Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Smaladrengurinn og Kálfur á Kálfsstöðum

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Smaladrengurinn og Kálfur á Kálfsstöðum

Hjá presti einum á Suðurlandi[1] var smaladrengur. Það var einu sinni að hann átti örðugt með að koma fénu heim að kvíunum; sluppu þær hvað eftir annað. Þar kom þá maður aðvífandi og hjálpaði drengnum að reka saman féð og kvía. Hann spurði hvernig vist væri hjá prestinum eða hvort hann væri ekki svangur hjá honum. Drengurinn tók lítið undir það. Maðurinn sagði hann skyldi vistast til sín að ári og koma til sín á sumardaginn fyrsta; væri miklu betri vist hjá sér. Drengurinn lofaði því. Um veturinn fór drengurinn að hugsa út í þetta; varð hann hugsjúkur og fór sem einförum. Prestur gekk á hann um þetta og spurði hvað olli. Drengurinn sagði sem var. Prestur sagðist ekki geta úr því ráðið (því maðurinn vökvaði drengnum blóð og ritaði drengur handskrift og fekk honum) handskriftarinnar vegna. „Verð ég að senda þig norður á Kálfsstaði til Kálfs Kálfssonar frænda míns og vita hvort hann sér ekkert ráð til þess að fría þig eður að ná handskriftinni.“ Drengurinn fór norður með bréf frá presti. En er Kálfur hafði lesið bréfið hló hann og mælti: „Vesælir gjörast nú prestar á Suðurlandi að geta ekki frelsað eins manns sál frá kvölum.“ Þar var drengurinn litla hríð. Eitt sinn fekk Kálfur drengnum rautt hnoða og bað hann fylgja því. Drengurinn elti hnoðað þar til hann nam staðar á hól einum. Þar var gluggi á hólnum og sá drengurinn allt athæfi tilvonandi húsbónda síns og hjúa hans. Varpaði hann þar inn hnoðanu, en þeir voru ekki seinir að leysa í sundur; tóku þar úr handskrift og var þeim þar í lofað Kálfi Kálfssyni frá Kálfsstöðum ef þeir gæfu drenginn kvittan, og skyldi hann koma í ákveðinn tíma. Þessu fögnuðu þeir og snöruðu út handskrift drengsins og umbúðum hinnar; hirti hann hvorutveggja. Dönsuðu þeir nú af kæti mikilli og sá hann hvar þeir buggu Kálfi rekkju og leizt miðlungi vel á. Fór hann nú heim kátur og glaðvær af lausn sinni. Þar hjá Kálfi var kvíga sem kelfzt hafði í kálfagarði og fengið fyri kálftapp; var hún á kálfabásnum. Drengurinn var nú hjá Kálfi það eftir var vetrarins. Á vetrardaginn seinasta bar kvígan. Kálfur hengdi nú kálfinn og lét í „hvítan vaðmálspoka“ og bað drenginn fylgja sér. Fóru þeir nú leið sína með kálfinn og að hólnum. Þetta var snemma um morguninn. Heyrðu þeir nú ófagra kæti í hólnum og var glugginn opinn. Kálfur gekk að glugganum og snaraði kálfinum inn og segir: „Þar hafið þér Kálf Kálfsson frá Kálfsstöðum.“ Þeim þókti ekki svo vingjarnlig sendingin sem þeir mundu æskt hafa, hentu kálfinum frá einum til annars og rifu hann sundur mélinu smærra. En þeir félagar sneru aftur leið sína. Var drengurinn hér eftir lengi hjá Kálfi og numdi margt af honum.

  1. Nokkrir kvað nefna Sæmund fróða í Odda, segir móðir mín mér. [Hdr.]