Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Ljóstollurinn
Á Nesi í Selvogi bjó bóndi Bárður Guttormsson og Guðrún Illugadóttir kona hans sem kölluð voru væn hjón. Þau áttu mörg efnileg börn og menntuðu foreldrarnir þau vel; þar á meðal áttu þau einn son sem komst í skóla, en andaðist sextán ára. Guðrún átti bróðir, Bjarna að nafni, sem fluttist vestur á Keifarnes[1] sem liggur upp og norður af Snæfellsnesi. Bjarni gjörir eitt sinn systur sinni boð að finna sig, en henni þókti leiðin löng og örðug, en vildi þó fullnægja vilja bróður síns og tók þessa ferð á hendur með manni sínum til hans, en fengu örðuga og stranga ferð, en að lokunum komust þau þó til hans. Meðan þau voru hjá Bjarna varð hún léttari og fæddi meybarn og var það nefnt Dýrfinna. Bróður hennar bauð að taka barnið af henni til uppfósturs og þáði hún það. Síðan fóru þau aftur heim og smám saman fóru börn þeirra að tvístrast frá þeim og giftast eftir því sem forlögin hefðu fleytt þeim. Loksins dó kona Bárðar bónda, Guðrún, og gjörir hann þá boð Dýrfinnu dóttur sinni á Keifarnesi og biður hana koma til sín og segir að það sé náttúrlegast, enda þótt hann hafi ekkert fyrir henni haft, að hún komi til sín og taki við búsumráðum með sér í stað sinnar sálugu móður. Hún fékk bréf hans og hafði engin mótmæli um að fara. En frá Breiðafirði hafði nokkru áður flutzt að Keifarnesi ungur maður nokkur ókenndur sem kallaði sig Böðvar Baldvinsson. Hann sagðist danskur vera, en þegar við lá talaði hann annað tungumál sem enginn skildi. Hann var á aldur við Dýrfinnu og hafði þeim komið vel ásamt og vildi hann fyrir engan mun eftir verða þegar Dýrfinna fór og sagði hann henni að hann færi með henni og lét hún það eftir honum og fluttust þau því bæði að Nesi í Selvogi og tók hún við búsumráðum í stað móður sinnar og Böðvar varð þar líka. Það sáu menn skjótt að gott var milli þeirra; kom þar og að að Böðvar beiddi Dýrfinnu sér til handa og lét Bárður bóndi það eftir, þar hann áleit bezt mundi henta að lofa þeim að ráða í þeim sökum.
Um þetta leyti andaðist Bárður og tekur Böðvar við búsumráðum á Nesi með Dýrfinnu og giftust þau skömmu eftir að hann dó. Þegar þau giftust var síra Eiríkur nýkominn að Vogsósum og voru þau önnur hjónin sem hann gifti í sókn sinni. Um kvöldið eftir talar séra Eiríkur um við heimafólk sitt að undarlega komi sér Böðvar þessi fyrir sjónir, hverja raun sem hann gefi, en fólkinu þykir hann [líta] vel út því hann væri stilltur og fáskiptinn maður.
Nú líður nokkur tími þangað til Böðvar verður til altaris um haustið ásamt með konu sinni og fleira fólki, en þá var siður að skrifta einum hjónum í hvert skipti. Þegar Böðvar gengur í skriftastólinn með konu sinni þá leggur hann tvö kerti á altarið og segir: „Þetta á Vogsósakirkja.“ Sýndi hann sig við altarisgönguna siðprúðan og andaktugan. Síðan fer hann heim og líður nú fram á veturinn og fara menn að greiða ljóstolla sína, en Böðvar gjörir það ekki. Líður nú út veturinn og kemur Böðvar ekki með ljóstollinn, en um vorið kemur Böðvar til altaris og færir kirkjunni enn nú tvö hákerti. Prestur segir því hann gjaldi ekki ljóstollinn eins og aðrir, en Böðvar þykist ekki hafa haft meiri not af kirkjuljósunum en hann hafi til lagt. Síra Eiríkur segir það geti skeð að hann missi meira ef hann tregðist við að borga ljóstollinn, en Böðvar kvaðst ekki vera hræddur um það.
