Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Rauða peysan
Kona nokkur á Vestfjörðum sendi séra Eireki eitt sinn rauða millifatapeysu og mælti svo fyrir að hann væri í henni þá hann riði til Krýsivíkur að messa. Hann gjörði svo og ríður með öðrum manni þangað næsta sunnudag er honum bar. En þá þeir koma á Víðasand tók peysan að herðast að presti og kom svo að hann mátti ei mæla. Hann benti förunaut sínum og þreifar um sig, en hann grunaði hvurju gegndi, og risti af honum peysuna. Prestur hresstist brátt eftir það og mælti: „Ég varaði mig ekki á þessu heillin góð, því ég hafði gjört henni gott.“
Næsta vetur eftir var það eina nótt er bylur var mikill að barið var á dyr á Vogsósum. Fólk var í rekkjum. Prestur kvaðst skyldi út ganga. Hann klæðist og ekki fljótlega því margt varð honum til tafar. Um síðir fer hann út og sér þá kunnkonu sína komna þá er honum sendi peysuna. Hún var í skyrtu og nærfati og hélt á næturgagni sínu í hendi og var nær dauða en lífi af kulda. Hún heilsar presti og bað gistingar. Hann játar því og fer hún inn með honum. Hann spyr hvurnig á ferð hennar standi. Hún svarar: „Ég fór út í gærkvöld að hella úr koppnum mínum hálfháttuð, en bylurinn var svo svartur að ég fann ekki bæinn aftur og hefi verið að villast síðan.“ Eirekur mælti. „Vel á minnzt, ég þakka þér fyrir sendinguna, heillin góð, en ver gjörðirðu en ég átti skilið og hefir þú nú fengið það borgað, því ég olli hingaðkomu þinni og máttu vita að það er ekki gott að glettast við Eirek á Vogsósum.“ Hún auðmýkti sig og bað forláts og lofaði að áreita hann ekki framar. Sættust þau svo og fór hún vestur þegar hún var búin að hressast og taka sig aftur.