Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Flugan (2)
Það var einhverju sinni að Skógum um veturinn að Jón bóndi sat í baðstofu og vann að tóskap. Honum var heitt og lét hann taka úr skjágluggann svo kul kæmi í baðstofu. En að lítilli stundu liðinni kemur fluga inn um gluggagatið og sveimar innan um baðstofuna og þó mest í kringum Jón bónda. Hann lætur sér ekki bilt við verða; tekur hann flösku undan höfðalagi sínu og heldur stútnum að flugunni. Flugan forðast lengi flöskuna. En þó fór svo að lyktum að Jón kemur flugunni í flöskuna og rekur hann tappann sem skjótast í hana og bindur fyrir ofan með kapalskæni. Síðan ber hann flöskuna fram í kistu sína og ræðir ekki um við nokkurn mann. Líður svo fram á vor.