Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Dauði Jóns á Hellu
Dauði Jóns á Hellu
Það var einhverju sinni um vorið að flökkudrengur nokkur kom að Skógum og beiddi Jón bónda viðtöku næsta ár. Þá var hart manna á milli og óhægt til vista. Jón bóndi lézt mundi veita honum viðtöku ef hann fyrst færi sendiför nokkra fyrir sig. Drengur lézt þess albúinn. Fær Jón bóndi þá drengnum flösku og segir honum að hann skuli fara með hana út á túngarðinn á Hellu og skilja hana þar eftir. En áður en hann skilji við flöskuna segir Jón drengnum að hann skuli taka af henni yfirbindinguna og úr henni tappann; síðan skuli hann snúa stútnum heim að bænum, en varast sem mest að ganga fyrir flöskustútinn eður snúa honum að andliti sér. Síðan skuli hann halda sem hraðast til baka aftur. Drengur fer að öllu sem fyrir hann er lagt og skilur hann flöskuna eftir á túngarðinum á Hellu. Þetta var að áliðnum degi og segja sumir menn að Jón bóndi á Hellu sæti á steini sem var á hlaðinu á Hellu og að flugan hafi komið þar að honum og strax farið ofan í hann, að upp úr honum hafi komið blóðgusa og hann hnigið síðan dauður niður af steininum.
En aðrir segja svo frá að það væri um kvöld sem drengurinn skildi flöskuna eftir á túngarðinum á Hellu. Jón bóndi var kominn inn og vóru komnir gestir hjá honum. Hann beiddi að taka úr skjágluggann svo kul kæmi í baðstofuna. En einn gesturinn gáði að því að þegar búið var að taka skjáinn úr kom fluga í baðstofuna, og í sama bili setti hóstakjölt að Jóni bónda; fór flugan um leið ofan í hann. Jón bóndi kallar upp um leið og segir: „Þar fór hann með mig og sækið þið mér prest.“ Var prestur sóttur sem skjótast og er þess ekki getið hvert Jón náði prestsfundi eður ekki.
En frá Jóni bónda Illugasyni er það að segja að þetta sama kvöld sat hann á rúmi sínu og horfði um stund í gaupnir sér. Segir hann þá upp úr þögninni: „Já, gjörið þið það, sækið þið honum prest.“ Það var löngu seinna að einhvör hafði orðið til að brigzla Jóni bónda Illugasyni um það að hann hefði orðið banamaður Jóns frá Hellu og að hann hefði með því fyrirgjört sinni eilífu velferð. Er þá sagt að Jón bóndi kvæði stöku þessa: