Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Þormóður, feðgarnir og Jón frændi

Margt hefur verið sagt frá viðureign Þormóðar við drauga og forynjur sem hann fékkst við og kom fyrir bæði fyrir aðra og sjálfan sig og komst þá stundum í krappan dans, og eru miklu fleiri sögur um það hvernig hann veitti þeim frið og lið sem ofsóttir voru af draugum og sendingum en um það að hann hafi sent þær sjálfur, sízt að fyrra bragði.

Vestur við Ísafjarðardjúp voru feðgar tveir og hétu báðir Jónar að sumir segja; þeir áttu illt útistandandi við nágranna sinn sem Einar hét; Einar átti dóttur eina gjafvaxta og vildi Jón yngri fá hennar fyrir konu, en Einar vildi ekki gifta honum hana því þeir feðgar höfðu illt orð á sér og þó var stúlkunni meir um kennt. Heituðust þeir feðgar við feðginin og sögðu að stúlkan skyldi hvorki verða sér né öðrum að nytjum að heldur. Leið þá ekki langt um áður stúlkan varð utan við sig (leikin) og sótti að henni loftandi að sagt var svo að hvorki hafði hún ró nætur né daga og lá við vitfirringu. Föður hennar þótti þetta mikið mein og kenndu allir þeim feðgum sem þóttu bæði illmenni og fjölkynngismenn. Af því þá var komið orð á Þormóð fyrir kunnáttu hans sendi Einar til hans mann með hesta því þeir eru óvíða í eyjum og lét biðja hann liðs. Sendimaður kom á fund Þormóðs og bar fram erindi sín. Þormóður tók því fálega í fyrstu og sagðist ófær til að fara í hendur Ísfirðingum og mundi hann reisa sér þar hurðarás um öxl, ókenndur maður og lítt fróður. En af því sendimaður leitaði því fastar á sem Þormóður færðist undan fór svo að Þormóður hét að fara. Þeir fóru svo sem leið liggur til Ísafjarðar og hafði Þormóður reiðingshest með sér vel reiðingaðan og ekkert á nema umbúðir miklar bundnar við bogann. Ekkert vissi sendimaður hverju það sætti fyrr en þeir komu á Þorskafjarðarheiði; þar vakaði Þormóður á vatni því sem Gedduvatn heitir og dorgaði um stund; hann beitti gulli á öngul sinn og hafði þá á höndum mannskinnsglófa. Að stundu liðinni dró hann vatnageddu; það kvikindi er gyllt á lit og baneitrað. Lét Þormóður gedduna fyrst í flösku, vafði þar utan um úlpu og öllum þeim skinnum og umbúðum sem hann hafði áður bundið við bogann á reiðingshestinum, og þegar hann hafði um búið sem bezt hann gat batt hann þenna bagga enn við bogann á reiðingshestinum og hélt svo áfram ferð sinni til Einars, og tók hann vel við Þormóði. Þegar sprett var af reiðingshestinum var hann hárlaus á bakinu þar sem geddan hafði legið á og eins og sligaður, og aldrei varð hann jafngóður síðan; var það kennt eiturkrafti kvikindis þessa. Þormóður tók síðan gedduna þegar vestur kom og gróf hana niður undir þröskuld í húsi því sem hann svaf í og stúlkan í öðru rúmi. Við það létti þegar fyrstu nóttina aðsókninni og svo aðra, en þriðju nóttina var að heyra nöldur nokkurt við dyrnar. Fór Þormóður þá ofan og við það hvarf nöldrið. Þormóður var þar viku og batnaði stúlkunni svo að hún kenndi aldrei aðsóknar síðan.

Þegar Þormóður fór suður aftur var hann við kirkju á sunnudegi og af því hann þekkti þar engan mann var hann einn sér og utan við og stóð við kirkjugarðinn. Heyrði hann þá að tveir menn töluðust við inni í garðinum og ræddu um hver þessi ókunnugi maður væri eða hvort það mundi vera sá sem læknaði stúlkuna og hældu honum á hvert reipi svo Þormóður heyrði undir væng. Þóttist Þormóður vita að þetta mundu vera þeir feðgar og flátt byggi undir fyrir þeim. Þeir spurðu hann að heiti, en hann sagði sem var. Lofuðu þeir hann í hverju orði og sögðust vilja sýna það að slíka menn mettu þeir mikils og buðu honum fylgdarmann heim af því hann væri ókunnugur öllum leiðum. Þormóður kvaðst hafa fylgdarmann og hesta frá Einari bónda, en ekki mundi sér þykja óskemmtun af fleiri fylgdarmönnum. Ekki er getið ferða þeirra Þormóðar fyrr en þeir komu undir Klofningsfjall þar sem Ballará fellur úr Klofningnum. Þá sagði Þormóður við fylgdarmann sinn að hann skyldi fara til Ballarár og gista þar um nóttina, en hann sagðist sjálfur mundi leita sér að öðrum náttstað, og ef hann yrði ekki kominn á dagmálum morguninn eftir mætti fylgdarmaðurinn ríða vestur heim því þá væri sín ekki að vænta. Skildu þeir við það.

