Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Sjónhverfingar Guðbjarts

Nokkru seinna var biskup á ferð við annan mann norður í Eyjafirði og gjörði þá ferð sína um leið heim til séra Guðbjartar; tókst honum það greiðlega og hitti svo á að enginn var úti. Biskup gekk þegar til stofu; sá hann að prestur sat þar við borð og studdi hönd undir kinn og hafði bók fyrir sér; biskup þreif bókina, en hvernig sem hann fletti henni sá hann ekkert nema óskrifuð blöðin. Biskup spurði prest til hvers hann ætlaði þessa bók, en hinn kvaðst ætla hana undir prédikanir: „Þú held ég ætlir það,“ svarar biskup reiðuglega, „sem dýrkar djöfulinn.“ En varla hafði hann sleppt orðinu fyrr en hann sá gröf með bláleitum loga og stóð hann sjálfur tæpt á barminum, en grá hönd greip í kápulaf hans og ætlaði að kippa honum í logann. Rak þá biskup upp hljóð og mælti: „Fyrir guðs skuld hjálpið mér, herra prestur.“ Rétti séra Guðbjartur honum þá hönd sína og sagði: „Slepptu honum, kölski;“ færðist þá allt í samt lag aftur. Prestur mælti þá: „Það er von að óvinurinn sé nærri þeim sem bera nafn hans í munni sér og biðja ekki um frið drottins yfir það hús er þeir koma í; það er ég vanur að gjöra og þó berðu mér á brýn að ég hafi sleppt réttri trú.“ Biskup mýktist nú nokkuð í máli. Töluðust þeir þá lengi við tveir einir og skildu síðan með vináttu; sagðist biskup vilja óska þess að allir væru jafnguðhræddir menn og Guðbjartur sinn. Aldrei bar á því endrarnær að prestur beitti kunnáttu sinni, en undarlega þótti fara eftir forspá hans og fyrirbænum.