Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Skreiðarferð Jóns í Ási

Það er sagt að um þessar mundir væri mjög fiskilítið kringum Eyjafjörð; fóru því margir Eyfirðingar lestaferðir til fiskikaupa bæði suður á land og vestur undir Jökul.

Einn tíma um vorið kemur Jón í Ási að máli við konu sína og kveðst eiga lestaferð fyrir höndum suður á Akranes að kaupa fisk til bús þeirra. En þá var svo háttað högum Þorbjargar húsfreyju að hún var þunguð og langt á leið komin. Kvaðst Jón bóndi fara nauðugur í þessa ferð þó svo yrði nú að vera, því sér væri eigi grunlaust um að Jón á Hellu myndi sitja um að vinna þeim báðum eitthvert mein ef hann mætti sér svo við koma. Bað hann konu sína það mest varast að stíga ekki fæti sínum út fyrir túngarð meðan hann væri í burtu, hvað sem við lægi, og lét þá líkara að duga myndi, en mikið illt myndi af leiða ef hún brygði út af þessu. Hún lézt mundu gæta þess er hann mælti fyrir. Eftir það hélt Jón á stað suður, gengur honum ferðin vel, og kaupir fisk syðra sem hann þarfnar. Því næst heldur hann norður aftur og var þá komið að fráfærum er hann var kominn norður á Holtavörðuheiði.

Nú víkur sögunni aftur heim að Ási. Lætur húsfreyja hreinsa tún að vanda og verja fyrir skepnum. En það bar til nýlundu að hversu vel sem rekið var á kvöldum frá túni þá sóttu því meir á það gripir hvaðanæva, og fór svo nokkur kvöld að jafnan var rekið, en heimamönnum þótti þó túnið standa fullt eftir sem áður; þótti þeim þetta næsta kynlegt því það fylgdi og með að menn sáu ei túnið bítast. Fór nú heimamenn að gruna að þetta mundi varla vera einleikið og tóku að trénast upp á rekstrinum, en húsfreyja var því ákafari um vörzluna.

Eitt kvöld voru allir háttaðir nema Þorbjörg húsfreyja; kemur hún þá út áður hún gengi til hvílu og skyggnist um; þykir henni þá sem túnið standi fullt bæði af fé og nautum. Hún skundar nú inn og biður vinnumenn sína reka úr túni er fullt standi með fénað; þeir taka lítið undir það og telja að vera muni missýningar einar. Verður nú húsfreyja stygg við og snýr þegar út aftur og tekur að reka burt peninginn; gengur henni það seint, en um síðir fær hún þó nuddað honum út fyrir túngarðinn, en hann ryðst þegar inn aftur á hæla henni. Gekk þetta þóf þangað til hún reiddist og elti sjálf gripina út fyrir garðinn. En jafnskjótt sem hún er komin út fyrir garðinn tekur hún þar jóðsótt, skyndilega og ákafa, svo að hún fær ekki komizt úr stað; elur hún þar nú barnið, en þegar hverfur það frá henni er hún hefir alið það svo hún veit aldrei hvað af því verður, en hún liggur þar eftir magnlaus og dauðvona og fær enga björg sér veitt. Liggur hún þar langa hríð. Tekur nú heimafólki að leiðast er húsfreyja kemur ei inn aftur og fer það á fætur að leita hennar. Finnst hún um síðir þar sem hún lá fyrir utan garðinn nær dauða en lífi; er hún nú borin heim og hjúkrað í öllu sem varð. Hressist hún þá vonum bráðar svo að hún kemst á fætur.

Nú víkur sögunni aftur til Jóns bónda, að hann er kominn norður á leið á miðja Holtavörðuheiði svo sem fyr segir, en þá sér hann að barn hans hið nýfædda kemur þar á móti honum og ræðst þegar á hann; bregður honum nú mjög við þessa sendingu er hann þykist sjá að Jón á Hellu hafi nú drepið barn sitt og vakið það síðan upp aftur til að bana sér, en þó verður hann nú í móti að taka þessari hryllilegu sendingu og tókst honum brátt að koma henni fyrir. Eftir það heldur hann leið sína unz hann kemur heim. Situr hann nú heima um sumarið og er heldur fálátur og óglaður. Jón á Hellu hafði mjög í skimpingum hvað lengi hún gengi með, hreppstjórakonan í Ási, og bárust þær ræður til eyrna Jóni bónda hennar, en hann lét sem hann heyrði eigi.

Líður nú til þess um haustið. Þá var Jón í Ási einn dag í smiðju sinni og smíðaði nokkuð. Kemur þar þá til hans maður nokkur gamall og grár fyrir hærum; hann var kynjaður vestan af Hornströndum og hélt sér uppi á beiningaferðum. Þeir Jón tókust tali við; fann bóndi það skjótt að karl mundi fróður vel í fornum vísindum, enda vildi hann og helzt þar um ræða. Kvaðst karl hafa spurn af að Jón mundi margfróður vera, en hinn lét lítið hæft um það, en heldur mætti það segja um Jón á Hellu að hann vissi frá sér. „Já,“ segir karl, „hvað er að tala um hann, djöfulinn þann, sem alstaðar hefir umbúðir nema í kjaftinum.“ Jón hjó eftir þessu, en ræddi þó eigi um. Bauð hann því næst karli inn og veitti honum góðan beina. Eftir það skildu þeir og er karl úr sögunni.