Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Einar seiðir að sér hval
Einar seiðir að sér hval
Það var eitt sinn þá hart var í ári að prestur vildi seiða hval að sér á Skinnastaðareka, en kirkjan á jörð þá er Akur heitir, fimm hundruð að dýrleika, og þriðjung sjóarlands með rekum og ítökum. En er prestur kom á rekalandið tók hann það ráð að hann lét grafa sig í sand niður við sjó og hafði þar hjá sér Þórarin son sinn að gæta þess ef hann sæi skýja nokkuð til hafsins því veður var heiðríkt. Prestur starfaði að fjölkynngissæringum niður í sandgröfinni um hríð, en Þórarinn gætti veðrabrigða. Að lyktum sá hann að syrti til hafs og segir föður sínum. Lét prestur þá nokkurs af von og gól enn ákafar galdrana. Því næst dró ský upp í hafi og bakka mikinn; rak þegar á æsings norðanveður með brimróti miklu. Kastaði þá hval miklum upp. Við það skreið prestur úr sandinum og bauð mönnum að skera hvalinn, lét til sín heim flytja og sjóða áður aðrir fengi neins af neytt. En prestur lét niðursetning sinn éta fyrsta bitann og datt hann dauður niður, át sjálfur síðan og sakaði ekki. Kvað hann þá öllum óhætt að neyta. Sakaði hann og öngan mann síðan. Er talið að mjög byrgi hann sveit sinni með hval þessum ókeypis.