Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Hrafnamál
Hrafnamál
Það var sögn manna í þann tíma að síra Þorleifur mundi skilja hrafnamál. Drógu menn það af ýmsum líkum, og víst er það að hann hefur ritað bækling einn lítinn sem nokkurs konar leiðarvísir að taka til greinar aðferð, misflug og tilbreyting á krasmáli hrafna. Þann ritling mun nú vart að finna. – Síra Þorleifur tók nú fast að eldast.
Það var einn dag á hausti að síra Þorleifur bjóst að ríða heiman frá Múla niður til Húsavíkurkaupstaðar og verkmaður einn með honum. Þeir höfðu hesta tvo með reiðingi og böggum á og vildu þeir heim að kvöldi. Vegurinn er langur, en allgóður víðast og fljótfarinn. Torfærur eru engar á leið utan svokallaður Mýrarlækur sem fellur úr flóa nokkrum í Laxá og liggur á sandi, dreifður mjög grunnt þar hann kemur í ána. Síra Þorleifur reið úr garði snemma morguns og fylgdarmaður hans, og meðan þeir lásu ferðabæn sína flaug hrafn yfir höfuð presti og skrækti mjög. Prestur leit við hrafninum og mælti svo samferðamaður heyrði: „Þetta lýgur þú bölvaður þjófurinn, ekki verður þetta.“ En þá þeir höfðu lokið bæn sinni spyr samferðamaður prest hvað krummi hefði skrækt. Prestur unni manninum sem dánumanni og sagði: „Svo kvað krummi: Þú prestur skalt að aftni liggja dauður í Mýrarlæk og ég skal út kroppa augu þín.“ Prestur kvað þetta markleysu eina og kjaftaflapur krumma, og trúði samferðamaður því. Þeir riðu í kaupstaðinn og bjuggust heim í veg að áliðnum degi. Veður þykknaði mjög er að kvöldi leið og er kvöldaði voru þeir mjög á leið komnir upp með Laxá. Þá mælti prestur við förunaut sinn: „Ég vil senda þig hér á bæi tvo undir hlíðinni að erindum mínum, en ég mun láta hestana setja á meðan upp með ánni, og skaltu svo ríða sniðhallt í veg fyrir mig að ei verði nein bið.“ Maðurinn gjörir sem boðið var og skilja þeir. Maðurinn lýkur erindi prests og ríður sniðhalla leið eftir sem hann meinti að prestur mundi á leið kominn. Mætir hann þá hestunum á veginum er vildu heim, en prestur var ei með. Ríður þá maðurinn til baka niður með ánni þar til hann kemur að Mýrarlæk. Stendur þar þá hestur prests, en hann sjálfur liggur í lækjarósnum upp í loft og flýtur ekki vatnið yfir andlit honum. Prestur var örendur og sat hrafn á höfði honum og hafði kroppað út annað augað. Þótti mönnum þessum atburðum sæta mikil firn og varð prestur mjög harmdauður mörgum manni, og ætluðu menn hann mundi af hestinum hafa dauður fallið á ákvörðuðum punkti forlaganna. Þetta var árið 1747.