Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Hestastuldurinn (2)
Einhvern tíma var það að þrír strákar stálu hestum frá síra Eiríki. En þegar þeir voru komnir á bak hlupu hestarnir af stað með þá og stefndu heim að Vogsósum. Þeir vildu þá stöðva þá, en gátu það eigi. Vildu þeir þá fleygja sér af þeim, en þeir voru þá fastir. Einn af þeim tók það þá til bragðs að hann skar stykkið úr buxunum og losnaði með því móti. En hesturinn hljóp með bótina úr buxunum á bakinu og heim á Vogsósahlað; komu þá og hinir strákarnir ríðandi. Síra Eiríkur var úti staddur þegar þeir komu og spurði þá hvers erindis þeir kæmu, en þeir máttu til að segja eins og var. Prestur spurði hvar hinn þriðji væri, en þeir sögðu af hið ljósasta. Síra Eiríki þótti mikið í hann varið, tók hann til sín og kom honum til manns.