Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/20

Heimskringla - Ólafs saga Tryggvasonar
Höfundur: Snorri Sturluson
20. Fall Tíðinda-Skofta

Það var á einu sumri er Hákon jarl hafði leiðangur úti, þá stýrði þar skipi með honum Þorleifur spaki. Eiríkur var og þar í fór. Var hann þá tíu vetra eða ellefu. En er þeir lögðu til hafnar á kveldum þá lét Eiríkur sér ekki líka annað en þeir legðu til lægis næst skipi jarls. En er þeir komu suður á Mæri þá kom þar Skofti mágur jarls með langskip vel skipað.

En er þeir róa að flotanum þá kallar Skofti að Þorleifur skuli rýma höfnina fyrir honum og leggja úr læginu. Eiríkur svarar skjótt, bað Skofta leggja í annað lægi.

Þetta heyrði Hákon jarl, að Eiríkur sonur hans þóttist nú svo ríkur að hann vill ekki vægja fyrir Skofta. Kallar jarl þegar, bað þá leggja úr læginu, segir að þeim mundi annar vera verri, segir að þeir mundu vera barðir. En er Þorleifur heyrði þetta hét hann á menn sína og bað leggja skipið úr tengslum og var svo gert. Lagði þá Skofti í lægið, það sem hann var vanur að hafa, næst skipi jarls.

Skofti skyldi segja tíðindi öll jarli þá er þeir voru báðir samt en jarl sagði Skofta tíðindi ef hann spurði fyrr. Hann var kallaður Tíðinda-Skofti.

Um veturinn eftir var Eiríkur með Þorleifi fóstra sínum en um vorið snemma fékk Eiríkur sér sveit manna. Þorleifur gaf honum skútu, fimmtánsessu með öllum reiða, tjöldum og vistum. Hélt Eiríkur þá út eftir firði og síðan suður á Mæri. Tíðinda-Skofti fór með fimmtánsessu skipaða millum búa sinna en Eiríkur leggur til móts við hann og til bardaga. Þar féll Skofti en Eiríkur gaf grið þeim mönnum er þá stóðu upp.

Svo segir Eyjólfur dáðaskáld í Bandadrápu:

Meita fór að móti
mjög síð um dag skíði
ungr með jöfnu gengi
útvers frömum hersi,
þá er riðloga reiðir
randvallar lét falla,
úlfteitir gaf átu
oft blóðvölum, Skofta.
Hoddsveigir lét hníga
harða ríkr, þá er barðist,
logreifis brástu lífi,
landmann Kíars, handa.
Stálægir nam stíga
stafns fletbálkar hrafna
af dynbeiði dauðum.
Dregr land að mun banda.

Síðan sigldi Eiríkur suður með landi og kom fram í Danmörk, fór þá á fund Haralds konungs Gormssonar og var þar með honum um veturinn. En eftir um vorið sendi Danakonungur Eirík norður í Noreg og gaf honum jarldóm og þar með Vingulmörk og Raumaríki til yfirsóknar með þeim hætti sem fyrr höfðu þar haft skattkonungar.

Svo segir Eyjólfur dáðaskáld:

Fólkstýrir var fára,
finnst öl knarrar linna,
suðr að sævar naðri,
setbergs, gamall vetra,
áðr að Yggjar brúði
élhvetjanda setja
Hildar hjálmi faldinn
hoddmildingar vildu.

Eiríkur jarl var síðan höfðingi mikill.