Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Af Einari og Birni hinum vestfirzka

En fyrir því að mjög barst út fjölkynngi Einars prests og spurzt hafði það vestur í Arnarfjörð þá tóku Arnfirðingar eður aðrir Vestfirðingar ráð það að senda strák einn fjölkunnugan, er nokkrir nefna Björn, norður á Skinnastaði að vita hve Einar prestur væri máttigur. En engar sagnir fást um hvaðan helzt strákur sá væri að vestan. Kom hann á Skinnastaði norður; var þá Jón orðinn aðstoðarprestur föður síns.

Þeir feðgar þóttust vita hvurs örendis Björn fór, tóku vel við honum og settu inn í baðstofu. En er hann hafði dvalið þar tvær eður þrjár nætur og þótt heldur hnýsinn um hvað eina störfuðu þeir feðgar eitthvað út í kirkjugarði, en strákur sat á skák inn í baðstofu og sá að meystelpa allung sem vera mundi þriggja eða fjögra vetra kom inn og að honum. Spyr hann hvað hún vildi. Heyrðist honum hún stama því út: „Að drepa þig!“ Strákur skipaði henni með harðri hendi að fara í fjósið og drepa beztu kúna fyrir prestum og nautið; fór hún því fram. Strákur gekk í hámót á eftir henni, magnaði hana og bauð henni að drepa prestana. Hljóp hún fyrst á Jón prest og ætlaði að bana honum. Segja sumir að hann glennti þá greipar út og tæki ársham; var hann því greipaglennir kallaður; aðrir telja að hann jafnan glennti greipar síðan er hann blessaði. [Einar prestur kom að í því og þurftu þeir nú allt við að hafa að koma henni fyrir.] Er sagt að Einar prestur þættist aldrei í slíka raun komið sem yfirstíga stelpu þessa og setja niður.

Fór strákur þessi síðan frá Skinnastöðum er Björn er kallaður, kom í Klifshaga; bjó þar þá bóndi; leið ei langt áður hann kom sér vel við bónda, en lítill vin var bóndi sá Skinnastaðapresta. Kvartaði bóndi um það fyrir Birni að mjög missti hann kýr svo ærinn yrði það óhagnaður búi sínu. Réði Björn honum þá að kaupa tvennum verðum kvígu að Skinnastaðaprestum og varð bónda það að liði því þá aftók kúamissirinn. Það var annað að bóndi kvartaði yfir því að Skinnastaðaprestar vissi allt hvað um þá væri talað. Björn kvaðst skyldi kenna honum ráð það að aldrei skyldi um þá ræða öðruvísi en svo: „mennirnir undir brekkunni“ eða „mennirnir undir höfðanum“ – og segja menn að þá renndi þeir ei grunir í umtal um sig.

Enn er það sagt að Björn fengi dóttur bónda í Klifshaga, en ei um getið hvar hann bjó, og væri hinn sami bóndi er Einar prestur ætlaði að gefa eitur í kaleik því jafnan væri ærin óvild og hatur milli þeirra síðan Björn kom á Skinnastaði, og barst það svo að að mælt er að þá niður var kropið sá bóndi að prestur laumaði nokkru í kaleikinn. Fór Björn þá fram fyrir þann er næstur var, en fyrir því prestur mátti ei yfir hlaupa bergði hann þeim er innar var; er sagt sá hnigi dauður, en Björn sakaði eigi því galdraflugu hafði prestur ætlað honum og flaug hún ofan í þann er fyrri var bergt. – En þegar heim kom frá kirkju æpti barn bónda þegar til bana um nóttina. En er það var grafið fyrir tveim dögum var það kvöld ens þriðja dags að Björn var ærið ókátur. Húskarl hans spurði því hann væri svo hnugginn; því hann stundi við. Björn svarar: „Það er sótt verra; nú er Einar prestur að vekja upp lífsafkvæmi mitt.“ En að lítilli stundu liðinni gekk Björn með tálknsprota einn að kistu nokkurri og barði á henni með öllu afli. Furðaði menn það og ætluðu sumir hann æran; lét hann ei af barsmíð þeirri allt á miðnætti. En það fréttist frá Skinnastöðum að Einar prestur tók sótt æsilega hið sama kvöld og svo var hann hart leikinn að hann dó áður dagaði; var hann þá allgamall og almæli voru það að Björn bóndi yrði honum að fjörlesti.