Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Gníputótt
Kálfur prestur bjó á Tindum á Skarðsströnd (?). Hann var skólabróðir Sæmundar prests hins fróða úr Svartaskóla. Skrattinn þóttist eiga kröfu til Kálfs prests og reyndi oft að ná honum til sín. Á Tindum var tún mjög grýtt og seinunnið. Þar var tóttarbrot eitt í túninu er kölluð var Gníputótt; þar var ómögulegt að slá svo ljáfar að ekki kæmi í stein. Einhverju sinni sagði Kálfur prestur við skrattann að hann skyldi fá sig ef hann gæti slegið túnið á einni nóttu án þess að í stein kæmi. Skrattinn gekk að þessu og fór að slá. En Kálfur lét brýni liggja í Gníputótt; var ómögulegt að sjá það fyrir grasinu. Þegar Kálfur prestur kom á fætur um morguninn átti hinn eftir Gníputótt; þá spurði Kálfur hvers vegna hann væri ekki búinn með túnið. Skrattinn kastaði þá fram vísu þessari:
- Þó túnið sé á Tindum mjótt
- tefur það fyrir einum;
- grjót er nóg í Gníputótt,
- glymur járn í steinum.
Hafði hann rekið ljáinn í brýnið þar sem það lá í tóttinni og þess vegna varð hann af kaupinu.