið allilla. En Jón í Ási lifði langa hríð eftir þetta við góðan orðstír og fór jafnan vel með kunnáttu sinni. Og lýkur hér þessari sögu.