Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/111

Heimskringla - Ólafs saga Tryggvasonar
Höfundur: Snorri Sturluson
111. Hroðinn Ormurinn langi

Kolbjörn stallari gekk upp í lyfting til konungs. Þeir höfðu mjög líkan klæðabúnað og vopna. Var Kolbjörn og allra manna mestur og fríðastur. Var nú enn í fyrirrúminu hin snarpasta orusta. En fyrir þá sök að þá var svo mikið fólk komið upp á Orminn af liði jarls, sem vera mátti á skipinu, en skip hans lögðu að öllum megin utan að Orminum en lítið fjölmenni til varnar móti svo miklum her, nú þótt þeir menn væru bæði sterkir og fræknir þá féllu nú flestir á lítilli stundu.

En Ólafur konungur sjálfur og þeir Kolbjörn báðir hljópu þá fyrir borð og á sitt borð hvor. En jarlsmenn höfðu lagt utan að smáskútur og drápu þá er á kaf hljópu. Og þá er konungur sjálfur hafði á kaf hlaupið vildu þeir taka hann höndum og færa Eiríki jarli en Ólafur konungur brá yfir sig skildinum og steyptist í kaf. En Kolbjörn stallari skaut undir sig skildinum og hlífði sér svo við spjótum er lagt var af skipum þeim er undir lágu og féll hann svo á sjáinn að skjöldurinn varð undir honum og komst hann því eigi í kaf svo skjótt og varð hann handtekinn og dreginn upp í skútuna og hugðu þeir að þar væri konungurinn. Var hann þá leiddur fyrir jarl. En er þess varð jarl var að þar var Kolbjörn en eigi Ólafur konungur þá voru Kolbirni grið gefin.

En í þessi svipan hljópu allir fyrir borð af Orminum, þeir er þá voru á lífi Ólafs konungs menn, og segir Hallfreður svo að Þorkell nefja konungsbróðir hljóp síðast allra manna fyrir borð:

Ógræðir sá auða
armgrjóts Trönu fljóta,
hann rauð geir að gunni
glaðr, og báða Naðra,
áðr hjaldrþorinn héldi,
hugframr í böð ramri,
snotr af snæris vitni
sunds Þorketill undan.