Foss einn er í ánni uppi í fjallinu og forbergt undir; Þormóður fór inn undir fossinn og bjóst þar fyrir. Hafði hann verið þar skamma stund áður en sending þeirra feðga kom að ánni, en þorði ekki yfir né heldur undir fossinn að Þormóði; er sagt að þeir feðgar byggist ekki við að þess mundi við þurfa að leggja það fyrir hana. Þormóður spurði hvert erindi hennar væri. „Að drepa Þormóð,“ sagði hún. Þormóður sagði að hún mundi þá þurfa að ganga nær, sýndi henni gedduna og hafði upp særingar. Magnaði Þormóður svo draug þenna að nýju, þegar hann hafði skyldað hann til hlýðni við sig, og bauð honum að fara vestur aftur og drepa Jón eldri, en ásækja hinn yngri, og væri þeim það lítið leiksbragð fyrir áleitni þeirra við bóndadóttur og sig. Draugur sneri þegar vestur aftur og gerði það sem fyrir hann var lagt. En Þormóður hitti fylgdarmann sinn á dagmálum, og segir ekki af ferðum hans annað en að hann kom heill heim til sín. Sagt er að seinna hefði verið sent til Þormóðar að vestan og hann beðinn að létta aðsókn að Jóni yngra, en það fengist ekki af Þormóði fyrr en að þrem vetrum liðnum.

Jón hét maður og var Ólafsson; hann var í frændsemi við feðga þá sem fyrr eru nefndir og því var hann kallaður „Jón frændi“. Jón var smiður góður og galdramaður svo mikill að haft var eftir honum að hann hefði sagt það kunningjum sínum að sig vantaði einn staf til þess að hugsa mann dauðan og væri hann nú á leiðinni. Það er sagt til marks um það hvað fáir hlutir komu Jóni á óvart að einu sinni var hann staddur í Haga á Barðaströnd, en átti heima í Látrum, og sagði hann þá að maður einn tæki hefil sinn heima í Látrum, og reyndist svo sem Jón hafði sagt; enda sögðu sumir að hann hefði sagnaranda. Sagt er að Jón frændi vildi hefna þeirra feðga á Þormóði og léti sem sér mundi verða lítið fyrir því nema ef ákvæði Þormóðar yrðu sér að ofurefli, því Jón var ekki skáld. Er þá sagt að hann sendi Þormóði sendingu, en hún kom svo óvörum að Þormóði að hún kyrkti eitt barn hans og Guðrúnar áður en hann gæti séð fyrir henni. Engan kost átti Þormóður að senda Jóni þessa sendingu aftur; svo var hún mögnuð; en þó kom hann henni fyrir eftir langa mæðu og örðugt veitti honum síðan að sjá við glettingum Jóns frænda.

Þessu næst er að minnast á dætur tvær sem Þormóður átti og helzt koma við sögu hans. Hét önnur þeirra Þóra, en hin Guðrún eldri. Þóra var lengst af með föður sínum og nam af honum fjölkynngi svo hann vissi ekki enda varð hún honum bezt að liði og þar næst Brynhildur seinni kona hans. Guðrún var gift löngu áður en þetta gerðist sem nú skal segja, en hvort þau maður hennar bjuggu í Stagley eða Kiðey er óvíst,[1] en sagt er að Guðrún væri kölluð af sumum Stagleyjar-Gunna, en af öðrum Kiðeyjar-Gunna. Þau Guðrún áttu nokkur börn þegar hér var komið og eru tvö af þeim nefnd, Jón og Sigrún.

