Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Hver rífur svo langan fisk úr roði?

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1864) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
„Hver rífur svo langan fisk úr roði?“

Einu sinni voru hjón á bæ mjög aðsjál og urðu þó að halda vinnufólk nokkurt. Þeim blæddi í augum hversu mikið fólkið borðaði og þó helzt bóndanum, einkum um miðjan daginn, enda var bóndinn vanur að taka til fisk handa því til miðdegisverðar. En málamatinn skammtaði konan og fékkst minna um hann en bóndi um fiskætið, enda er það sumra manna sögn að hún væri vinnufólkinu hliðhollari en bóndi hennar. Til þess að losa sig við þá hörmung að þurfa að taka fiskinn til handa fólkinu daglega eða fyrir vikuna tók bóndi upp á því að vega því út í einu fisk fyrir allt árið. En með því honum ofbauð hvað til þess þurfti lét hann vanta til fyrir einn dag. Nú afhendir hann hverjum fiskætið og segir konu sinni frá að hann hafi látið vanta upp á fiskinn fyrir einn dag og segist hann þá ætla að látast deyja um þær mundir og liggja á börunum þenna seinasta dag af útvigtartímanum og muni þá fólkið fyrir hryggðar sakir gleyma að borða þann daginn. Nú líða tímar fram og þegar hinn ákveðni tími kemur læzt bóndi deyja og er hann lagður til á fjöl, sumir segja inni í baðstofu, en aðrir úti í skemmu. Ekki er þess getið hvað hið annað vinnufólkið hafi til bragðs tekið um át þann daginn, en þegar smalinn kemur heim og ætlar að fara að snarka fiskbitann sinn sér hann að útvigtin er þrotin. Hleypur hann þá út úr baðstofunni fram í bæ til konunnar og segist vera búinn með útvigtina sína. Konan kvaðst nú hafa annað að hugsa en standa honum fyrir beina þar sem maðurinn sinn lægi á börunum. Smalinn sagði: „Ég vil allt að einu hafa mat minn, en engar refjar.“ Konan segir hann skuli þá fara út í skemmu og fá sér fisksnarl. Smali gerir svo, tekur þar löngu eða reginþorsk, sezt með hana inn á rúm andspænis líkinu og rífur þar úr allan hnakkann eftir endilöngum fiskinum í einni rifu. Bóndi heyrir þetta, rís upp undir blæjunni við dogg og segir: „Hver rífur svo langan fisk úr roði?“ Smali hélt að bóndi væri afturgenginn og rekur því sjálfskeiðinginn á hol í hann. Eftir það blæddu bónda aldrei í augum löngu fiskrifurnar því hann þurfti ekki meira.