Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Af Þorleifi og Skúla Magnússyni

Þorleifur Skaftason var maður alltryggur og bjargvættur mikill þeim mönnum er hann vildi vel; varð og flest undan honum að láta er hann var í reiðum hug. Var hann og margvís og djúpsær. Á hans dögum sat á Stóruökrum í Skagafirði sem héraðsdómari Skúli Magnúsarson. Hafði hann tekið til fanga og sett í járn menn tvo fyrir stuld; það voru skólasveinar og mjög náskyldir Þorleifi presti. Þeir hétu Skafti og Illugi. Þorleifur prestur gegnumsá af vitru sinni hversu komið var. Tók hann sér ferð á hendur og reið sem sagt er á þrim dægrum frá Múla vestur að Ökrum og kom þar síðla dags og drap [á] dyri allmikið. Griðkona ein gekk til dyra og kvaddi prestur hana og spyr hvert fanturinn Skúli Magnúsarson sé heima og bað segja honum að hann láti strax af hendi herfang sitt eður þoli ofríki hvert að víkingalögum. Griðka fer og segir Skúla og það með að tröllkarl nokkur standi fyrir dyrum úti og láti ófriðliga. Skúli þóttist vita hver vera mundi og bað engan mann út ganga, en leysti fljótlega fangana og sendi presti út, sæmda gjöfum, og komust þeir ei undir dóm. Prestur reið í burt og fundust þeir Skúli ei, og varð ei af eftirmálum.