Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Smalastrákarnir
Einu sinni stálu tveir smalastrákar hestum Eiríks og riðu þeim. Þegar þeir ætluðu að sleppa hestunum og fara af baki voru þeir fastir á hestunum og gátu ekki hreyft sig, en hestarnir hlupu heim á leið að Vogsósum. „Þetta dugir ekki,“ segir annar strákurinn, „við verðum að losa okkur af hestunum því annars komumst við í höndurnar á honum séra Eiríki, en af því verðum við ekki öfundsverðir. Og um leið og hann sagði þetta tók hann hníf upp úr vasa sínum og skar stykkið úr buxunum sem fast var við hestinn; var hann þá laus og stökk af baki. En hinn smalinn vildi eða þorði ekki að skemma buxurnar sínar og sat kyr. Vildi þá hinn ekki yfirgefa hann og fór með honum heim að Vogsósum og teymdi hestinn með bótinni á bakinu. Eiríkur var úti; hann yrti fyr á strákana og segir: „Hvernig þykir ykkur að ríða Vogsósaklárunum, piltar?“ „Dágott,“ segir sá sem laus var, en hinn bar sig illa og bað Eirík að losa sig. Eiríkur spurði hvort honum fyndist hann vera nokkuð fastur. „Áðan fannst mér það,“ segir strákur hálfkjökrandi. „Reyndu þá nú,“ segir Eiríkur. Strákur gjörði það; var hann þá laus og fór af baki hið bráðasta. Þá var líka bótin laus á hinum hestinum. En svo líkaði Eiríki vel við þann strákinn sem skar heldur buxurnar sundur en sitja fastur að hann tók hann og kenndi honum.