Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/105

Síðan greiða konungar atróður. Lagði Sveinn konungur sitt skip móti Orminum langa en Ólafur konungur sænski lagði út frá og stakk stöfnum að ysta skipi Ólafs konungs Tryggvasonar en öðrum megin Eiríkur jarl. Tókst þar þá hörð orusta. Sigvaldi jarl lét skotta við sín skip og lagði ekki til orustu.

Svo segir Skúli Þorsteinsson, hann var þá með Eiríki jarli:

Fylgdi eg Frísa dólgi
fékk eg ungr, þar er spjör sungu,
nú finnr öld, að eg eldumst,
aldrbót, og Sigvalda,
þar er til móts við mæti
málmþings í dyn hjálma
suðr fyr Svöldrar mynni
sárlauk roðinn bárum.

Og enn segir hér frá þessum tíðindum Hallfreður:

Þar hykk víst til mjög misstu,
mörg kom drótt á flótta,
gram þann er gunni framdi,
gengis þrænskra drengja.
Næfr vó einn við jöfra
allvaldr tvo snjalla,
frægr er til slíks að segja
siðr, og jarl hinn þriðja.