Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Fyrirburður Valda á Hellum
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Fyrirburður Valda á Hellum
Fyrirburður Valda á Hellum
Valdi sem áður er nefndur réri á Stokkseyri hjá þeim manni sem Jón hét og bjó á Gamlahrauni. Það skip drukknaði á Stokkseyrarsundi. Valdi hafði áður um veturinn sagt það fyrir að hann mundi drukkna um veturinn og það skip, því þegar hann eitt kvöld gekk austur götu fyrir neðan og austan Stokkseyri þá dagsett var og tungl óð í skýjum sá hann mannahóp koma móti sér. Þekkti hann þar formann sinn og alla háseta hans og sjálfan sig. Þeir voru naktir og héldu á höttum sínum. Valdi veik úr vegi fyrir þeim. Helga dóttir hans sagði að hún heyrði hann segja frá þessu og að hann taldi sér vísan dauða þann vetur.