Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Þormóður í Vaðstakksey

Þormóður bjó fyrir víst þrjú ár í Vaðstakksey hjá Stykkishólmi áður en hann flutti í Gvendareyjar, og farnaðist þar að sumu leyti vel sem hann kvað:

„Vetur þrjá í Vaðstakksey
var ég með gleði og yndi,
sviptur þrá á Sviðris mey,
síðan má hún [aðrir: ég] heita grey."

Vaðstakksey er sagt að hafi ekki byggzt síðan.

Einu sinni meðan Þorvarður var í Vaðstakksey lá kona hans á sæng um vetrartíma; gat þá Þormóður ekki kveikt fyrir ljósmatarleysi, en honum leiddist myrkrið og kvað:

„Mína Jesú mýk þú raun,
mæni ég til þín hjálpin væn;
þína send mér bjargarbaun,
bænheyr, lífsins eikin græn."

Eftir það gekk Þormóður út og ofan til sjávar og fann þar nýrekinn sel dauðan og hagnýtti sér hann til ljósa.

Ekki vita menn með vissu hvað Þormóði gengi til að fara úr Vaðstakksey, en þó ætla menn að hafi helzt verið draugagangur og aðsóknir sem hann átti þar við að eiga bæði á sjó og í eynni.

Einu sinni fór hann á báti í næstu ey og þegar hann kom út á sundið gekk báturinn ekki undir honum þó hann þættist róa rösklega. Fór hann þá að svipast um og sá að sinn púki hélt í hvorn stafn á bátnum. Hann gerði sér þá lítið fyrir og innbyrti báða, lét þá svo róa með sig þangað sem hann ætlaði og sleppti þeim þar.

Öðru sinni er sagt að honum hafi verið sendir sjö draugar í einu út í Vaðstakksey; lét hann þá setjast fyrst inn í skála á rúmin þar, en síðan þegar hann var búinn að skemmta sér þar við þá um stund, flutti hann þá úr eynni í land, lét þá róa undir sér sjálfa og setti þá svo niður á landi. Þó flutti Þormóður ekki alla þá drauga til lands sem honum voru sendir út í Vaðstakksey, heldur setti hann þá suma niður eða kvað þá niður úti í eynni; því heitir þar síðan Draugabæli.