Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Séra Magnús og séra Illugi (1)
Séra Magnús og séra Illugi
Svo er sagt að prestur sá hafi þjónað á Kirkjubæjarklaustri[1] sem Illugi hafi heitið; var hann kallaður fjölkunnugur og yfirhöfuð hafi hann verið mjög óvinsæll. Hann skal af einhvörjum atburðum hafa misst prestinn og hafi þá séra Magnús fengið brauðið og komizt í að bera síra Illuga út; hafi þá Illugi verið orðinn blindur og þegar hann hafi verið út borinn hafi hann hrækt í allar áttir um leið og hann fór út úr húsunum, en þá hafi Magnús prestur haft svarta vettlinga á höndum og þurrkað með þeim hrákana Illuga prests jafnóðum, en í bæjardyrakampinn hafi hrákinn lent inn í holu milli steina svo Magnús prestur náði þar ekki til að þurrka og hafi sá kampur litlu síðar hrunið niður. En þegar Illugi var út kominn skal hann hafa beðið síra Magnús að bera sig að skilnaði í kringum kirkjuna. Því skal Magnús prestur hafa tekið vel, en í þess stað hafi hann látið bera Illuga í kringum hjall sem Illugi átti og hafi þá hjallurinn sokkið.
Ekki er þess getið að þeir hafi átt fleira saman í það sinn. En Illugi skal hafa farið eitthvað langt burtu, en hafi jafnan síðan hatað séra Magnús og sent honum fjarska margar sendingar, en prestur hafi aldrei verið varbúinn við þeim. Loks er sagt að Magnús prestur hafi lagzt til svefns og sofnað, en kona hans hafi þá verið að skammta graut utar við dyr í sama húsi sem prestur svaf í; hafi hann þá vaknað við það að kona hans hafi sagt: „Harðar klaufir Illuga,“ og hafi hún þá dáið á sömu stund, en grár hrútur hafi gengið innar á mitt gólfið. Segir þá sagan að prestur hafi risið upp í flýtir og kveðið vísu þessa:
- „Stattu kyr á gólfi, grár,
- í guðs nafni ég særi þig.
- Hrærðu þig ekki, heljar ár,
- en herrann Jesús styrki mig.“
Svo er sagt að vísurnar hafi verið alls sex, en grái hrúturinn hafi verið fyrrnefndur Illugi afturgenginn og að aldrei hafi orðið vart við hann síðan.
- ↑ Magnús prestur kom næstur eftir Illuga að Kálfafelli á Síðu, en einn prestur var á milli þeirra á Kirkjubæjarklaustri, og gat vel verið að Illugi hefði verið þar karlægur er Magnús kom þar og orðið að bera hann út.