Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/19
Hákon jarl gekk að eiga konu þá er hét Þóra, dóttir Skaga Skoftasonar, ríks manns. Þóra var allra kvinna fríðust. Þeirra synir voru Sveinn og Hemingur. Bergljót hét dóttir þeirra er síðan átti Einar þambarskelfir.
Hákon jarl var kvinnamaður mikill og átti mörg börn. Ragnhildur hét dóttir hans. Hana gifti hann Skofta Skagasyni bróður Þóru. Jarl unni Þóru svo mikið að hann gerði sér svo miklu kærri en aðra menn frændur Þóru og var þó Skofti mágur hans mest metinn af öllum frændum hennar. Jarl veitti honum stórar veislur á Mæri. En hvert sinn er þeir voru í leiðangri þá skyldi Skofti leggja skip sitt næst skipi jarls en engum skyldi það hlýða að leggja skip milli skipa þeirra.