Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Flóða-Labbi

Svo er sagt að í tíð séra Magnúsar á Hörgslandi bjó bóndi nokkur í Hvammi undir Eyjafjöllum sem ekki er nefndur; en þó er þess getið að hann hafi verið tveggja maki til karlmennsku. Bóndi þessi fór eitthvört sinn á fjöru og fann þá dauðan mann rekinn af sjó. Hinn dauði var í kjól og stígvélum og næsta skrautbúinn. Bóndi flutti líkið heim til sín og stóð fyrir greftrun þess að Holti því bóndi átti þangað kirkjusókn. Þetta var um vetur og var snjór og hjarn yfir alla jörð. Svo bar til eitt kvöld eftir að búið var að jarða hinn dauða að bóndi fór út í vökulok um það leyti sem konur fóru í fjós að mjólka. (Sumir menn segja að bóndi hefði ætlað að ná ábætir er gefa átti kúnum um mjaltirnar því áður hefði menn orðið þess varir að hinn sjórekni hafi ekki legið kyrr og því hafi menn forðazt að vera á ferli um nætur, en bóndi hafi ekki farið að því.) Bóndi kom ekki inn um nóttina, en að morgni var hans leitað; fannst þá traðk mikið fyrir sunnan bæinn. Markarfljót sem þá rann austur af Hvammsleiru var allagt með traustum ís, og lá traðkið suður yfir það, en þegar lengra kom suður eftir varð vart við blóðdropa í traðki þessu. Þetta traðk lá suður undir sjó og þar fannst bóndi dauður; var þá bóndi hryggbrotinn og nokkuð rifinn. Bóndi þessi var síðan jarðaður, og varð engum mein að honum. En hinn sjórekni maður var síðan bæði nótt og dag á gangi og þótti vera illur gestur þar sem hann hélt til; þótti engu lifandi óhætt fyrir honum og gjörði hann margt illt um Holtshverfið; festist þá við hann nafnið Flóða-Labbi. Nú með því að Markarfljót rann eins og fyrr er getið austur af Hvammsleiru og austur í Rimhúsál þá fóru allir ferðamenn austur úr Hvammsnúp sem er nokkurs konar einstígur. Í þessum stað hafðist Flóða-Labbi við í stíg þessum og glettist við þá sem þar fóru, setti yfir um á áburðarhestum og fleira; þótti þar ekki fært nema um bjartan dag og þó svo aðeins að margir væri saman, og þótti að þessu hið mesta mein.

Svo er sagt að presturinn í Holti sem átti jafnan frábæra reiðhesta að gangi og fimleik hafi eitthvört sinn riðið austur úr Núpnum og ætlað heim til sín; stóð þá hesturinn kyrr þar sem gatan er tæpust og vildi ekki áfram hvörnin sem prestur reyndi til að koma honum. Þetta leiddist presti og sló svipunni milli eyrnanna á hestinum; tók þá hesturinn það viðbragð að hann stökk í loft upp meir en mannhæð og stöðvaðist ekki fyrr en heim á hlaði í Holti; kvaðst prestur ætla að Flóða-Labbi hafi staðið í götunni þó hann sæi hann ekki, og hesturinn hefði stokkið yfir hann.

Um sumarið fóru menn að vanda til kaupstaðar og meðal annara Magnús prestur á Hörgslandi. Hann kom að Holti þegar hann fór út með Fjöllunum, en lestin hélt áfram. Þegar lestamenn prestsins komu út í Hvammsnúp var Flóða-Labbi þar fyrir og setti yfrum á öllum hestunum, og þegar þeir létu upp setti hann jafnótt ofan aftur; gekk þetta þar til prestur kom til þeirra. Bað hann þá menn sína láta upp klyfjarnar, kvað hann ekki mundi Flóða-Labbi steypa ofan meðan hann stæði hjá þeim. Þegar þeir höfðu látið upp bað prestur þá halda áfram til næsta áfangastaðar sem var þaðan skammt frá. Þar skyldu þeir bíða sín til hádegis næsta dag, en yrði hann þá ekki kominn, mundi ekki þurfa að vænta eftir sér framar. Síðan hélt lestin áfram, en prestur snerist að Flóða-Labba og bárust þeir þá á ýmsa vega niður í mýri þá er þar er skammt fyrir neðan og austan; segja sumir þeir hafi borizt fyrir við Desjarhól og taki hann þar af nafnið og heiti Dysjarhóll. Þar á móti segja aðrir að þeir hafi borizt fyrir við pytt einn djúpan í mýrinni. En hvörnin sem það er þá kom prestur fyrst til manna sinna í tjaldstað um dagmálabil daginn eftir og var hann þá mjög dasaður; sagði prestur sjálfur frá því að hann hefði átt mjög erfitt við Flóða-Labba og hefði mest ollað því að hann hafi verið skáld mikið og þegar prestur hafi verið búinn að kveða á tíu tungum sem hann hefði kunnað og Flóða-Labbi líka þá sagðist prestur þó ekki hafa kunnað það málið sem hinum var tamast, en þó hefði sér auðnazt að síðustu að bera hærri hlut, og þegar Flóða-Labbi hafi verið kominn svo langt niður að höfuðið var jafnt foldinni þá hafi hann beðið sig að stíga nú að skilnaði á höfuð sitt. Það sagðist hann hafa gjört, en brugðið um leið knífi á skóþvengina; hafi þá skilið svo með þeim að Flóða-Labbi hafi farið þar niður með skóinn fastan á höfðinu, en prestur hafi reynt til að ganga svo frá að hann kæmi ekki upp aftur. Enda varð aldrei vart við Flóða-Labba síðan.