Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Villur biskups
Villur biskups
Guðbjartur prestur flóki í Laufási var mestur kunnáttumaður á sinni tíð, en gjörði engum mein með kunnáttu sinni því hann var góðmenni mikið. Þó ýfðist Hólabiskup við hann sökum galdraorðs þess er lagðist á hann og ætlaði sér að setja hann af embætti. Fór hann að heiman í því skyni með nokkra presta og sveina, en þegar þeir voru komnir skammt að heiman villtust þeir og vissu ekki hvar þeir fóru; könnuðust þeir ekki við sig fyrr en þeir voru komnir aftur heim að Hólum og gengnir til stofu. Biskup réði samt til ferðar í annað sinn; komst hann þá og menn hans norður á Hjaltadalsheiði; gjörði þar að þeim fjúk með stríðviðri og gaddi; þó var ratljóst. Varð þá öllum þeim er í ferðinni voru snögglega mál að bjarga brókum sínum; en þegar þeir ætluðu að standa upp aftur gátu þeir það ekki; lá þeim brátt við kali og sáu sér loks ekki annan kost en að heita því fyrir sér til lausnar sér að snúa heim aftur, og urðu þeir þá lausir og snéru heim aftur. Ekki var laust við að menn gjörðu gaman að ferðum biskups, en það henti séra Guðbjartur aldrei; kvaðst hann ætla að biskup hefði ekki ætlað að finna sig, því til þess hefði hann ekki þurft að hafa fjölmenni.