Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/106
Höfundur: Snorri Sturluson
106. Flótti Sveins konungs og Ólafs konungs
Þessi orusta var hin snarpasta og allmannskæð. Frambyggjar á Orminum langa og Orminum skamma og Trananum færðu akkeri og stafnljá í skip Sveins konungs en áttu vopnin að bera á þá niður undir fætur sér. Hruðu þeir öll þau skip er þeir fengu haldið en konungurinn Sveinn og það lið er undan komst flýði á önnur skip og því næst lögðu þeir frá úr skotmáli og fór þessi her svo sem gat Ólafur konungur Tryggvason.
Þá lagði þar að í staðinn Ólafur Svíakonungur og þegar er þeir komu nær stórskipum þá fór þeim sem hinum, að þeir létu lið mikið og sum skip sín og lögðu frá við svo búið.
En Eiríkur jarl síbyrti Barðanum við hið ysta skip Ólafs konungs og hrauð það og hjó þegar það úr tengslum en lagði þá að því er þar var næst og barðist til þess er það var hroðið. Tók þá liðið að hlaupa af hinum smærrum skipunum og upp á stórskipin en jarl hjó hvert úr tengslunum svo sem hroðið var. En Danir og Svíar lögðu þá í skotmál og öllum megin að skipum Ólafs konungs. En Eiríkur jarl lá ávallt síbyrt við skipin og átti höggorustu en svo sem menn féllu á skipum hans þá gengu aðrir upp í staðinn, Danir og Svíar.
Svo segir Halldór:
- Gerðist snarpra sverða,
- slitu drengir frið, lengi,
- þar er gullin spjör gullu,
- gangr um Orm hinn langa.
- Dólgs kváðu fram fylgja
- fráns leggbita hánum
- sænska menn að sennu
- sunnr og danska runna.
Þá var orusta hin snarpasta og féll þá mjög liðið og kom svo að lyktum að öll voru hroðin skip Ólafs konungs nema Ormurinn langi. Var þar þá allt lið á komið, það er vígt var hans manna. Þá lagði Eiríkur jarl Barðann að Orminum síbyrt og var þar höggorusta.
Svo segir Halldór:
- Fjörð kom heldr í harða,
- hnitu reyr saman dreyra,
- tungl skárust þá tingla
- tangar, Ormr hinn langi,
- þá er borðmikinn Barða
- brynflagðs reginn lagði,
- jarl vann hjálms að hólmi
- hríð, við Fáfnis síðu.