Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/110

Heimskringla - Ólafs saga Tryggvasonar
Höfundur: Snorri Sturluson
110. Uppganga á Orminn

Mest var vörnin á Orminum og mannskæðust af fyrirrúmsmönnum og stafnbúum. Þar var hvorttveggja mest valið mannfólkið og hæst borðin. En er lið féll fyrst um mitt skipið og þá er fátt stóð upp mannanna um sigluskeiðið þá réð Eiríkur jarl til uppgöngu og kom upp á Orminn með fimmtánda mann. Þá kom í móti honum Hyrningur mágur Ólafs konungs með sveit manna og varð þar hinn harðasti bardagi og lauk svo að jarl hrökk ofan aftur á Barðann en þeir menn er honum höfðu fylgt féllu sumir en sumir voru særðir.

Þess getur Þórður Kolbeinsson:

Þar var hjálmaðs herjar
Hropts við dreyrgar toptir
Orð fékk gott, er gerði
grams vör blám hjörvi,
höll bilar hárra fjalla,
Hyrningr, áðr það fyrnist.

Þá varð enn hin snarpasta orusta og féllu þá margir menn á Orminum. En er þynntist skipan á Orminum til varnarinnar þá réð Eiríkur jarl annað sinn til uppgöngu á Orminn. Varð þá enn hörð viðtaka. En er þetta sáu stafnbúar á Orminum þá gengu þeir aftur á skipið og snúast til varnar móti jarli og veita harða viðurtöku. En fyrir því að þá var svo mjög fallið lið á Orminum að víða voru auð borðin, tóku þá jarlsmenn víða upp að ganga. En allt það lið er þá stóð upp til varnar á Orminum sótti aftur á skipið þar til sem konungur var.

Svo segir Halldór ókristni að Eiríkur jarl eggjaði þá sína menn:

Hét á heiftar nýta
hugreifr, með Óleifi
aftr stökk þjóð um þóftur,
þengill sína drengi,
þá er hafvita höfðu
hallands um gram snjallan,
varð fyr Vinda myrði
vopneiðr, lokið skeiðum.