Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Af föður Guðmundar Bergþórssonar
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Af föður Guðmundar Bergþórssonar
Af föður Guðmundar Bergþórssonar
Bergþór faðir Guðmundar skálds var kraftaskáld. Hann stundaði fiskiveiðar og var góður formaður. Einu sinni þegar hann var á sjó kom óveður og fekk hann mikið sjóvolk, missti bæði stýrið og stjórann, en komst þó til lands um síðir. Hann fekk fjóra í hlut og bar þá frá skipi. Þá mætti honum maður sá sem Einar hét. Hann var kraftaskáld og enginn vin Bergþórs. Hann kvað:
- Bölvaður farðu, Bergþór minn, sem berð nú fjóra,
- misst hefir bæði stýri og stjóra
- og stelpan þín er orðin hóra.
Bergþóri gramdist og kvað hann þetta aftur:
- Hati þig allt hvað hefir nafn,
- hati þig grös og steinar,
- hati þig engla heilagt safn,
- og hati þig drottinn, Einar.
Báðir þóttu verða lánlitlir upp frá þessu og þó Einar meir.