Líður nú svo nokkur tími, en veturinn eftir vill síra Eiríkur gjöra húsvitjun að Nesi og heimsækja Böðvar. Hann fer af stað, en nær hann er kominn á miðja leið veit hann ei hvað hann fer og finnst honum hann vera í reyk. Þekkir hann sig ekki fyrr en hann kemur að Vogsósum aftur. Byrjar hann nú ferð sína í annað sinn og kemst þriðjung vegar. Í þriðja sinni vill hann enn til reyna og kemst hann þá út fyrir túnið og verður að hverfa heim við svo búið og er þess eigi getið að hann hafi farið húsvitjun að Nesi. Fer það svo fram að Böðvar geldur ekki ljóstoll í þrjú ár og er ekki sagt að síra Eiríkur hafi krafizt hans oftar.
Á byrjun fjórða ársins féll svo til að biskup kom og vísitéraði; hann kom að Vogsósum og tók prestur vel á móti honum. Hann spyr prest um hegðun í sveitinni, hvernig fólkið breyti við hann og prestur við það og hvort það standi riktuglega í skilum. Prestur ber fólki sínu mikið gott, en segir það sé einn bóndi sem ekki gjaldi sér ljóstoll og hafi ekki gjört það í þrjú ár. Biskup segir það sé slæmt og sé bezt að gjöra manninum heimreið. Prestur segist ekki vita hvernig það lukkist. Verður eigi meira umtal um þetta um kvöldið. Sezt prestur í skrifsæti sitt; borð var fyrir framan hann sem pappírar hans á lágu; sáu menn að prestur hafði sofnað aftur á bak í sætinu. Sáu menn gjörla að hann hélt á ljóstolli og tveir voru á borðinu fyrir framan hann. Kona nokkur er um gekk vildi vekja prest, en er hann vaknaði fann hann að hann var fastur við sætið og ljóstollurinn fastur við hann svo hann mátti eigi upp standa og ekki hreyfa sig. Leitast hann við á allar síður og gat ekki laus orðið eða upp staðið. Sér hann að þetta muni ekki duga; kallar hann því til sín pilt nokkurn er Guðbrandur hét, og bað hann að bregðast við og fara að Nesi og finna Böðvar og biðja hann finna sig. Guðbrandur fer á stað og kemst tálmunarlaust að Nesi; hann finnur einhvern mann úti og biður hann að skila til Böðvars að hann vilji finna hann, og var hann þá í rúmi sínu. Hann biður pilt að koma inn og tekur honum mikið vel og heilsun prestsins glaðlega. Pilturinn segir að síra Eiríkur vilji finna hann sem fljótast. Böðvar tekur því vel og segist ekki hafa hest heima hjá sér og segist taka hans hest og reiða hann á baki sínu. Fer hann nú strax með piltinum heim til Vogsósa. Hann gengur inn þangað sem prestur situr á stólnum. Hann heilsar presti og segir honum muni óhægt vera; tekur hann nú þegar ljóstollinn af knjám hans og verður hann þegar laus; setur ljóstollinn á borðið. „Nú þykist ég hafa lokið ljóstolla mína,“ segir Böðvar. Prestur segir það satt vera. „Nú skaltu,“ segir Böðvar, „skoða þann ljóstoll sem þú undir sazt og hamlaði þér upp að standa. Lít nú á stafi þessa og ollu þeir því að þú tafðist svo lengi á stólnum.“ „Barnið mitt, ég þekki þá ekki,“ mælti prestur. Böðvar mælti: „Þetta er finnskt letur því faðir minn var finnskur að ættum. Nefndi hann það Finnalappaletur; kenndi hann mér tólf stafrof til útþýðingar á þessu letri og sagði mér að brúka einu sinni ef á lægi, en oftar ekki.“ Prestur mælti: „Eigi kann ég utan níu og er mikill munur okkar.“ Böðvar mælti: „Bezt þækti mér að við færum ekki lengra áfram, heldur sættumst, því ég er þunglyndur ef mér illa líkar.“ Prestur kvað sér það vel líka og kvaðst ekki vilja etja kappi við sér meiri mann. Sömdu þeir með sér og bundu kæra vináttu og staðfestu sín á milli og er þess ekki getið að Böðvar hafi tregðazt við að gjalda ljóstollinn eða aðrar skyldur upp frá því.
- ↑ Á e. t. v. að vera Kneifarnes, sbr. Bárðarsögu Snæfellsáss.