Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Jón veiðir ref í boga

Sú er ein sögn frá Jóni að eitt sinn kæmi hann að bæ einum og beiddist næturgistingar. Sagði bóndi honum hana heimila og tepptist Jón þar einn eða fleiri daga vegna óveðurs. Bóndi kvartaði mjög um við Jón að refur biti mjög sauðfé sitt og nágranna sinna og þó við leitað væri að veiða hann ynnist hann ei.

Jón hvatti bónda enn til að halda áfram. Hinn færðist undan og kvað það mundi ekki vera til neins. Beiddi Jón hann þá að sýna sér bogann. Bóndi gjörði svo. Veik Jón með bogann afsíðis þar sem ekki bar á, kom síðan með hann aftur og fleygði honum á eldhúsgólfið eftir að hann hafði spannað hann. Beiddi hann svo fólkið að forvitnast ekki um bogann það kveld, en sjálfur sat Jón einmana neðan undir baðstofupallinum þar sem dimmt var. Þegar leið á vökuna sagði Jón að bónda væri betra að vita um bogatetrið. Bóndi gjörði svo og var þá tóa komin í bogann. Fékk Jón lof fyrir þetta verk sitt.