Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Þorkell Guðbjartsson og Gráskinna
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Þorkell Guðbjartsson og Gráskinna
Þorkell Guðbjartsson og Gráskinna
Þorkell hét sonur séra Guðbjartar; hann skrifaði fyrstur rúnabókina Gráskinnu er öll fjölkynngi var höfð úr á seinni öldum; bók þessi lá lengi við skólann á Hólum og lærðu sumir piltar nokkuð í henni, helzt hinn fyrsta part er var ritaður með málrúnum. Var þar ekki kenndur galdur né særingar, heldur meinlaust kukl eins og glímugaldur, lófalist og annað þess konar, og gátu allir orðið sáluhólpnir þó þeir lærðu þann partinn. Seinni og lengri parturinn var þar á móti ritaður með villurúnum er fáir gátu komizt niður í, enda var þeim meinað það af meisturunum. Þar var allur hinn rammari galdur og urðu þeir allir óþokkasælir og ólánsmenn sem voru rýndir í honum.