Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/107
Eiríkur jarl var í fyrirrúmi á skipi sínu og var þar fylkt með skjaldborg. Var þá bæði þar höggorusta og spjótum lagt og kastað öllu því er til vopna var en sumir skutu bogaskoti eða handskoti. Var þá svo mikill vopnaburður á Orminn að varla mátti hlífum fyrir sig koma er svo þykkt flugu spjót og örvar því að öllum megin lögðu herskip að Orminum. En menn Ólafs konungs voru þá svo óðir að þeir hljópu upp á borðin til þess að ná með sverðshöggum að drepa fólkið en margir lögðu eigi svo undir Orminn að þeir vildu í höggorustu vera. En Ólafs menn gengu flestir út af borðunum og gáðu eigi annars en þeir berðust á sléttum velli og sukku niður með vopnum sínum.
Svo segir Hallfreður:
- Sukku niðr af naðri,
- naddfárs í böð sárir,
- baugs, gerðut við vægjast,
- verkendr meginserkjar.
- Vanr mun Ormr, þótt Ormi
- alldýr konungr stýri,
- hvars hann skríðr með lið lýða,
- lengi slíkra drengja.