Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Örnefni í Straumfirði

Halla var auðkona mikil og skörungur hinn mesti og þótti fyrirtak kvenna á hennar dögum; hún bjó í Straumfirði hinum syðra og bera ýms Örnefni sem enn í dag eru brúkuð vitni um að hún hafi þar verið.

Bjarg það er liggur sunnan til á eyjunni (Straumfjarðarbær stendur á eyju umflotinni að flæði sjávar) með endilangri Straumfjarðarröst heitir ennþá Höllubjarg, og er sagt að fiskihjallur Höllu hafi staðið á bjarginu þar sem það er hæst og að þangað hafi Halla gengið þegar hún vildi tala við Elínu systur sína og hafi þá Halla staðið á bjargsnösinni, en Elín á Elínarhöfða, og þær systur talazt þannig við [um] allt hvað þær vildu, en þó enginn heyrt, og eru þó á milli Höllubjargs og Elínarhöfða nálægt tveim vikum sjávar.

Vestan undir Höllubjargi er vík ein; þar eru kölluð Höllunaust; er þar sagt að verið hafi lending og skipauppsátur til forna, og hefur þá ekki verið farið inn í Straumfjarðarröst, en nú er lending og uppsátur haft inn í röst, innan til við Höllubjarg.

Vatnsból það sem ennþá er brúkað í Straumfirði heitir Höllubrunnur. Er það manngjörður brunnur og mikið verk á, grafinn djúpt niður og hlaðinn vel og vandlega upp allt frá botni; smávíkkar hann upp eftir, en er örmjór neðst, og er hann því líkur strokk í lögun, þó ekki mjög misvíðum. Sagt er að Halla hafi látið gjöra brunn þenna þar sem þannig dró í lægð á eyjunni að hvorki sást til fjalls né fjöru frá brunninum. En nú hefur fyrir löngu varpað upp sandi kringum brunninn og hækkað svo upp umhverfis hann að á hverja hlið sem við hann er staðið hlýtur annaðhvort að sjá til fjalls eða fjöru. En að öðru leyti er brunnurinn heill og óhaggaður, og er mælt að aldrei hafi við hann verið gjört síðan Halla lét byggja hann.

Þó ég telji það líklegt að Halla hafi einhvörn tíma á yngri árum mann átt þar hún átti tvo sonu veit ég það ekki með neinni vissu. En hitt er víst að fyrir búinu í Straumfirði er hún ein talin og hennar einnar við getið í öllum þeim ævintýrum sem af henni eru.