Það var einn sunnudag þegar Guðrún sat inni að Sigrúnu sýndist svartur flóki líða yfir móður sína. Ærðist Gunna þegar og hljóp út og segja sumir að hún steypti sér í sjó fram af hömrum, en aðrir segja að hún fyndist skorin á háls í fjörunni. Menn úr næstu eyjum fundu börnin grátandi í bænum og sögðu þeir Þormóði til. Kom hann og vistaði niður börnin, en tók tvö sjálfur. Ekki þótti mönnum einleikið um ófarir Guðrúnar og héldu að það væri af völdum Hafnareyja-Gvendar sem síðar verður getið þó hann væri þá dauður, en aðrir eignuðu það Jóni frænda á Látrum, og það ætla menn að Þormóður hyggi hann að því valdan.

Litlu síðar urðu menn þess varir að Gunna gekk aftur enda var hún aldrei jörðuð; lík hennar fannst að vísu, en var tekið út þegar átti að bera hana heim. Fór Gunna þá til annara eyja, eyddi þar fénaði og drap, sótti að mönnum og kyrkti og drap með því einn mann í Bjarneyjum, en hann varð raunar bráðkvaddur. Eins villti hún fyrir skipum á sjó um ljósa daga. Var þá skorað á Þormóð að firra fólk þessum vandræðum; en svo mikil skapraun var honum að þessu að haft er eftir honum að aldrei þættist hann hafa verið jafnilla við kominn eins og að verða að fara þá för til afkvæmis síns sem gyldi sín að og annara illmenna. Fór hann þó og tókst erfiðlega við Gunnu, en þó gat hann markað henni svið; en engin kvik kind mátti koma nærri því sviði svo að hún meiddist ekki eða dræpist. Fór Þormóður þá enn til og setti Gunnu niður til fulls. Segja sumir að það hafi verið í Stagley, en aðrir í Kiðey syðri, og mun það réttara enda er þar kallað Gunnudys því menn segja að hana hafi rekið síðar af sjó og væri hún urðuð þar, en ekki færð til kirkju af því hún grandaði sér sjálf.

Það var engin furða þó Þormóður leitaðist við að hefna á Jóni frænda á Látrum þessara meingjörða enda tók hann það ráð að hann magnaði mórauða tófu (ref) til að drepa Jón og varð það með þeim atburðum sem hér segir: Eitt vor fór Jón frændi til siga með öðrum manni, sem Jón hét Þórðarson, á Jónsmessunótt; þar heitir Slakki í berginu sem þeir sigu. Jón frændi fór jafnan óbundinn í festinni og krosslagði aðeins hendur sínar á henni og lét höfuðið síga ofan á undan og þótti það fjölkynngisbragð hans og hann sjálfur hinn fimasti sigamaður; hann hafði lengi við þann starfa fengizt og þótti sér nálega ekkert ófært sökum fjölkynngis síns. En þegar hann var kominn ofan á Slakkhillu sá Jón Þórðarson að mórauð tófa kom innan með bjargbrúnum, þefaði af festinni og stakk sér síðan ofan fyrir bjargið. Jafnskjótt og lágfóta var komin ofan fann Jón Þórðarson að festin var með öllu laus, og gægðist fram af; sá hann þá að Jón frændi lá niður í urðinni og þóttist hann vita að Frændi væri dauður og fór við það heim af bjargi. Var svo róið eftir líki Jóns eftir lestur á Jónsmessu; var líkið allt eins og það væri slitið sundur, meir en marið, og eignað göldrum Þormóðar, að hann hefði hefnt með því Guðrúnar dóttur sinnar. Lík Jóns var flutt heim í lambhús og sagt var að vantaði í það hjartað. Reimt þótti í húsinu eftir. Þar heitir síðan Jónshald er hann hrapaði.

Þegar þetta varð tíðinda er sagt að Ólafur Árnason hafi nýtekið við Barðastrandarsýslu (1737-52) og er það eftir honum haft þegar hann skrifaði upp bú Jóns að oft hefði hann galdur séð, en aldrei annan eins djöful, og skyldi hann hafa látið brenna lík hans ef ógrafið hefði verið. Galdraskræður Jóns voru brenndar í Melaskarði við Látralæk; en Ólafur tók þó af þeim kver eitt og stakk hjá sér.

  1. Eins mikil óvissa er um það hvort maður Gunnu hét Oddur eða Jón Guðmundsson eins og um bústaðinn. Gísli [Konráðsson] getur sér til að Gunna hafi verið tvígift, átt fyrst Odd sem drukknaði við Stagley, en eftir það byggi hún í Kiðey, fyrst með Jóni seinni manni sínum og síðan ekkja með börnum sínum þegar hér var komið.