Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Frá Jóni Eyfirðingi

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Frá Jóni Eyfirðingi

Einu sinni var maður í Eyjafirði er hét Jón; hann vildi giftast, en fekk enga nærri sér. Var honum því ráðlagt að fara lengra burt og fór [hann] norður í Axarfjörð, hitti þar bónda og bað hann leyfis að mega tala við dóttur hans sem hann fekk; ber síðan upp bónorðið. Hún segir: „Því ferðu hingað eða því hefurðu beðið engrar nær þér?“ Þá segir hann: „Minnstu ekki á það, blessuð! Það vill engin eiga mig sem þekkir mig eða veit hvernig ég er.“ Hún segir: „Segirðu þetta satt um sjálfan þig?“ „Já, það segja allir menn sem von er til.“ Þá gegnir hún: „Svo vil ég þig ekki heldur, því þú munt vera bæði vondur og vitlítill.“ Svo hann fór burtu með svo búið og fekk aldrei konu.

Einu sinni þegar kall þessi var í kirkju var prestur að yfirheyra börn og gekk þeim illa að svara honum. Þá segir Jón hálflágt: „Mikið er að börnin skulu ekki geta svarað prestinum.“ Prestur heyrði þetta og segir: „Þú mátt, Jón, helzt tala svo, sem ekki veizt hver hefir skapað þig.“ „Það atla ég muni vita það.“ „Hver hefir þá gert það?“ segir prestur. Kall [segir]: „Ég man það ekki í þetta sinn.“ „Láttu ekki þetta heyrast sem kallaður er kristinn.“ Þá hvíslar drengur er hjá Jóni sat: „Segðu guð hafi gjört það.“ Þá stendur kall upp og segir: „Nú, guð gjörði það.“ Prestur: „Það lá að þú mundir ranka við þér.“ „Hann Guðmundur sagði mér það,“ segir Jón.