Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Túnið ekkjunnar
Svo er sagt að í sömu sveit og Jón væri eitt sinn ekkja sem nýbúin var að missa mann sinn; átti hún fjölda barna, flest í ómegð, en hélt engin vinnuhjú. Komu nú fyrir heyannir og var ekkjan ekki farin að slá tún sín þegar aðrir voru búnir með þau og sumir að hirða af þeim líka.
Kom nú Jón til ekkju þessarrar; safnaði hann saman átta orfum og setti þau niður víðs vegar um túnið, tók síðan úr búrinu átta tuttugu marka fötur með skyri og setti sína hjá hverju orfi. Sjálfur var Jón á bænum um nóttina, en áður hann gengi til hvílu lokaði hann harðlega dyrunum og bað engan dirfast út að ganga þótt eitthvað heyrðist um nóttina.
Þegar menn voru háttaðir heyrðust miklar dunur og dynkir sem allt mundi umhverfast. Lauk Jón upp fyrstur um morguninn. Var þá túnið allt upp slegið, en þeir sem að því unnu voru allir á burtu. Á Jón þá að hafa sagt sér þækti verst ef drengjakindurnar hefðu farið í burtu svangir, því uppi var úr skyrkirnunum.